Skip to main content
12. febrúar 2024

Nýtt opið netnámskeið um karla og karlmennsku

Nýtt opið netnámskeið um karla og karlmennsku - á vefsíðu Háskóla Íslands

Skráning er hafin í nýtt edX-námskeið á vegum Jafnréttisskólans (GRÓ GEST) við Háskóla Íslands en það er helgað körlum, drengjum og karlmennsku. Um er að ræða fjórða námskeiðið í alþjóðlegum jafnréttisfræðum á vegum GRÓ GEST og eru þau öll ókeypis. Námskeiðið verður formlega opnað 26. febrúar næstkomandi.

Markmið námskeiðsins, sem er á ensku og ber heitið Men, Boys and Masculinities, er að auka skilning á karlmennsku og aðkomu karla og drengja að málefnum tengdum kynjunum, en þetta er talinn lykilþáttur í því að stuðla að jafnrétti í heiminum. Umsjón námskeiðsins er höndum fjögurra virtra fræðimanna á sviði jafnréttisfræða en þau kynna til sögunnar helstu kenningar og hugtök í karlmennskufræðum og rýna í þá strauma sem hafa áhrif á hugmyndir um karlmennsku, m.a. í tengslum við menntakerfið, fjölmiðla, hinn stafræna heim, alþjóðastjórnmál og loftslagsmál.

Kynningarmyndband fyrir námskeiðið.

Í lok námskeiðs eiga nemendur m.a. að hafa öðlast skilning á

 • helstu kenningum um karla, drengi og karlmennsku 
 • hvernig karlmennska mótast og breytist í takt við samfélagslega strauma
 • hvernig karlmennska hefur áhrif á þátttöku drengja í samfélaginu og námsárangur þeirra
 • hvernig félagsmótun innan menntastofnana endurspeglar oft strauma í samfélaginu.
 • hvers vegna karlar eru að dragast aftur úr konum í menntun.
 • hvernig karlmennska birtist ítrekað í fjölmiðlum, áhrifum þess á karla og konur og hvernig fjölmiðar geta beitt sér á því sviði
 • hvernig kynjaskekkja er inngróin í nýja tækni og gervigreind
 • hverning má virkja karla og drengi til að vinna að jafnrétti í stafrænum heimi
 • hvernig staðalímyndir um karlmennsku hafa áhrif á friðarferla og samskipti ólíkra menningarheima
 • hvernig skaðlegar hugmyndir um karlmennsku eru nýttar til að laða karla að róttækum og ofbeldisfullum hópum.  

GRÓ GEST hefur byggt upp sterk tengsl við fjölda leiðandi fræðimanna og sérfræðinga í alþjóðlegum jafnréttisfræðum, sem koma að starfseminni ýmist í gegnum kennslu eða rannsóknasamstarf og þar á meðal á sviði karlmennskufræða. Fjögur þeirra hafa umsjón með námskeiðinu ásamt Thomasi B. Smidt, námsstjóra GRÓ GEST, sem verkefnastýrði einnig framleiðslu þess. Þau eru:

 • Kopano Ratele, prófessor í sálfræði við Stellenbosch-háskóla í Suður-Afríku.
 • Jeff Hearn, prófessor emeritus við Hanken School of Economics í Finnlandi. 
 • Ann Phoenix, prófessor í sálfræði við University College London. 
 • Tamara Shefer, prófessor í kynjafræði við University of the Western Cape í Suður-Afríku.

Alþjóðlegur jafnréttisskóli GRÓ GEST hefur tekið þátt í edX-samstarfinu frá árinu 2019 en markmið þess er er að bjóða upp á opin netnámskeið fyrir háskólanema og fróðleiksfúsan almenning um heim allan. Námskeiðið Men, Boys and Masculinities er hið fjórða í röðinni á vegum GRÓ GEST en yfir 15 þúsund manns hafa sótt fyrri námskeið skólans og um 600 nemendur lokið þeim með edX-skírteini frá Háskóla Íslands. Þátttaka fólks frá lágtekju- og/eða átaksvæðum hefur verið mikil í námskeiðunum. Það fellur að markmiðum GRÓ GEST um að beita sér í þágu jafnréttis, mannréttinda og félagslegs réttlætis á slíkum svæðum. Jafnréttisskólinn er rekinn við Hugvísindasvið Háskóla Íslands og er liður alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands.

Hægt er að lesa nánar um námskeiðið og skrá sig á það á vef edX.

""