Skip to main content
10. júní 2018

Skordýraskoðun í Elliðaárdalnum á miðvikudag

Pöddur eru um áttatíu prósent allra dýrategunda á jörðinni og nú fá fróðleiksfúsir Íslendingar tækifæri til að skoða skordýrin í algjöru návígi með vísindamönnum Háskóla Íslands. Háskólinn og Ferðafélag barnanna stefna nefnilega enn á ný í rannsóknaferð um Elliðaárdal þar sem leitað verður skordýra í laufi og vatni nærri Rafstöðinni í Elliðaárdal.  Gangan þetta árið verður miðvikudaginn 13. júní kl. 17 en mæting er við gömlu rafstöðina við Elliðaár. Skordýr eru langstærsti flokkur dýra í heiminum. Því má reikna með fjölbreyttu lífríki við Elliðaárnar á miðvikudag og veðurspá er þokkaleg til skordýraskoðunar.  

Ókeypis er í gönguna eins og allar aðrar í röðinni Með fróðleik í fararnesti. 

Líklega mun göngufólk sjá mýflugur, humlur, feta, blaðlýs, bjöllur og fjölmargar tegundir af lirfum, t.d. fiðrildalirfur, mýlirfur og vorflugulirfur. Fjöldi nemenda í líffræði við Háskóla Íslands mun leiða gönguna og mæta með smásjár og ýmsan búnað til auðvelda skoðun á þessum smádýrum. 

Lagt verður af stað frá gömlu rafstöðinni við Elliðaár kl. 17 á miðvikudag og er gert ráð fyrir að gönguferðin taki um það bil tvær klukkustundir. Göngumenn eru hvattir til að taka með sér stækkunargler til að njóta betur þeirra undra sem fyrir augu ber og að auki vaðstígvél þar sem líklega verður blautt á. Ferðin er farin í samvinnu Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands og er hún hluti af dagskrá Ferðafélags barnanna sem er angi innan Ferðafélagsins.

Ljóst er að margt forvitnilegt verður að sjá á miðvikudag enda eru stofnstærðir skordýra mun meiri en annarra dýra. Í Mývatni eru t.d. um hundrað þúsund mýlirfur á fermetra þegar stofnar eru stærstir og ein milljón á fermetra af bitmýi í Laxá í S-Þingeyjarsýslu þegar mest er. 

Skordýr eru helsti keppinautur mannsins um fæðu og áætlað er að í Bandaríkjunum fari um tuttugu prósent af nytjaplöntum í skordýr, m.a. hveiti, bygg, maís og ýmsar aðrar plöntur sem menn nýta sér sem fæðu. Í þriðja heiminum er þetta enn meira. Eytt er milljörðum króna í heiminum á ári hverju í að halda skordýrum niðri. 

Skordýr eru engu að síður gríðarlega mikilvæg í lífríkinu og líka fyrir okkur mennina. Þau framleiða t.d. mikilvæg efni sem við notum í okkar daglega lífi, eins og silki, hunang og vax. Að auki eru þau fæða dýrategunda sem við neytum, t.d. vatnafiska, og að auki fæða margra fuglategunda. Skordýr frjóvga auk þess allar blómplöntur og ef þeirra nyti ekki við þá væru blómplöntur ekki til. Þau gegna einnig því hlutverki að brjóta niður lífrænar leifar í náttúrunni, t.d. hræ dýra og dauðar plöntur.

Þessu til viðbótar gegna skordýr mikilvægu hlutverki í rannsóknum á erfðafræði.

Skordýrin geta líka verið skaðleg í of miklu magni og einnig borið sjúkdóma á milli manna, eins og moskítóflugur sem bera malaríu, en þá sjúga kvenflugur blóð úr landdýrum til að safna orku til að framleiða egg og verpa.

Margir hafa tekið eftir nýjum skordýrum hér undanfarin ár og hefur tegundum fjölgað mikið á Íslandi síðustu áratugina. Hlýnun getur valdið því að fleiri skordýrategundir nái upp stofni hérlendis. Á síðustu árum hafa bæst við tvö til þrjú hundruð nýjar tegundir og eru tegundir stöðugt að bætast við. Mest áberandi á Íslandi eru nýjar humlur og geitungar, ein tegund af lúsmýi sem bítur fólk, ein vorfluga auk nýrra fiðrilda. 

Eins og áður segir er gangan hluti af samfélagsverkefni Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands sem hófst á aldarafmæli Háskólans árið 2011. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans blandast saman í þessum stórskemmtilegu gönguferðum. Markmiðið með þeim er að vekja áhuga almennings á fræðslu og hollri útivist. Um leið er vakin athygli og vonandi áhugi á fjölbreyttri starfsemi Háskóla Íslands og Ferðafélagsins.

Þátttakendur í pöddugöngu fyrir ári
Barn skoðar skordýr í smásjá