Skip to main content
19. júní 2019

Jón á Bægisá – Dada er líf án tátilja og hliðstæðna

Jón á Bægisá, tímarit Þýðingaseturs Háskóla Íslands, er kominn út í sextánda sinn.

Í heftinu kennir ýmissa grasa: Magnea J. Matthíasdóttir skrifar grein um sálmaþýðingar, smásagan „Heilindi“ eftir Robin Hemley í þýðingu Hrafnhildar Þórhallsdóttur, Marion Lerner skrifar um hinsegin þýðingafræði, yfirlýsing DADA-istans Tristans Tzara í þýðingu Benedikts Hjartarsonar, þrjú ljóð eftir Emily Dickinson í þýðingu Magnúsar Sigurðssonar en hann skrifar einnig grein um skáldkonuna bandarísku, grein eftir Jeffrey Gardiner um bandaríska ljóðskáldið Charles Olson í þýðingu Ástráðs Eysteinssonar, en hann birtir einnig þýðingar sínar á ljóðum Olsons, auk þess sem hann er einnig með grein um skáldið, Gauti Kristmannsson er með grein um Goethe í íslenskum búningi og þýðir einnig eitt af hans frægustu kvæðum, „Prómeþeif“, Júlían M. D‘Arcy birtir enska þýðingu sína á „Þorsklofi“ Hannesar Hafsteins. Að lokum er birt þakkarræða Gunnars Þorra Péturssonar við viðtöku Íslensku þýðingaverðlaunanna sem hann hlaut í ár ásamt Ingibjörgu Haraldsdóttur.

Þýðingasetur Háskóla Íslands gefur út Jón á Bægisá í samvinnu við Ormstungu sem hóf útgáfu þessa merka tímarits. Hægt er að gerast áskrifandi að heftinu eða fá það í Bóksölu stúdenta á Háskólatorgi.

Jón á Bægisá