Tilnefning til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands | Háskóli Íslands Skip to main content
8. febrúar 2019

Tilnefning til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands voru veitt miðvikudaginn 6. febrúar síðastliðinn. Að þessu sinni voru fimm öndvegisverkefni tilnefnd til verðlaunanna, þar á meðal eitt frá nemendum Félagsvísindasviðs. Verkefnið ber heitið Nýjar leiðir í innleiðingarferli stefnumótunar við eflingu máls og læsis á frístundarheimilum en að því standa Fatou N'dure Baboudóttur, doktorsnemi í þróunarfræðum og Tinnu Björk Helgadóttur meistaranemi í opinberri stjórnsýslu.

Markmið verkefnisins var að skoða hvort tækifæri væru til eflingar máls og læsis á frístundaheimilum Reykjavíkurborgar. Á grunni rannsóknar var hönnuð og gefin út handbókin Frístundalæsi til stuðnings við starfsfólk frístundaheimila með fjölbreyttum leiðum til að efla læsi barna. Handbókin stendur öllum til boða endurgjaldslaust og hægt er að nálgast hér.

Notast var við eigindlegar rannsóknaraðferðir og tekin viðtöl við lestrarsérfræðinga, deildarstjóra frístundamiðstöðva Reykjavíkurborgar og forstöðumenn frístundaheimila. Helstu niðurstöður benda til þess að margskonar tækifæri séu til staðar á frístundaheimilum til eflingar máls og læsis. Færa má rök fyrir því að vettvangurinn sé að mörgu leyti vannýttur til markvissrar eflingar læsis, en gæti verið mikilvægur í Þjóðarátakinu um betra læsi barna.

Handbókin Frístundalæsi leggur til ólíkar nálganir við eflingu máls og læsis fyrir börn sem dvelja á frístundaheimilum. Hún er hugmyndabanki þar sem m.a. er hægt að finna 10 einföld atriði sem hvert frístundaheimili getur framkvæmt, margskonar leiki og verkefni fyrir börn og fræðsluefni fyrir starfsfólk. Þegar er hafin kynning á verkefninu meðal starfsfólks og stjórnenda frístundaheimila í Reykjavíkurborg, og áform eru um að fara út á land einnig. Von höfunda er að handbókin geti nýst starfsfólki frístundaheimila til að efla mál og læsi barna og þannig stuðlað að bættum árangri þeirra.

Umsjónarmaður verkefnisins var Margrét S. Björnsdóttir, aðjúnkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. 

Tinna Björk Helgadóttir meistaranemi í opinberri stjórnsýslu og Fatou N'dure Baboudóttir, doktorsnemi í þróunarfræðum.