Skip to main content
29. maí 2019

Irma í hópi 100 áhrifamestu á sviði jafnréttismála í heiminum

Irma Erlingsdóttir, dósent við Háskóla Íslands og forstöðumaður Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og RIKK – rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum, er í hópi 100 áhrifamestu einstaklinga heims í jafnréttismálum samkvæmt nýjum lista Apolitical, alþjóðlegs fræðslu- og stefnumótunarvettvangs fyrir ríkisstjórnir og aðra opinbera aðila. Hún er þar í hópi með heimsþekktu baráttufólki fyrir jafnrétti kynjanna. 

Þetta er í annað sinn sem Apolitical birtir lista yfir þá einstaklinga sem þykja hafa skarað fram úr í jafnréttismálum með rannsóknum, stefnumótun og málefnabaráttu. Alls bárust um 9.000 tilnefningar á listann víða að úr heiminum frá sérfræðingum á sviði jafnréttismála innan ríkisstjórna, alþjóðastofnana eins og Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegra hreyfinga sem berjast fyrir jafnrétti eins og Women Deliver, Women in Global Health og Women for Climate Justice.

Á lista Apolitical er að finna stjórnmálakonur, vísindamenn, opinbera starfsmenn og aðgerðasinna sem að mati Apolitico stuðla með störfum sínum að breytingum í átt til aukins jafnréttis og bjartari framtíðar í heiminum. 

Á meðal þeirra sem eru á listanum í ár, auk Irmu, eru nýkrýndur friðarverðlaunahafi Nóbels, kvensjúkdómalæknirinn Denis Mukwege, hæstaréttardómarinn Ruth Baider Ginsburg, Michelle Obama, stofnandi Girls Opportunity Alliance og fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, og Christine Lagarde, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Irma er með doktorspróf í samanburðarbókmenntum frá Sorbonne-háskóla í París í Frakklandi með áherslu á kynjafræði og bókmenntir sem tengjast pólitískri samtímasögu í alþjóðlegu samhengi. Hún hefur gegnt starfi dósents og þar áður lektors í frönskum samtímabókmenntum við Háskóla Íslands frá árinu 2010. Hún hefur jafnframt verið forstöðumaður RIKK – rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands frá árinu 2000 og stýrt Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna frá stofnun hans árið 2009 en hann hefur brautskráð samtals 132 nemendur frá 22 löndum með diplómagráðu á meistarastigi í alþjóðlegum jafnréttisfræðum. Þá leiðir Irma einnig rannsóknaklasann EDDU sem var stofnsettur á grundvelli markáætlunar Vísinda-og tækniráðs árið 2009 og er samstarfsvettvangur fræðimanna sem sinna gagnrýnum samtímarannsóknum með áherslu á jafnrétti og margbreytileika í hug- og félagsvísindum. 

Irma hefur stýrt stórum alþjóðlegum rannsóknarverkefnum, m.a. á sviði jafnréttismála og samtímafræða. Í fyrra fékk hún ásamt norrænum samstarfssystkinum veglegan styrk frá NordForsk til fimm ára til að koma á fót rannsóknasetrinu ReNEW. Þar eru norrænu ríkin og velgengni þeirra skoðuð með gagnrýnum augum en margar þjóðir horfa til ríkjanna vegna árangurs þeirra á sviði jafnréttismála, nýsköpunar, samkeppnishæfni og almennrar velsældar. Hún er einnig þátttakandi í öðru stóru samnorrænu verkefni, Nordic Branding, þar sem fjallað er um ímynd Norðurlandanna, m.a. út frá sjónarhorni jafnréttis.  

Auk kennslu og rannsókna hefur Irma gengt ýmsum stjórnunar- og trúnaðarstörfum. Hún situr meðal annars í útgáfustjórn norræna femíníska tímaritsins NORU og ráðgjafastjórn tímaritsins The European Journal of Politics and Gender. Hún á jafnframt sæti í framkvæmdastjórn RINGS, alþjóðlegra samtaka rannsóknsóknastofnana á sviði kynja- og jafnréttisfræða. Irma er einnig í samstarfi við rannsóknastofnanir í Frakklandi, þar á meðal École des Hautes Études en Sciences Sociales (EHESS) í París. Eftir Irmu liggja fjölmargar greinar og bókakaflar sem snerta franskar samtímabókmenntir, samtímaheimspeki og kynjafræði.

Apolotical er alþjóðlegur stefnumótunarvettvangur sem nær til 170 landa og hefur að markmiði að miðla reynslu og efni sem nýtist m.a. við opinbera stefnumótun, þ.m.t. á sviði jafnréttismála. Lista Apolitical yfir 100 áhrifamestu einstaklinga heims á sviði stefnumótunar í jafnréttismálum er að finna á heimasíðu Apolitcal
 

Irma Erlingsdóttir