Skip to main content
23. september 2020

Metfjöldi hefur nám í umhverfis- og auðlindafræði

Vaxandi áhugi fólks á umhverfismálum í heimunum endurspeglast vel í aðsókn í umhverfis- og auðlindafræði í Háskóla Íslands. Metfjöldi nemenda hóf meistaranám í greininni nú í haust en til viðbótar eru 30 skráð í nýja og styttri námsleið í faginu.

Viðfangsefni umhverfis- og auðlindafræðinnar tengjast mörgum af helstu áskorunum mannkyns á tímum hnattrænnar hlýnunar, svo sem sjálfbærri nýtingu auðlinda, orkumálum og orkuskiptum, verndun lífríkis í lofti, landi og legi og sjálfbærri þróun. Námið er þverfræðilegt og markmiðið með því er að mennta nýja kynslóð fagfólks sem hefur haldgóða þekkingu og færni á sviði umhverfis- og auðlindafræða og getur unnið þvert á fræði og faggreinar.

Meistaranám í umhverfis- og auðlindafræði hefur verið í boði í Háskóla Íslands í 15 ár og hefur frá upphafi verið afar vinsælt meðal erlendra umsækjenda. Engin undantekning var á því í haust þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn því hópurinn sem hóf nám nú samanstendur af 43 nemum, sem er metfjöldi, af 22 þjóðernum. Þrír fjórðu nemendanna eru af erlendum uppruna og koma frá fimm heimsálfum. 

Brúa bilið milli ólíkra greina og sjónarmiða

Einn þeirra er Ahmed Nawaz sem kemur hingað alla leið frá Pakistan. Hann segir að það færa sig frá einu sviði, sem maður hefur menntað sig til og unnið við, og yfir á annað sé mikil áskorun. Ahmed á að baki menntun í viðskiptum og stefnumótum en brennur fyrir umhverfismálum. „Námið í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands var að mínu mati besta leiðin til þess að brúa bilið þarna á milli. Hérna gefst manni ekki aðeins tækifæri til að kafa djúpt ofan í tiltekið viðfangsefni heldur hefur maður líka töluvert frelsi til að kynna sér ólíkar hliðar fræðanna. Þannig öðlast maður bæði betri skilning á hinu náttúrulega umhverfi og getur um leið ráðið eigin för.“

Hjá öðrum í nýnemahópnum kviknaði áhuginn í grunnnámi í Háskóla Íslands. Þannig var það t.d. hjá Aðalbjörgu Egilsdóttur sem lauk BS-gráðu í líffræði í fyrra. Hún segist hafa fengið mikinn áhuga á umhverfsmálum í náminu og m.a. beitt sér í þeim málaflokki á vettvangi Stúdentaráðs, í hinum vikulegu loftslagsverkföllum og sem fulltrúi islenskra ungmenna á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í fyrra. „Eftir því sem ég tók meiri þátt í loftslagsbaráttunni, m.a. í gegnum loftslagsverkföllin og þátttöku mína í COP25, áttaði ég mig á því að það vantar fólk sem hefur þverfræðilega og heildstæða nálgun á þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir. Fólk sem getur líka ýtt undir samskipti á milli ólíkra hópa til þess að finna sem farsælasta lausn á loftslagsvandanum og sem hefur hagsmuni allra vídda sjálfbærrar þróunar í huga. Ég vildi komast í hóp þessa fólks og eftir miklar vangaveltur og löng samtöl við fjölskyldu, vini og prófessora innan háskólans áttaði ég mig á því að umhverfis- og auðlindafræði væri leiðin fyrir mig,“ segir hún. 

Viðfangsefni umhverfis- og auðlindafræðinnar tengjast mörgum af helstu áskorunum mannkyns á tímum hnattrænnar hlýnunar, svo sem sjálfbærri nýtingu auðlinda, orkumálum og orkuskiptum, verndun lífríkis í lofti, landi og legi og sjálfbærri þróun. Hluti nemendahópsins, sem skráður er í námskeiðið Umhverfi sjávar og sjávarútvegur, skellti sér í rannsóknaleiðangur í Gróttu á dögunum undir leiðsögn kennara síns, Freydísar Vigfúsdóttur. MYND/Kristinn Ingvarsson

Verða betur í stakk búin til að stuðla að nauðsynlegum breytingum

Námið er opið námsmönnum af öllum fræðasviðum. Það endurspeglast í nemendahópnum í ár sem er með mjög fjölbreyttan bakgrunn en auk líffræði og viðskiptafræði má nefna nemendur úr sálfræði, hönnun og listnámi, sagnfræði, tungumálum, fjölmiðlafræði og menntunarfræði. „Þar sem námið er þverfræðilegt reynir það sannarlega á okkur og krefst þess að við leitum fjölbreyttra og skapandi svara við þeim spurningum sem vakna. Ég reikna með að í lok náms verði ég betur í stakk búinn til að stuðla að þeim nauðsynlegu breytingum sem þurfa að eiga sér stað í samfélögum um allan heim og verða hluti af lausninni sem okkur dreymir öll um að vera,“ segir Ahmed.

Frá því að byrjað var að bjóða upp á umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands hafa á þriðja hundrað nemenda frá 41 landi brautskráðst af námsleiðinni. Þau hafa haslað sér völl á ýmsum sviðum atvinnulífsins eða haldið áfram í doktorsnám. „Námið mun hjálpa mér að öðlast aukinn skilning á samspili umhverfis, samfélags og hagkerfis og hvernig hægt er að vinna að sjálfbærni allra vídda á sama tíma. Ég vil beita mér fyrir jafnari heimi þar sem náttúran og fátækari samfélög víkja ekki fyrir hagsmunum neysluhyggjunnar og ríkasta fólks heims og veit að umhverfis- og auðlindafræðin mun sýna og hjálpa mér að skilja hvaða tæki og tól ég þarf til þess,“ segir Aðalbjörg. 

Við þetta má bæta að til þess að koma til móts við vaxandi áhuga á greininni var í fyrsta sinn í haust boðið upp á styttra 30 eininga diplómanám í umhverfis- og auðlindafræði. Nemendur geta lokið því í fullu námi á einu misseri eða sem hlutanámi á tveimur misserum. Áhugi á þessari nýju námsleið var ekki síðri en meistaranáminu því 30 manns á öllum aldri hófu nám nú í haust. Um er að ræða fjölbreyttan hóp, fólk sem er nýkomið úr grunnnámi, hefur þegar lokið öðru framhaldsnámi eða vill bæta við sig þekkingu fyrir störf sín.

nemendur við rannsóknir í Gróttu