Íslenskunámskeið í Kína kveikjan að meistaraprófi í málfræði | Háskóli Íslands Skip to main content
25. febrúar 2020

Íslenskunámskeið í Kína kveikjan að meistaraprófi í málfræði

Í hópi þeirra 400 kandídata sem brautskráðust frá Háskóla Íslands laugardaginn 22. febrúar var hin þrítuga Xindan Xu. Stakt valnámskeið í íslensku í heimalandi hennar, Kína, dró hana hingað til lands í frekara nám í greininni og nú státar Xindan af meistaraprófi í íslenskri málfræði. Hún ræddi við okkur um íslenskuáhugann, námið í HÍ og framtíðarplönin.

„Ég komst í kynni við íslensku þegar ég tók valnámskeið í Beijing Foreign Studies University, sem er eini háskólinn í Kína sem býður upp á nám í íslensku. Ég lærði íslensku þar í eitt misseri, þó mjög lítið þar sem hún var aðeins kennd einu sinni í viku. Síðan fékk ég styrk frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í þrjú ár til að læra íslensku hér á landi,“ segir Xindan sem kom fyrst hingað til lands 2013 og hóf þá nám í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands. Áður hafði hún lokið námi í fjármálafræði í Kína.

Þýddi hluta af glæpasögu Yrsu Sigurðardóttur í BA-námi

„Mér finnst mjög áhugavert að læra tungumál og íslenska er eitt af þeim málum sem er mjög gamalt og hefur tiltölulega lítið breyst. Auk þess er það landið sjálft sem heillar mig. Á íslenskunámskeiðinu í Beijing fengum við gesti frá Íslandi, þar á meðal Jónínu Leósdóttur rithöfund og Hafliða Sævarsson, sem starfaði við sendiráð Íslands í Beijing (og starfar nú við Háskóla Íslands). Þau kynntu Ísland fyrir okkur nemendunum, þar á meðal náttúru og dýralíf og út frá lýsingum þeirra fannst mér landið heillandi og fallegt,“ segir Xindan þegar hún er spurð að því hvað hafi heillað hana við íslenskuna.

Xindan lauk BA-prófi í íslensku sem öðru máli árið 2016 en í lokaverkefni sínu glímdi hún við spennusögu Yrsu Sigurðardóttur, DNA, og þýddi m.a. hluta hennar á kínversku. „Eftir fyrstu þrjú árin í íslensku sem öðru máli fannst mér að íslenskan mín ekki vera nógu góð og ég vildi gjarnan læra meira um íslensku og málvísindi almennt. Þess vegna ákvað ég að fara í meistaranám í íslenskri málfræði,“ segir hún.

Fólk er eða fólk eru?

Gerðar eru miklar kröfur um þekkingu á íslenskri tungu í meistaranámi í íslenskri málfræði og þar er fengist við allt frá málfari Eddukvæða og orðsifjafræði til nútímamálvísinda og máltækni. Það stoppaði ekki Xindan og í lokaverkefni sínu fékkst hún við fyrirbrigði sem margir þekkja eflaust og hafa glímt við í skrifum, svokallað tölusamræmi sagna og tölublendinga í íslensku. „Tölublendingar eru nafnorð þar sem málfræðileg atriði, svo sem kyn og tala, eru ólík merkingu þeirra,“ segir Xindan og tekur dæmi af orðinu „fólk“. „Þar er nafnorðið sjálft eintöluorð og ekki til í fleirtölu en merkingarlega séð táknar það fleiri en einn einstakling. Ef sagnir í setningu taka mið af merkingu nafnorðsins þá kallast fyrirbærið merkingarlegt samræmi,“ útskýrir hún og bendir á eftirfarandi setningar sem dæmi:

-    Fólkið var / voru erlendir ferðalangar.
-    Talsverður fjöldi gesta var / voru nemendur frá erlendum háskólum

Xindan kannaði viðhorf fólks til merkingarlegs samræmis annars vegar og málfræðilegs samræmis hins vegar með netkönnun. Þar lögðu þátttakendur mat á tilbúnar setningar þar sem tölublendingar komu við sögu og gáfu þeim einkunn eftir því hversu eðlilegar fólkið teldi þær vera. Þar komu við sögu bæði hópheiti (fólk, par, fjölskylda, nefnd o.s.frv.) og tölunafnorð (fjöldi, stór hluti, helmingur o.s.frv.);

„Í stuttu máli fengu setningar með svokölluðum nafnlegum sagnfyllingum án hjálparsagna, eins og „Fólkið er / eru erlendir ferðamenn“, hæstu einkunn, bæði þegar frumlag er hópheiti og tölunafnorð,“ segir hún.

Þá reyndist mikill munur á mati þátttakenda í ólíkum aldurshópum þegar um var að ræða setningar sem ekki höfðu samræmi í frumlagi og sögn. „Það reyndist mikill munur á milli yngsta aldurshóps (16–29 ára) og allra hinna hópanna, og á milli elsta hóps (60 ára eða eldri) og allra hinna hópanna. Yngsti aldurshópurinn gaf yfirleitt hærri einkunn fyrir setningar þar sem samræmi var ekki fyrir hendi en eldri aldurshópur,“ segir hún. Hún bætir við að marktækur munur hafi einnig mælst milli karla og kvenna í hópi þátttakenda, þar sem karlar gáfu yfirleitt hærri einkunn en konur þegar um var að ræða setningar án samræmis frumlags og sagnar. Sama var uppi á teningnum þegar horft var til menntunarstigs þátttakenda. 

Á leiðinni út á vinnumarkaðinn

Að baki eru tæp sex ár í Háskóla Íslands og aðspurð segir Xindan erfitt að segja í stuttu máli hvað hafi staðið upp úr á þessum tíma. „Það er svo margt sem hefur haft áhrif á mig hér á Íslandi, t.d. íslenskt landslag, náttúran og norðurljósin! Síðan er það allt frábæra fólkið sem ég hef kynnst á síðustu árum, bæði í skólanum og í störfum. Ég er líka hrifin af því hversu margt fólk leggur stund á list, t.d. tónlist og myndlist, hér á landi, sérstaklega ungt fólk. Þetta er mjög ólíkt því sem gerist í Kína,“ segir hún og horfir til áframhaldandi veru á Íslandi. „Ég er tilbúin að fara út á vinnumarkaðinn. Ég hef verið að uppfæra ferilskrána mína og er nú þegar farin að leita að vinnu,“ segir hún að endingu.

Xindan Xu