Skip to main content
23. júní 2021

Tvenns konar tjaldar hérlendis

Tvenns konar tjaldar hérlendis - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tjaldurinn er einkar áberandi í íslenskri náttúru þessa dagana því hann er stór og hávær og stendur gjarnan upp úr melunum, svartur og hvítur, með sinn langa rauðgula gogg og rauðbleika háa fætur. Hann er líka mjög áberandi í borgarlandinu og verpir hér víða, jafnvel á umferðareyjum og hringtorgum og á húsþökum.

Hann á það líka til að verpa þar sem hann virðist alveg berskjaldaður en margir taka eftir honum á vegöxlum, jafnvel við fjölförnustu þjóðvegi landsins. Hann kippir sér ekkert upp þótt bílar þjóti hjá. Tjaldurinn er mjög félagslyndur fugl og því er oft hægt að sjá hann í hópum, ekki síst á veturna. 

„Tjaldur er sérkennilegur vegna þess að ólíkt öðrum vaðfuglum þá fóðra fullorðnu fuglarnir ungana en láta þá ekki um að bjarga sér upp á eigin spýtur. Ungarnir eru af þessum sökum gjarnan vel fóðraðir þar sem fullorðnir fuglar þekkja varplandið gríðarlega vel og þá möguleika sem svæðið býður upp á varðandi ætisleitina.“ 

Þetta segir Verónica Méndez Aragón sem stundaði rannsóknir sínar á tjaldi sem nýdoktor við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi. Hún hefur varið stórum hluta af sínum vísindaferli hérlendis við að rannsaka þennan fallega vaðfugl. Rannsóknirnar hófust af fullum þunga sumarið 2015 og hafa verið fjármagnaðar af Rannís og breska rannsóknaráðinu NERC.

Verónica segir að sunnanlands sé stærstur partur af stofninum í túnum, á graslendi og í móum en víða annars staðar haldi hann meira til í fjörum. Hún segir að tjaldurinn lifi ekki á sömu fæðunni á þessum ólíku stöðum. Í túnum og móum leiti tjaldurinn að ánamöðkum með gogginum og grafi djúpt en í fjörum lifi hann aðallega á sandmaðki sem hann grefur eftir, á kræklingi og öðrum hryggleysingjum. Þess ólíka hegðun fuglana við fæðuöflun aðgreinir örlítið útlit þeirra.

„Þeir tjaldar sem sækja í æti í fjörum hafa breiðan og þykkan gogg. Þeir tjaldar sem halda hins vegar til inn til landsins og lifa mestmegnis á ormum, þeir hafa hvassan gogg,“ segir Verónica.
 

Verónica heldur á tjaldi