Skip to main content
23. maí 2024

Rannsóknir í forgrunni á sviðsþingi Menntavísindasviðs

Rannsóknir í forgrunni á sviðsþingi Menntavísindasviðs - á vefsíðu Háskóla Íslands

Sviðsþing að vori á Menntavísindasviði undir yfirskriftinni Rannsóknir: Stefna, sýn og stuðningur fór fram fimmtudaginn 16. maí síðastliðinn og var vel sótt af starfsfólki sviðsins. 
Nokkur erindi voru haldin í Skriðu, Stakkahlíð áður en hópavinna fór fram. Anne Bamford hélt erindi og kynnti niðurstöður starfsmannakönnunar MVS og næstu skref. Bamford er vel þekkt fræðikona á sviði listkennslu og hefur starfað sem ráðgjafi og fyrirlesari um menntamál víða um heim. Hún hefur unnið með Menntavísindasviði að undanförnu sem ytri sérfræðingur í sjálfsmati Menntavísindasviðs vegna rannsókna og hefur tekið þátt í sjálfsmatsvinnu náms og deilda. 
Kristján Kristjánsson prófessor í heimspeki við Birmingham háskóla og Menntavísindasvið HÍ hefur unnið að þróun umgjarða rannsókna á Menntavísindasviði. Hann lagði fram hugleiðingar um niðurstöður könnunarinnar. Í kjölfarið kynnti Steingerður Ólafsdóttir, verkefnisstjóri Menntavísindastofnunar, hvaða stuðningur sé í boði á Menntavísindastofnun og hvernig eigi að nálgast hann. Lokaerindi var svo í höndum Tryggva Thayer, aðjunkt við Menntavísindasvið þar sem hann  fjallaði um gervigreind rannsakandans og deildi reynslu sinni af því hvernig hann hefur nýtt sér gervigreind í rannsóknum. Á þinginu fór einnig fram hópavinna þar sem þátttakendur ræddu saman og settu á blað tillögur og ábendingar sem lúta að rannsóknarumhverfi, sýn, stjórnsýslu og stuðningi, sem og því samfélagi sem við viljum hlúa enn betur að. Gögn hópavinnu munu nýtast til frekari stefnumótunar og til að skipuleggja umbótaaðgerðir og starfsáætlun sviðsins. 

Áður en sviðsþingi var slitið var starfsfólk sem látið hefur nýverið af störfum við sviðið, kvatt formlega og afhent gjafir. Þau sem létur nýverið af störfum eru Sólveig María Þorláksdóttir, fjármálastjóri Menntavísindasviðs, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor emeritus, Salvör Gissurardóttir, prófessor og Kristín Karlsdóttir, dósent. 
Kolbrún Þ. Pálsdóttir ávarpaði þingið í upphafi og Berglind Gísladóttir, formaður vísindanefndar stýrði sviðsþinginu.  

Starfsfólk sem lét af störfum á misserinu kvatt á sviðsþingi MVS. Frá vinstri: Karen Rut Gísladóttir, Rannveig Björk Þorkelsdóttir, Ólafur Páll Jónsson deildarforsetar á MVS. Kristín Karlsdóttir, Salvör Gissurardóttir, Sólveig M. Þorláksdóttir, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson og Kolbrún Þ. Pálsdóttir.