Skip to main content
23. mars 2018

Ný bók um Snorra Sturluson og Reykholt

Sagnfræðistofnun hefur með Snorrastofu í Reykholti gefið út bókina Snorri Sturluson and Reykholt hjá forlaginu Museum Tusculanum Press í Kaupmannahöfn. Þetta er lokabindi hins þverfaglega Reykholtsverkefnis og eru ýmsir þræðir dregnir saman um einn frægasta Íslending allra tíma, Snorra Sturluson, og mikilvægt og höfðinglegt aðsetur hans í Reykholti.

Bókin er á ensku og í hana rita átján fræðimenn, innlendir og erlendir, þeirra á meðal fimm íslenskir sagnfræðingar. Fjallað er um  bókmenntaiðju Snorra, stjórnmál hans og erlend tengsl. Þá eru umhverfi Reykholts og náttúrlegar auðlindir tekin til meðferðar og enn fremur húsakynni í Reykholti og Reykholtsmáldagi. Einnig skipa Snorra-Edda og Heimskringla veglegan sess í bókinni. Hún er nærri 500 síður, prýdd fjölda mynda, uppdrátta og taflna.

Ritstjórar eru Guðrún Sveinbjarnardóttir og Helgi Þorláksson. Auk þeirra eiga efni í ritinu Viðar Pálsson, Sverrir Jakobsson, Egill Erlendsson, Guðrún Gísladóttir, Benedikt Eyþórsson, Guðrún Harðardóttir, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Gísli Sigurðsson, Torfi H. Tulinius og Guðrún Nordal.