Skip to main content
28. maí 2019

Rýnt í flókið samband heilsu og ójöfnuðar

Hvers vegna glíma sumir hópar í samfélaginu frekar við heilsubrest en aðrir og hvaða aðgerðir geta stuðlað að meira jafnrétti í heilsu og vellíðan? Fræðafólk við Háskóla Íslands og fleiri sérfræðingar rýna í þessar og fleiri spurningar á sérstöku málþingi á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, félagsmálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins sem fram fer á Hotel Reykjavik Natura á morgun, miðvikudaginn 29. maí. Yfirskrift ráðstefnunnar er „Equity in Health and Wellbeing - Challenges in the Nordic Region“ og eins og nafnið bendir til er meginþema hennar heilsa og og vellíðan í norrænu ríkjunum.

Tveir af fimm aðalfyrirlesurum tengjast Háskóla Íslands, þau Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði, og Jason Beckfield, prófessor í félagsfræði við Harvard-háskóla og gestaprófessor við Háskóla Íslands, en hann er einn af virtustu félagsfræðingum á sínu sviði í heiminum. Stór hluti rannsókna bæði Sigrúnar og Jasons tengjast ójöfnuði og þá meðal annars áhrifum hans á heilsu. „Við Jason kynntumst í doktorsnámi í Indiana-háskólanum fyrir 20 árum og rannsóknarefni okkar beggja snerta ójöfnuð, velferðarkerfið og heilsu. Jason gaf nýlega út bókina, Political Sociology and the People´s Health, hjá Oxford University Press en þar bendir hann á mikilvægi þverfaglegrar samvinnu til að öðlast betri skilning á heilsu almennings,“ segir Sigrún og bætir við að hann velti því sérstaklega upp hvernig sjónarhorn stjórnmálafélagsfræðarinnar og lýðheilsunnar geti unnið saman til að auka slíkan skilning. 
 
Að sögn Sigrúnar tengist ráðstefnan formennskuári Íslands hjá Norrænu ráðherranefndinni en í tengslum við það vinnur hún að skýrslu á vegum Nordic Social-Statistical Committee (NOSOSKO) og Nordic Medico-Statistical Committee (NOMESKO) undir forystu félagsmálaráðuneytisins. „Í henni er ætlunin að halda áfram vinnu sem hófst á formennskuári Norðmanna þar sem valdar voru sjö mælingar sem má nýta til að meta ójöfnuð í heilsu milli norrænu ríkjanna. Mitt hlutverk er að byggja ofan á þessa vinnu með því að skoða fræðilegar forsendur þessara mælinga með dýpri hætti með áherslu á hvernig draga má úr ójöfnuði í heilsu. Við vitum að slíkur ójöfnuður er til staðar á Norðurlöndunum en veltum fyrir okkur hvort hægt sé að komast að því hvort ákveðin stefnumótun, t.d. breytingar innan velferðarkerfisins, geti dregið úr ójöfnuði,“ segir hún.

Félagsfræðin með ótal tæki til að meta heilsu og jöfnuð
Auk Sigrúnar og Jason flytja fleiri félagsfræðingar við Háskóla Íslands erindi ásamt fræðafólki úr öðrum deildum skólans. Aðspurð hvaða tæki félagsfræðin hafi til að mæla ójöfnuð í heilsu segir Sigrún þau vera mörg enda horfi félagsfræðin breitt á samfélagið. „Til að mæla heilsu getum við skoðað hana út frá samfélaginu í heild, eins og gert er t.d. í tölum ýmissa alþjóðlegra stofnana um lífslíkur, tíðni ákveðinna sjúkdóma eða dánartíðni, en jafnframt skoðað hana út frá einstaklingunum sjálfum, t.d. með því að nota kvarða fyrir þunglyndi eða það hvernig fólk metur eigin heilsu. Til að skilja eitthvað eins flókið og ójöfnuð í heilsu þarf margs konar gögn því þá færðu bæði breiðari og dýpri mynd af veruleikanum,“ segir hún og undirstrikar að engin ein mæling fangi allan veruleikann um heilsu og vellíðan fólks.

Misjafnt hvað samfélög gera til að draga úr ójöfnuði
Á ráðstefnunni hyggst Sigrún fara yfir það hvernig félagsfræðin hefur aukið skilning okkar á sambandi heilsu og ójöfnuðar. Þar mun hún m.a. koma inn á rannsóknir sínar en næstum tveir áratugir eru síðan hún hóf að velta þessu viðfangsefni fyrir sér, þá sem doktorsnemi í Bandaríkjunum. „Það má í raun segja að svo lengi sem við höfum ójöfnuð í samfélagi þá munum við hafa ójöfnuð í heilsu. Við höfum ójöfnuð í öllum samfélögum en það er mjög breytilegt hversu mikið er gert til þess að draga úr honum. Gott dæmi um þetta er munurinn á Íslandi og Bandaríkjunum. Ójöfnuðurinn hér er mun minni en í Bandaríkjunum og ríkið sjálft og kerfin okkar beinast mun meira að því að draga úr honum, með það markmið að minnka afleiðingar ójafnaðar. Það er því grundvallaratriði að skoða bæði samband ójöfnuðar og heilsu í alþjóðlegum samanburði en jafnframt að öðlast skilning á kerfi hvers lands og hvað er verið að gera til þess að breyta þessu sambandi eða draga úr því,“ segir hún enn fremur. 

„Til að mæla heilsu getum við skoðað hana út frá samfélaginu í heild, eins og gert er t.d. í tölum ýmissa alþjóðlegra stofnana um lífslíkur, tíðni ákveðinna sjúkdóma eða dánartíðni, en jafnframt skoðað hana út frá einstaklingunum sjálfum, t.d. með því að nota kvarða fyrir þunglyndi eða það hvernig fólk metur eigin heilsu. Til að skilja eitthvað eins flókið og ójöfnuð í heilsu þarf margs konar gögn því þá færðu bæði breiðari og dýpri mynd af veruleikanum,“ segir Sigrún.

Er hægt að sannreyna að tiltekin stefnubreyting hafi áhrif á ójöfnuð?
Sigrún hyggst einnig velta því upp hvers konar rannsóknir hjálpa okkur að meta hvað í stefnumótun samfélaga virkar. „Getum við séð að ein tiltekin stefnubreyting hafi áhrif á ójöfnuð þegar við erum með jafnflókin samfélög og þau sem við búum í? Það er erfitt en ákveðnar félagsfræðirannsóknir hafa farið nálægt því að sýna fram á þetta. Ef við horfum t.d. á velferðaríkin á Norðurlöndum þá eru engar efasemdir um það að lífskjör eru þar með þeim bestu í heiminum. Heilsa okkar er góð í alþjóðlegum samanburði og ójöfnuður er almennt minni en annars staðar. Þegar þetta kemur allt saman þá mótar það líf og tækifæri okkar í samfélaginu en næsta skref er að mæla þetta með nákvæmari hætti,“ segir Sigrún.

Þegar talið berst að sambandi ójöfnuðar og heilsu hér á landi segir Sigrún að ýmislegt þurfi að skoða með dýpri hætti en gert hefur verið og bendir til dæmis á ójöfnuð milli hverfa í Reykjavík sem hún segir að sé hugsanlega og sennilega að aukast. „Þá vaknar spurningin: Hvaða afleiðingar hefur það fyrir heilsu fólks? Félagsfræðin leggur áherslu á að skilja fólk innan félagsveruleika þess og ég hef áhuga á því að öðlast dýpri skilning á heilsu og vellíðan fólks, hvers konar aðstæður það býr við, hvers konar áskoranir það glímir við á hverjum degi og hvaða bjargir og tækifæri það hefur til að bregðast við þeim áskorunum,“ segir Sigrún.

Að lokum minnist Sigrún á þá jákvæðu þróun að að aukin áhersla sé nú innan vísindanna á að velta fyrir sér þýðingu rannsókna fyrir stefnumótun í samfélaginu. „Það vekur þig betur til umhugsunar um af hverju rannsóknirnar sem þú ert að sinna skipta máli og hvernig þær geta hugsanlega bætt aðstæður einstaklinga og hópa í samfélaginu,“ segir hún að lokum. 

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna Equity in Health and Wellbeing - Challenges in the Nordic Region. 

Sigrún Ólafsdóttir