Skip to main content
8. mars 2020

Taktu þátt í að vefa meira efni á Wikipediu í þágu jafnréttis

""

Háskóli Íslands og hópur hagsmunafélaga innan skólans standa í annað sinn fyrir viðburði þar sem ætlunin er að auka veg kvenna og hinsegin fólks á upplýsingavefnum Wikipediu. Viðburðinn, sem fer fram að kvöldi 11. mars, er öllum opinn.

Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri og Listaháskóli Íslands stóðu í fyrra fyrir viðburðinum #wiki4women í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið, UNESCO og Wikipedia Foundation í tilefni af Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars.

Tilgangurinn var að auka umfjöllun um konur á upplýsingasíðum Wikipedia. Í kjölfarið kom rektor Háskóla Íslands á fót verkefni til að stuðla enn frekar að umfjöllun um háskólakonur og er afrakstur þess um 100 nýjar færslur um íslenska kvenprófessora.

Þann 11. mars næstkomandi verður þráðurinn tekinn upp þar sem öllum áhugasömum gefst færi á að skrifa nýjar greinar á Wikipedia. Sérstök áhersla verður lögð á skrif greina um konur og hinsegin fólk á íslensku og ensku. 

Viðburðurinn fer fram miðvikudaginn 11. mars nk. í stofu 104 á Háskólatorgi milli 18:00 og 20:30. Þátttakendur eru beðnir um að mæta með eigin tölvur en boðið verður upp á flatbökur og gos á meðan viðburðinum stendur.

Að viðburðinum standa Femínistafélag Háskóla Íslands, Ada - Hagsmunafélag kvenna í upplýsingatækni við HÍ, Jafnréttisnefnd SHÍ, Q – félag hinsegin stúdenta og Háskóli Íslands.
 

""