Skip to main content

Um Cand. psych. námið

Cand. psych. nám er fræðilegt og verklegt framhaldsnám við Sálfræðideild Háskóla Íslands. Námið uppfyllir skilyrði íslenskra laga um réttindi til að starfa sem sálfræðingur.

Cand. psych. námið tekur tvö ár (120e). Á fyrra árinu er áherslan á námskeið en seinna árið felst einkum í starfsþjálfun og vinnu að lokaverkefni (30e). Hægt er að velja um tvö áherslusvið:

  • Klínísk sálfræði fullorðinna
  • Klínísk barnasálfræði og skólasálfræði

Í náminu er boðið upp á fjölbreytt námskeið sem fjalla meðal annars um greiningar á geðröskunum og öðrum sálfræðilegum vanda, sálfræðileg próf, sálmeinafræði barna og unglinga og sálmeinafræði fullorðinna. Einnig eru kenndar aðferðir við meðferð barna, unglinga og fullorðinna, meðferð hegðunar- og námsvanda í skólum auk hagnýtrar atferlisgreiningar. 

Kennslan er fræðileg og hagnýt og miðar að þjálfun nemenda í að takast á við sálfræðileg viðfangsefni og að taka faglega afstöðu til álitamála með vísindalega aðferð að leiðarljósi.

Áhersla er lögð á starfsþjálfun undir handleiðslu sálfræðinga og er hún um fjórðungur af náminu.

Starfsþjálfunin fer víða fram á stofnunum utan háskólans, meðal annars hjá:

  • Landspítala-Háskólasjúkrahúsi
  • Þroska- og hegðunarstöð ríkisins
  • Þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar 
  • Reykjalundi
  • Kvíðameðferðarstöðinni
  • Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Nemendur öðlast einnig mikilvæga þjálfun í Sálfræðiráðgjöf háskólanema sem Sálfræðideildin rekur.

Meðal fastráðinna kennara í náminu má nefna fjóra kennara með sérhæfingu í klínískri sálfræði, einn kennara með sérhæfingu á sviði atferlisgreiningar og atferlismeðferðar og kennara sem sérhæfa sig í próffræði og tölfræði.

Tengt efni