Skip to main content
7. mars 2024

Ný bók um lungnakrabbamein ætluð heilbrigðisstarfsfólki og almenningi

Ný bók um lungnakrabbamein ætluð heilbrigðisstarfsfólki og almenningi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komin Lugnakrabbameinsbókin, fræðslurit sem ætlað er heilbrigðisstarfsfólki en jafnframt almenningi og nemum í heilbrigðisvísindum. Höfundar eru m.a. starfsfólk við Háskóla Íslands og Landspítala.

Í bókinni er tekið á flestu því sem snýr að lugnakrabbameini en sérstök áhersla er lögð á nýjungar í greiningu sjúkdómsins og meðferð. Einnig má finna í bókinni kafla um skimun, líffærafræði lungna og orsakir, þ.á m. erfðir og reykingar, en 85% lungnakrabbameina má rekja beint eða óbeint til reykinga. Því fjallar stærsti kaflinn í bókinni einmitt um reykingavarnir og hvaða almennu ráð og lyf eru áhrifaríkust til að hætta að reykja.

Lungnakrabbamein er í dag annað algengasta krabbameinið hjá konum á Íslandi og það þriðja hjá körlum. Enda þótt hægt hafi á nýgengi sjúkdómsins á undanförnum árum er ekkert krabbamein sem leggur fleiri Íslendinga að velli, fleiri en ristil-, brjósta- og blöðruhálskrabbamein samanlagt. Einkenni lungnakrabbameins geta verið staðbundin en eru oftar almenns eðlis, sem skýrir af hverju meirihluti sjúklinga greinist með útbreiddan sjúkdóm. Áhugi á skimun með lágskammta tölvusneiðmyndum hefur því aukist enda hafa nokkrar umfangsmiklar rannsóknir sýnt fram á lækkun dánartíðni í hópi skimaðra.

Á síðastliðnum tveimur áratugum hafa orðið miklar framfarir í greiningu lungnakrabbameins, ekki síst með tilkomu jáeindaskanna og berkjuómspeglunar, sem hafa bætt stigun (þ.e. mat á útbreiðslu) sjúkdómsins og gert meðferð markvissari. Sömuleiðis hafa orðið miklar framfarir í meðferð sjúkdómsins, ekki síst með tilkomu skurðaðgerða þar sem notast er við brjóstholssjá sem stytt hafa legutíma og fækkað fylgikvillum. Sömuleiðis nýtist hnitmiðuð geislameðferð oftar sjúklingum sem ekki er treyst í skurðaðgerð. Mestar hafa framfarirnar þó orðið í meðferð útbreidds lungnakrabbameins, ekki síst með tilkomu öflugra líftækni- og ónæmishvetjandi lyfja sem nota má til að klæðskerasauma meðferð út frá mælingum á stökkbreytingum og lífmörkum í æxlunum. 

Mikið var lagt í útgáfu bókarinnar en um hönnun sá Björg Vilhjálmsdóttir og annar grafískur hönnuður, Árni Árnason, teiknaði allar skýringamyndir sem hannaðar voru sérstaklega fyrir bókina.

Bókin er 130 blaðsíður og skiptist í 13 kafla þar sem allur texti er frumsaminn og byggt á gagnrýndum heimildum, m.a. íslenskum rannsóknum. Mikið var lagt í útgáfuna en um hönnun sá Björg Vilhjálmsdóttir og annar grafískur hönnuður, Árni Árnason, teiknaði allar skýringamyndir sem hannaðar voru sérstaklega fyrir bókina. Textann sömdu 17 höfundar, flestir læknar á Landspítala, og gáfu þeir allir vinnu sína. Ritstjóri er Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirlæknir sem einnig er útgefandi, en fjöldi fyrirtækja og einstaklinga studdi útgáfuna án nokkurra skilyrða um innnihald eða efnisök. 

Lugnakrabbameinsbókin er fyrst og fremst gefin út sem ókeypis flettibók á vefnum lungnakrabbamein.is, en prentúgáfu má einnig kaupa á kostnaðarverði hjá höfundum. Loks er hægt að hlaða bókinni niður í tölvu eða snjallsíma með sérstökum QR-kóða aftast í bókinni.

Bókina má nálgast á www.lungnakrabbamein.is

Kápabókar