Skip to main content
22. janúar 2018

Norræn samstarfsverkefni fá veglega styrki

Vísindamenn við Háskóla Íslands taka þátt í fjórum af sex verkefnum sem hlutu á dögunum styrk úr nýrri áætlun NordForsk sem nefnist Nordic University Hubs.

Nordforsk er norræn stofnun sem starfar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og hefur umsjón með og styrkir rannsóknasamtarf á Norðurlöndum. Stofnunin setti nýlega á fót áætlunina Nordic University Hubs sem ætlað er að styrkja enn frekar samstarf norrænna háskóla, m.a. stuðla að starfsmannaskiptum, ráðstefnum og frekari rannsóknum sem snerta norrænu ríkin í víðu samhengi.

Fram kemur á heimasíðu Nordforsk að 63 umsóknir hafi borist um styrki úr áætluninni en alþjóðlegir og norrænir hópar sérfræðinga voru fengnir til að meta umsóknirnar. Alls voru veittar 180 milljónir norskra króna, jafnvirði um 2,3 milljarða króna, til sex verkefna við úthlutun skömmu fyrir áramót en samkvæmt reglum áætlunarinnar fjármagnar Nordic University Hubs þriðjung hvers verkefnis en styrkþegar fjármagna tvo þriðju, t.d. með vinnuframlagi eða sókn í aðra sjóði.

Sem fyrr segir koma starfsmenn Háskóla Íslands að fjórum þeirra sex verkefna sem fengu styrk að þessu sinni. Verkefni bera heitin Nordic POP (Patient Oriented Products), The Nordic Consortium for CO2 Conversion (NCCO2), ReNEW (Reimagining Norden in an Evolving World) og The Nordic Sound and Music Computing Network (NordicSMC).

Vísindamenn við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands taka þátt í samstarfsnetinu Nordic POP en markmið þess er að leggja grunn að lyfjaþróun framtíðarinnar þar sem áhersla verður á einstaklingsmiðaða lyfjagjöf til þess að ná hámarksárangri við meðferð kvilla og sjúkdóma. Byggt verður á þverfræðilegri nálgun innan verkefnisins og mikil áhersla verður á nýsköpun. Alls koma lyfjafræðideildir tíu norrænna háskóla frá öllum norrænu ríkjunum að verkefninu en það verður unnið undir forystu lyfjafræðideildar Kaupmannahafnarháskóla.   

Egill Skúlason, prófessor við Raunvísindadeild, kemur ásamt fulltrúum átta annarra norrænna háskóla að The Nordic Consortium for CO2 Conversion (NCCO2). Markmið hópsins er að þróa nýja tækni til þess að nýta koltvíoxíð sem efni og orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis sem fer minnkandi á jörðinni. Aðstandendur verkefnisins benda á  að auðvelt sé að fanga koltvísýring í andrúmsloftinu en áskorunin í verkefninu felst m.a. í því að þróa skilvirkar aðferðir til að umbreyta þessari gróðurhúsalofttegund í nýtanlegan orkugjafa, svo sem metan eða metanól. Háskólinnn í UiT í Tromsö í Noregi stýrir verkefninu.

Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður rannsóknasetursins EDDU og dósent við Mála- menningardeild Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, hlýtur ásamt norrænum starfssystkinum sínum styrk fyrir rannsóknasetrið ReNEW (Reimagining Norden in an Evolving World). Þar eru norrænu ríkin og velgengni þeirra skoðuð með gagnrýnum augum, en margar þjóðir horfa til ríkjanna vegna árangurs þeirra á sviði jafnréttismála, nýsköpunar, samkeppnishæfni og almennrar velsældar. Jafnframt verður horft á hnattrænar áskoranir norrænu ríkjanna, þar á meðal á sviði jafnréttis, norrænnar samvinnu og lýðræðis auk þess sem áhrif þjóðernis- og innflytjendastefnu verða skoðuð. Byggt verður á þverfræðilegu samstarfi fræðimanna á sviði hugvísinda og félagsvísinda en Helsinki-háskóli stýrir verkefninu.

Rúnar Unnþórsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild, er einn þátttakenda í samstarfsnetinu Nordic Sound and Music Computing Network (NordicSMC). Ætlunin er að leiða saman helstu sérfræðinga Norðurlanda á sviði hljóð- og tónlistartækni (e. sound and music computing) og þróa öflugt samstarf á milli háskólanna fimm sem koma að verkefninu en það lýtur forystu vísindamanna við Álaborgarháskóla. 

Nánari upplýsingar eru á heimasíðu Nordforsk.
 

Frá háskólasvæðinu