Skip to main content
19. desember 2022

Rakel Björg Jónsdóttir er nýr lektor í hjúkrunarfræði

Rakel Björg Jónsdóttir er nýr lektor í hjúkrunarfræði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Rakel Björg Jónsdóttir er nýr lektor í hjúkrunarfræði með áherslu á hjúkrun nýbura.

Rakel Björg lauk doktorsprófi í hjúkrunarfræði frá Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands í október 2022 og meistaranámi í hjúkrunarfræði frá sama skóla 2003. Hún hefur verið klínískur lektor við Háskóla Íslands frá 2013 og sinnt kennslu þar sem stundakennari og aðjúnkt og tók hún þátt í þróun nýrrar námsleiðar í hjúkrunarfræði, heilsugæsluhjúkrun með áherslu á brjóstagjöf þar sem hún situr í námsnefnd. Rakel Björg lauk BS prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 1996 og hefur síðan þá starfað nær óslitið við hjúkrun á Landspítala og frá 2007 sem sérfræðingur í hjúkrun nýbura.

Á Landspítala hefur Rakel Björg sinnt þróun þjónustu á sínu sérsviði og tekið þátt í og leitt verkefni sem lúta að hjúkrun og þverfaglegri heilbrigðisþjónustu við nýbura og foreldra þeirra. Doktorsritgerð Rakelar Bjargar ber titilinn Brjóstagjöf síðfyrirbura. Upphaf, tíðni og tengdir þættir hjá einburum og tvíburum. Auk þeirra rannsókna sem doktorsverkefni Rakelar Bjargar byggir á hefur hún sinnt og tekið þátt í öðrum rannsóknar- og þróunarverkefnum og á hlut í eða hefur leitt birtingar í ritrýndum tímaritum úr þeim verkefnum. Hún hefur því góða reynslu af vísinda- og fræðastörfum á innlendum og alþjóðlegum vettvangi, auk víðtækrar klínískrar reynslu og sérfræðiþekkingar. Hún er virkur vísindamaður ekki síður en metnaðarfullur klíníker á sínu sérsviði, sem fer einkar vel saman í akademísku starfi í hjúkrunarfræði.
 

Rakel Björg Jónsdóttir