Skip to main content
1. mars 2016

Þekkingin lágmarkar skemmdir

""

Fjölmargt getur orsakað jarðskjálfta en hér á landi eru þeir stundum undanfari eldsumbrota. Það er því hluti af starfi jarðvísindamanna að vakta hreyfingar á jarðskorpunni, ekki síst til að vara við eldgosum. 

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir að jarðskjálfti verði þegar mikil spenna myndist í bergi og nær brotmörkum þess. Það er gjarnan nátengt flekahreyfingum jarðskorpunnar, þar sem flekarnir nuddast saman eða færast sundur eða hver undir annan. Þegar bergið brotnar losnar mikil orka sem berst í allar áttir í formi bylgjuhreyfingar sem við finnum sem jarðskjálfta. Þeir stærstu geta valdið gríðarlegu tjóni.

Jarðskjálftar eru stór hluti af þeirri vá sem Íslendingar lifa við en sem betur fer eru fæstir jarðskjálftar hér stórir þótt fjöldi smáskjálfta sé mældur víða um land á degi hverjum. 

„Þar sem við lifum í landi þar sem stórir jarðskjálftar verða, þá er nauðsynlegt að hanna mannvirki með tilliti til þeirra,“ segir Símon Ólafsson, vísindamaður við Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði. „Til að hanna mannvirki á hagkvæman hátt er nauðsynlegt að þekkja stærð þeirra krafta sem verða til af völdum jarðskjálfta. Aukna þekkingu má nýta til að halda manntjóni og skemmdum á mannvirkjum í lágmarki.“ 

Rannsóknarmiðstöðin rekur kerfi af hröðunarmælum sem gagnast til að safna upplýsingum um áhrif jarðskjálfta, sem er forsenda til að meta þá áraun sem mannvirki verða fyrir í stórum jarðskjálftum. „Markmiðið er að þróa betri stærðfræðilíkön til að fá fram raunhæfari hönnunarforsendur fyrir mannvirki hér á landi,“ segir Símon.

Miklar rannsóknir hafa farið fram í jarðskjálftaverkfræði en Ragnar Sigbjörnsson, prófessor og stofnandi Rannsóknarmiðstöðvarinnar, var með afkastamestu vísindamönnum Háskóla Íslands og virtur innan síns fræðasviðs um allan heim. Hann lést í júlí árið 2015. „Ragnar var framúrskarandi fræðimaður og vann þrekvirki í því að efla hér rannsóknir í jarðskjálftaverkfræði. Ég var einn fjölmargra nemenda sem naut leiðsagnar hans, sem kveikti áhugann á viðfangsefninu,“ segir Símon. Að hans sögn eykst smám saman þekking á þessu mikilvæga fræðasviði eftir því sem fleiri og betri mælingar fást á jarðskjálftum af stærri gerðinni. 

„Komið hefur í ljós mismunur á þeirri jarðskjálftaáraun sem við mælum hér miðað gögn erlendis frá á m.a. rætur að rekja til mismunandi jarðlagagerðar,“ segir Símon, sem finnst rannsóknastarfið mjög fjölbreytilegt og skemmtilegt en niðurstöðurnar eru auðvitað mikilvægar, bæði samfélagslega og vísindalega. 

„Það er krefjandi að stunda rannsóknir af þessu tagi og auðvitað ekki hægt nema áhuginn sé mikill á viðfangsefninu. Ég er einnig sannfærður um gagnsemi rannsóknanna sem er ekki alltaf augljós í fyrstu en hún skilar sér að lokum.“

Símon Ólafsson
Símon Ólafsson