Skip to main content
20. nóvember 2023

Rektor áfram á lista Clarivate yfir fremstu vísindamenn heims

Rektor áfram á lista Clarivate yfir fremstu vísindamenn heims - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, er sjötta árið í röð á á lista hins virta greiningarfyrirtækis Clarivate Analytics yfir áhrifamestu vísindamenn heims.

Listinn kallast Highly Cited Researchers og byggist á gögnum úr gagnabankanum Web of Science þar sem finna má upplýsingar um það hversu oft er vitnað til rannsókna vísindamanna um allan heim. Listinn byggist jafnframt á ítarlegri gæðaskoðun á þeim gögnum og mati sérfræðinga. Listinn nær til þess eins prósents vísindamanna innan hverrar fræðigreinar sem mest er vitnað til í vísindagreinum sem birtast í alþjóðlegum vísindatímaritum. Listinn í ár nær til nærri 6.900 vísindamanna á 20 mismunandi fræðasviðum og horft er til tilvitnana í rannsóknir þeirra á árabilinu 2012-2022.

Jón Atli er á lista Clarivate yfir fremstu vísindamenn heims á sviði jarðvísinda en það helgast af því hversu framarlega hann er á sviði fjarkönnunar og stafrænnar myndgreiningar sem er mikið nýtt innan þess fræðasviðs. Fjarkönnun felst í því að taka stafrænar myndir úr flugvélum, drónum og gervitunglum af yfirborði jarðar og vinna úr þeim hvers kyns upplýsingar um breytingar á jörðinni. Slíkar myndir eru t.d. mikið notaðar við vöktun á þeim breytingum sem nú eiga sér stað á Reykjanesi í tenglsum við jarðhræringarnar þar en jafnframt til að fylgjast með hopun jökla, útbreiðslu skóga og gróðurs og ýmsu öðru. 

Það er til marks um styrk Jóns Atla sem vísindamanns og þeirrar virðingar og áhrifa sem rannsóknir hans njóta að hann hefur verið rektor Háskóla Íslands frá árinu 2015 og á þeim tíma ekki sinnt rannsóknum í sama mæli og fyrr á ferlinum. 

Eftir Jón Atla liggja yfir 400 fræðigreinar og bókarkaflar á sviði rafmagns- og tölvuverkfræði. Hann hefur enn fremur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín, bæði rannsóknir og framlag til menntunar á sviði fjarkönnunar. 

Þess má geta að tveir gestaprófessorar við Háskóla Íslands eru einnig á hinum virta lista Clarivate. Bernharð Örn Pálsson er prófessor í líftækni og læknisfræði við Kaliforníuháskóla í San Diego. Hann hefur m.a. sérhæft sig í svokallaðri kerfislíffræði og byggt upp sérþekkingu við HÍ á því sviði. Jocelyn Chanussot er prófessor við Universite Grenoble Alpes í Frakklandi og hefur sérhæft sig í fjarkönnun eins og Jón Atli. Hann hefur verið gestaprófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands í tíu ár. 

Heildarlista Clarivate Analytics yfir áhrifamestu vísindamenn heims árið 2023 er að finna á vef Clarivate.

Jón Atli Benediktsson