Skip to main content
13. febrúar 2023

Sigrún Sunna nýr lektor við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild

 Sigrún Sunna nýr lektor við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild - á vefsíðu Háskóla Íslands

Sigrún Sunna Skúladóttir hefur verið ráðin í fullt starf lektors í Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands.

Sigrún Sunna lauk doktorsprófi frá Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands í júní 2022 og meistaranámi í hjúkrunarfræði frá sama skóla 2014. Hún lauk BS-prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 2008 og viðbótardiplóma í bráðahjúkrun frá sama skóla 2010. Sigrún Sunna stundar nú diplómanám í kennslufræði við Háskóla Íslands sem hún er langt komin með.

Sigrún Sunna hefur víðtæka klíníska reynslu og hefur undanfarið starfað á Landspítala og hjá Öryggismiðstöðinni auk þess að gegna stöðu aðjunkts í Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild. Hún hefur sinnt kennslu í hjúkrun af krafti, haft umsjón með námskeiðum og sinnt jafnt bóklegri sem klínískri kennslu og leiðbeint BS-nemum. Einnig hefur hún sinnt kennslu í öðrum deildum skólans, svo sem á sviði þverfaglegrar samvinnu, samskipta og aðferðafræði. Sérsvið hennar er hjúkrun aðgerðasjúklinga og aldraðra og er rannsóknareynsla hennar fjölbreytt. Hefur hún m.a. unnið með gögn AGES-rannsóknar Hjartaverndar og SPRINT. Sigrún Sunna vinnur nú að rannsókninni „Sjúklingar sem fóru í aðgerð á Landspítala vegna mjaðmabrots árin 2013-2018“ ásamt samstarfsfólki á Landspítala.

Sigrún Sunna hefur ennn fremur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum innan lands og utan. Hún er formaður Beinverndar og varaformaður Fagdeildar í bæklunarhjúkrun auk þess sem hún situr í stjórn The International Collaboration Orthopaedic Nursing (ICON) og í ritnefnd fyrir ritrýndar greinar í Tímariti hjúkrunarfræðinga. Sigrúnu Sunnu tekst einkar vel að flétta saman klínísk störf, kennslu og rannsóknir sem er lykill að farsælli vegferð í akademísku starfi í hjúkrun.

Sigrún Sunna Skúladóttir