Starfsþjálfun Viðskiptafræðideildar gefur góða raun | Háskóli Íslands Skip to main content
5. febrúar 2021

Starfsþjálfun Viðskiptafræðideildar gefur góða raun

Starfsþjálfun Viðskiptafræðideildar gefur góða raun - á vefsíðu Háskóla Íslands

Sautján nemendur taka þátt í starfsþjálfun Viðskiptafræðideildar á vormisseri 2021 og vettvangur þeirra er afar fjölbreyttur, allt frá ráðuneytum og stofnunum til alþjóðlegra fyrirtækja. Fulltrúar fyrirtækja sem buðu nemendum í starfsþjálfun í haust segja samstarfið hafa gengið afar vel þrátt fyrir krefjandi aðstæður kórónuveirufaraldursins.

Markmiðið með starfsþjálfuninni er að þjálfa nemendur hjá fyrirtæki, stofnun, félagasamtökum eða ráðuneyti í að vinna störf sem snúa beint að námi þeirra við Viðskiptafræðideild. Unnið er undir leiðsögn ábyrgðarmanna að fjölbreyttum verkefnum sem snerta viðskiptafræði, s.s. fjármálum, markaðsmálum, reikningshaldi eða stjórnun.

Ávinningurinn er ótvíræður fyrir báða aðila því nemendur öðlast reynslu og þekkingu af starfi sem tengist beint námi þeirra undir leiðsögn sérfræðinga í atvinnulífinu og fá tækifæri til að beita fræðilegri þekkingu á raunveruleg viðfangsefni. Þá myndast tengsl milli nemenda og starfsfólks og stjórnendur fyrirtækja fá starfskrafta sem beita nýjustu þekkingu á viðfangsefnin og mögulega framtíðarstarfsmenn.

Nemendurnir 17 sem taka þátt í starfsþjálfun nú verða hjá eftirtöldum samstarfsaðilum deildarinnar: Bónus, Fjármálaráðuneytinu, Framkvæmdasýslu ríkisins, HN markaðssamskiptum, Markaðs- og samskiptasviði Háskóla Íslands, Hvíta húsinu, PwC, Samkeppniseftirlitinu, Sjávarklasanum, Stafrænu Íslandi, Vegagerðinni, Vísindagörðum Háskóla Íslands og Össuri. 

Byrjað var að bjóða upp á starfsþjálfun á vegum Viðskiptafræðideildar haustið 2020 og hefur hún gengið afar vel að mati bæði nemenda og tengiliða hjá fyrirtækjunum.

„Það var frábært að fá tækifæri til að vera í samstarfi við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og vinna með nemanda í starfsþjálfun haustið 2020. Við vorum að leita að nemanda sem hefur brennandi áhuga á mannauðsmálum og það hafði viðkomandi svo sannarlega. Samstarfið hefur gengið mjög vel þar sem nemandinn sem kom til okkar hefur verið jákvæð og áhugasöm varðandi þau verkefni sem við höfum unnið og sýnt frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð. Við höfum þurft að vera sveigjanleg og endurskoða val á verkefnum í samstarfinu vegna þeirra aðstæðna sem við búum öll við vegna heimsfaraldursins og drögum báðar aukinn lærdóm af ferlinu þar af leiðandi,“ segir Vala Jónsdóttir sem starfar á mannauðssviði alþjóðlega stoðtækjafyrirtækisins Össurar.

Vala segir að verkefni í mannauðsmálum innan fyrirtækisins séu fjölbreytt, enginn dagur sé eins „en enginn hefur áður gengið í gegnum jafn mikla umbreytingu á vinnumarkaði á jafn skömmum tíma. Nemendur fá verðmæta innsýn í þær starfsaðstæður sem sköpuðust á árinu 2020 og það verður gaman að fylgjast með þeim vaxa í starfi í framtíðinni. Við þökkum nemandanum og Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands kærlega fyrir samstarfið og hlökkum til að fá annan nemanda til liðs við okkur á vorönn 2021.“

Vala Jónsdóttir