Skip to main content
14. febrúar 2022

Samstarfssamningur HÍ og Reykjavíkurborgar um jafnréttisrannsóknir endurnýjaður

Samstarfssamningur HÍ og Reykjavíkurborgar um jafnréttisrannsóknir endurnýjaður - á vefsíðu Háskóla Íslands

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu endurnýjaðan samstarfssamning Háskólans og Reykjavíkurborgar um jafnréttisrannsóknir í húsakynnum Hótels Sögu föstudaginn 11. febrúar. Við sama tilefni kynnti borgarstjóri sér þær breytingar sem eru að verða á hlutverki byggingarinnar.

RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum mun hafa umsjón með framkvæmd samningsins fyrir hönd Háskóla Íslands en mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands hafa átt með sér samstarf á þessu sviði allt frá árinu 2000. 

Markmið samstarfsins er að stuðla að auknum jafnréttisrannsóknum og miðlun fræðilegrar þekkingar á sviðinu milli aðilanna tveggja með áframhaldandi rannsóknum og fræðslu á sviði jafnréttisfræða. Sú starfsemi sem fer fram á vegum RIKK og í beinum tengslum við stofnunina ber því glöggt vitni að samningurinn hefur haft mikil áhrif og stutt við nýsköpun bæði við uppbygginu náms og rannsókna við Háskóla Íslands. 

Auk rektors og borgarstjóra voru viðstaddar undirritunina Ólöf Garðarsdóttir, forseti Hugvísindasviðs, Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður RIKK, og Elín Björk Jóhannsdóttir, verkefnisstjóri RIKK.

Í heimsókn borgarstjóra í Sögu kynntu Jón Atli og Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, einnig fyrir borgarstjóra fyrirhugaðan flutning Menntavísindasviðs í húsið á næstu misserum. Auk þess var farið í kynnisferð um húsið en þar verða einnig fjölmargar stúdentaíbúðir á vegum Félagsstofnunar stúdenta. Viðstödd voru einnig fleiri fulltrúar Háskólans, Félagsstofnunar stúdenta og Stúdentaráðs. 

 

Frá undirritun samstarfssamningsins. Frá vinstri: Elín Björk Jóhannsdóttir, verkefnisstjóri RIKK,  Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður RIKK, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Ólöf Garðarsdóttir, forseti Hugvísindasviðs, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.