Laganemar veita endurgjaldslausa lögfræðiaðstoð í vetur | Háskóli Íslands Skip to main content

Laganemar veita endurgjaldslausa lögfræðiaðstoð í vetur

27. september 2017
Lagabækur fyrir utan Lögberg

Laganemar í nemendafélaginu Orator við Háskóla Íslands halda áfram að nýta þekkingu sína í þágu samfélagsins og bjóða upp á endurgjaldslausa lögfræðiaðstoð í gegnum síma á fimmtudagskvöldum í vetur. Áratugahefð er fyrir lögfræðiaðstoð Orators og hefst starfsemi á ný eftir sumarhlé fimmtudaginn 28. september.

Meistaranemar við Lagadeild við Háskóla Íslands verða við símann í númerinu 551-1012 á fimmtudögum í vetur milli kl. 19:30-22:00 og veita hverjum sem vill endurgjaldslausa lögfræðiaðstoð og undir nafnleynd, sé þess óskað. Heimilt er að koma með hvers kyns fyrirspurnir um lögfræðileg álitaefni.

Að þjónustunni koma einnig starfandi lögmenn. Margir þeirra hafa aðstoðað laganema í sjálfboðastarfi um árabil og hafa áratugareynslu af lögmannsstörfum. Þeir leiðbeina nemendum við að svara fyrirspurnum og hjálpa þeim að komast að réttri niðurstöðu.

Þess má geta að þetta mikilvæga framtak Orators hefur hlotið Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins en á hverju ári berst mikill fjöldi fyrirspurna um ýmis lögfræðileg álitamál úr íslensku samfélagi í gegnum símanúmer laganema.

Logo lögfræðiaðastoðar Orators

Netspjall