Skip to main content
20. júlí 2020

Þróar kennsluefni í íslensku fyrir útlendinga á YouTube

Lengi hefur verið talað um mikilvægi þess að við varðveitum íslenska tungu, samhliða aukinni tækniþróun í heiminum, og ólíkar hugmyndir hafa sprottið fram. Ljóst er að mörgum þykir íslenskan heillandi og fólk hvaðanæva að úr heiminum virðist hafa áhuga á að læra hana. Íslenskukennsla fyrir útlendinga á netinu er eitthvað sem Iðunn Ýr Halldórsdóttir vinnur að því að þróa nú í sumar.

Iðunn er nýútskrifuð með BA-gráðu í málvísindum frá McGill-háskóla í Kanada en í haust hefur hún nám í alþjóðlegri menntunarfræði við Háskóla Íslands. Í BA-náminu lagði hún áherslu á máltöku og fjöltyngi sem eru svið sem hún hefur mikinn áhuga á. Nú vinnur hún að gerð kennsluefnis á myndbandsformi, hugsað til að kenna útlendingum íslensku, og er verkefnið styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Myndböndin verða birt á miðlinum YouTube en annað aukaefni verður birt á vefsíðu verkefnisins.

„Ég hef búið erlendis í nokkur ár og hef oft heyrt fólk segja að því langi til að læra íslensku. Það er þá til dæmis vegna þess að því langar að flytja til Íslands eða vill geta lesið sér meira til um norræna goðafræði. Svo eru sumir bara tungumálanörd og íslenska er smá í tísku. Ég hef einnig hitt fólk á Íslandi sem er af erlendum uppruna og langar að læra íslensku en hefur hreinlega ekki tíma í að sitja námskeið, til dæmis vegna vinnu. Ég hef sjálf mikinn áhuga á að auka aðgengi að námi og hef verið heilluð af kennslumyndböndum og auknum vinsældum þeirra seinustu ár,“ segir Iðunn Ýr en hún sjálf kann nokkur tungumál.

„Ég tala íslensku, ensku og frönsku og hef gert frá því ég var fimm ára. Ég hef ennþá brennandi áhuga á að læra fleiri tungumál en ég lærði náttúrulega dönsku í grunn- og menntaskóla og fór svo til Noregs í eina önn, þegar ég var í Menntaskólanum við Hamrahlíð, til að læra norsku. Ég hef einnig setið bæði þýsku- og ítölskutíma en þó ég geti mögulega bjargað mér, þurfi ég að spyrja til vegar eða slíkt á þeim tungumálum, þá þykist ég nú ekki kunna þau mál almennilega.“

Þessa dagana er Iðunn að kynna sér rannsóknir sem gerðar hafa verið á kennslumyndböndum og virkni þeirra, ólíklegar kennsluaðferðir, myndbandagerð og íslenska málfræði. Auk þess skoðar hún hvaða þættir haldi athygli áhorfenda sem best og hvaða aðferðir hafi reynst vel hingað til. „Ég er einnig að setja saman kennsluskrá og skrifa handrit að myndböndunum sem ég mun svo framleiða bráðlega. Myndböndin mega ekki vera of löng og heldur ekki of mörg. Það skiptir einnig máli að myndböndin séu aðgengileg og auðvelt að finna svo heil hlið af þessu verkefni snýst um markaðssetningu,“ segir hún.

Iðunn vonast til þess að myndböndin komi til með að hjálpa fólki sem flutt hefur til Íslands við að aðlagast íslensku samfélagi. Hún segir íslenskuna mjög fallega og skemmtilega og mikilvægt sé að varðveita hana. „Við erum ekki það mörg í heiminum sem tölum þetta tungumál og ég held það sé alltaf jákvætt þegar fólk vill læra það.“

Iðunn Ýr er nýútskrifuð með BA-gráðu í málvísindum frá McGill háskóla í Kanada en í haust hefur hún nám í alþjóðlegri menntunarfræði við Háskóla Íslands.