Skip to main content
3. maí 2019

Nýbygging Heilbrigðisvísindasviðs til umræðu á þingi sviðsins

""

Góð mæting var á þing Heilbrigðisvísindasviðs (HVS) sem haldið var 11. apríl sl. Inga Þórsdóttir, forseti sviðsins, setti þingið og greindi frá samþykkt háskólaráðs frá 4. apríl sl. þess efnis að á árinu 2019 hefjist formlegur undirbúningur nýbyggingar fyrir Heilbrigðisvísindasvið á svæði nýs Landspítala. Ráðgerður kostnaður vegna undirbúnings á árinu 2019 er um 300 m.kr. 

Inga fór einnig yfir störf starfsnefnda Heilbrigðisvísindasviðs, kennslumála-, doktorsnáms-, vísinda- og jafnréttisnefndar. „Störf nefnda og fylgni við HÍ21 og viðeigandi stefnu HVS færa okkur framar á hverjum degi,“ sagði Inga. Fjárveiting til HVS fyrir 2019 hækkaði um 9% frá 2018 og er hún nú rúmlega þrír milljarðar króna. Þá greindi Inga frá helstu verkefnum sem fram undan eru á sviðinu. 

Ólafur Pétur Pálsson prófessor upplýsti gesti um framkvæmdaáætlun vegna nýrrar byggingar sem hýsa á Heilbrigðisvísindasvið og kynnti í stórum dráttum næstu skref og kostnaðargreiningu. 

Þórana Elín Dietz, starfsmannastjóri Heilbrigðisvísindasviðs, fjallaði um framtíðarsýn og hugmyndafræði nýbyggingarinnar og hvernig hafa mætti í huga fjölbreyttar þarfir starfsmanna og nemenda til framtíðar. Stafrænar lausnir, sveigjanleiki, hagkvæmni og umhverfismál voru rauði þráðurinn í kynningu Þórönu. 

Eyrún Baldursdóttir, nýkjörinn forseti sviðsráðs HVS, tók í sama streng þegar hún fór yfir þarfir nemenda og hvernig samræma mætti undirbúning nýrrar aðstöðu út frá nútíma- og framtíðarþörfum nemenda á Heilbrigðisvísindasviði. Í máli sínu lagði hún áherslu á vistvænar lausnir. Hún talaði einnig fyrir mikilvægi góðrar aðstöðu fyrir nemendafélögin því þannig myndi háskólalífið blómstra enn frekar og þátttaka nemenda yrði öflugri og betri.

Hrólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Vísindagarða, var síðastur í pontu og sýndi gestum umfangsmiklar áætlanir um 53.000 fermetra af húsnæði sem er nú í byggingu á Vísindagarðasvæðinu. Framkvæmdir ná bæði til atvinnuhúsnæðis og stúdentaíbúða. Hann sagði að hægt væri að teikna upp fjölmargar sviðsmyndir inn í framtíðina. „Framtíðina sem er svo erfitt að spá fyrir um. Og þá verða Vísindagarðar væntanlega orðnir hluti af mun stærri heild sem við höfum kallað Vísindaþorpið í Vatnsmýri,” sagði Hrólfur en það samanstendur af Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Landspítala og fleiri aðilum sem munu starfa á svæðum þessara aðila. Svæðið er í göngufæri frá miðborginni og mikill fjöldi nýrra íbúða að verða til á svæðinu. Á Hlíðarenda verða tæplega 800 íbúðir þegar það svæði verður fullbyggt. Auk þess er verið skipuleggja íbúðasvæði í Skerjafirði.

Inga Þórsdóttir