| Háskóli Íslands Skip to main content
7. nóvember 2019

Í fyrsta sinn hlýtur nemandi við Háskóla Íslands verðlaun frá Verkefnastjórnunarfélagi Íslands fyrir meistararitgerð í verkefnastjórnun, en á dögunum voru verðlaunin veitt fyrir skólaárið 2018-19. Félagið var stofnað árið 1984 og telur nú um 500 meðlimi. Tilgangur félagsins er að kynna aðferðir verkefnastjórnunar og efla verkefnastjórnun á sem flestum sviðum atvinnulífsins. 

Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands tilnefndi þrjár meistararitgerðir af verkefnastjórnunarlínu til verðlaunanna. Varð ritgerð Margrétar Lúthersdóttur fyrir valinu sem verðlaunaverkefni og ber það heitið ,,Gefandi, krefjandi og gríðarlega áhugavert”: Starfað fyrir Rauða krossinn á Íslandi og staða félagsins hérlendis. Inga Minelgaité, dósent við Viðskiptafræðideild, var leiðbeinandi. Mun Margrét flytja erindi á haustráðstefnu Verkefnastjórnunarfélagsins ásamt því að taka á móti viðurkenningu. Rannsóknin varpar ljósi á upplifun þeirra sem starfa fyrir Rauða krossinn á Íslandi, hvort sem starfið er launað eða sjálfboðið. Sérstök áhersla er lögð á verkefna- og mannauðsstjórnun. Að sama skapi er gefin heildstæð mynd af stöðu Rauða krossins á Íslandi með innsýn í upplifun sérfræðinga þriðja geirans.

Þær Edda Ýr Georgsdóttir Aspelund og Sara Sturludóttir voru einnig tilnefndar fyrir sín verkefni. Verkefni Eddu bar titilinn „Stundum er þetta frábært, stundum alls ekki“: Upplifun starfsfólks nýskapandi hugbúnaðarfyrirtækja á Agile. Þar skoðaði hún notkun Agile hjá nýskapandi hugbúnaðarfyrirtækjum með áherslu á sprotafyrirtæki og fyrirtæki sem nýlega höfðu þróast frá skilgreiningu sprotafyrirtækis.

Verkefni Söru bar titilinn Uppskalað Agile í íslenskri hugbúnaðarþróun „... og enginn er ómissandi, og það er bjútíið“. Þar skoðaði Sara aðferðir uppskalaðs Agile hjá íslenskum hugbúnaðarfyrirtækjum til þess að bæta við þekkingu á því sviði og fá yfirsýn yfir þá upplifun og reynslu sem hugbúnaðarfyrirtæki og starfsmenn þeirra hafa af uppsköluðu Agile. Magnús Þór Torfason, lektor við Viðskiptafræðideild, leiðbeindi báðum nemendum. 

Fyrir áhugasöm má benda á að Haustráðstefna Verkefnastjórnunarfélagsins fer fram föstudaginn 8. nóvember á Hilton Reykjavík hótelinu. Skráning á ráðstefnuna fer fram hér og þar má einnig finna dagskrá og frekari upplýsingar. 
 

Höfundar ritgerðanna sem tilnefndar voru og leiðbeinendur. Magnús Þór Torfason, Sara Sturludótir, Margrét Lúthersdóttir, Edda Ýr Georgsdóttir Aspelund og Inga Minelgaité.