Kennsla á Menntavísindasviði haustið 2020 | Háskóli Íslands Skip to main content
14. ágúst 2020

Kennsla á Menntavísindasviði haustið 2020

Vegna óvissu um þróun COVID-19 er gert ráð fyrir að námskeið geti færst alfarið á rafrænt form ef þörf krefur. Hafa verður í huga að sumir nemendur og kennarar geta verið í áhættuhópi eða lent í sóttkví fyrirvaralaust.

Skylt að nota hlífðargrímur (21. september)

Samkvæmt auglýsingu frá stjórnvöldum, sem birt var í gærkvöldi um takmörkun á skólastarfi, er nemendum, kennurum og starfsfólki nú skylt að nota hlífðargrímur í skólabyggingum og í öllu skólastarfi. Undir þetta falla bæði kennsla og fundir. 

Kennslufyrirkomulag 

Kennsla á Menntavísindasviði verður bæði á rafrænu formi og í staðkennslu, eftir því sem við verður komið. Miðað við eins metra fjarlægðarreglu er gert ráð fyrir að hægt verði að nýta um 50% af kennsluhúsnæði. Á næstu dögum munu deildir og námsbrautir forgangsraða þeim hópum sem koma í staðkennslu, samkvæmt tilkynningu rektors. Kennarar vinna nú að því að uppfæra kennsluáætlanir og námsvefi. Þið skuluð fylgjast vel með HÍ-póstinum ykkar því þangað berast mikilvægar tilkynningar frá kennurum námskeiða og kennsluskrifstofu.

Móttaka nýnema 

Vikan 24.-28. ágúst er helguð nýnemum í grunnnámi sem mæta á staðinn, hitta kennara og samnemendur. Nýnemum verður skipt í hópa til að tryggja fjöldatakmarkanir og sóttvarnir. Nánari upplýsingar verða sendar á næstu dögum og kynntar á vef Menntavísindasviðs.

Staðlotur

Staðlotur falla niður haustið 2020, nema í verklegri kennslu og verkefnum sem krefjast viðveru. Þess í stað verður þátttökuskylda nemenda samkvæmt stundatöflu eða annars konar skipulagi. Sjá nánar um þátttökuskyldu neðar í textanum.

Verkleg kennsla

Vettvangsnám og kennsla í íþróttum, list-, verk- og náttúrugreinum, mun lúta tilmælum stjórnvalda hverju sinni. Ávallt verður gætt fyllstu varúðar, hugað að sótthreinsun á tækjum og notast við grímur og hanska þar sem því verður við komið. Háskólinn mun sækja um undanþágu frá eins metra reglunni í ofangreindum greinum.

Þátttökuskylda

Þrátt fyrir að sum námskeið færist alfarið á rafrænt form, verður gerð krafa um þátttökuskyldu nemenda, til dæmis í umræðu- og verkefnatímum. Nemendur eru beðnir að fylgjast vel með tilkynningum frá kennurum námskeiða hvað þetta varðar.

Upplýsingar til nemenda

Allar tilkynningar munu berast á HÍ-netföng nemenda. Samskipti við kennara fara alla jafna fram í gegnum CANVAS-námsvefi. Á innri vef Uglu má finna allar upplýsingar um starfsemi og þjónustu innan Háskólans, auk Torgs fyrir smáauglýsingar.

Enn fremur eru nemendur hvattir til að fylgjast með tilkynningum og gagnlegum upplýsingum sem birtast á samfélagsmiðlum Menntavísindasviðs; Facebook, Instagram og YouTube.

Þrátt fyrir að verkefnin framundan séu flókin, þá munum við í sameiningu láta hlutina ganga upp. Velferð og hagur nemenda og starfsfólks skiptir öllu máli og verða ávallt höfð að leiðarljósi á tíma veirufaraldursins.

Gangi ykkur sem allra best og velkomin til náms við Háskóla Íslands!

 

Þrátt fyrir að verkefnin framundan séu flókin, þá munum við í sameiningu láta hlutina ganga upp. Velferð og hagur nemenda og starfsfólks skiptir öllu máli og verða ávallt höfð að leiðarljósi á tíma veirufaraldursins.