Skip to main content
7. desember 2020

Húsnæði HÍ minna og þrengra ef HHÍ hefði ekki notið við

""

„Mikilvægi Happdrættis Háskóla Íslands fyrir Háskólann er ótvírætt. Happdrættið hefur staðið undir nálega öllum nýbyggingarkostnaði Háskólans allt frá upphafi og sama gildir um viðhaldskostnað. Ef skólinn hefði þurft að slást við ótal aðra aðila um takmörkuð útgjöld fjárveitingarvaldsins er morgunljóst að húsnæðið væri í dag miklu þrengra, minna og verr við haldið,“ segir Stefán Pálsson, sagnfræðingur og höfundur nýrrar bókar um sögu Happdrættis Háskóla Íslands. Háskólaútgáfan gefur bókina út.

Bókin ber heitið „Gleymið ekki að endurnýja“ og þar eru raktar þær miklu breytingar sem hafa orðið á happdrættismálum bæði hér á landi og annars staðar í heiminum og þær fléttaðar saman við tæplega 90 ára sögu Happdrættis Háskóla Íslands. Bókin er ríkulega skreytt fjölda mynda frá ýmsum tímum í sögu happdrættisins, þar á meðal fjölmörgum skemmtilegum auglýsingum sem hafa frá upphafi skipað stóran sess í starfi fyrirtækisins. 

Saga Happdrættis Háskóla Íslands, sem stofnað var árið 1934 til að fjármagna framkvæmdir við Aðalbyggingu Háskólans, er samofin sögu skólans. Aðspurður segir Stefán aðdraganda að útgáfu bókarinnar nokkuð langan. „Háskólafólki hefur hins vegar alla tíð verið verið annt um að halda vel utan um sögu sína. Húsbyggingarsagan, sem er auðvitað nátengd sögu Háskólahappdrættisins, var t.a.m. rakin í afar ítarlegum og vönduðum bókum Páls Sigurðssonar fyrir um þrjátíu árum og Magnús Bjarnfreðsson, fyrrum fréttamaður, sem lengi sinnti ýmsum verkefnum fyrir HHÍ, hafði fyrir löngu tekið saman sitthvað um sögu happdrættisins, sem fremur var þó hugsað til innanhússnota en fyrir útgáfu,“ segir Stefán.

Hann bætir enn fremur við að tveir fyrrverandi forstjórar fyrirtækisins, þeir Ragnar Ingimarsson og Brynjólfur Sigurðsson, hafi lagt mikið af mörkum í heimildasöfnun tengdri happdrættinu og þeim fjölmörgu háskólabyggingum sem HHÍ hafi komið að því að reisa. Leitað var til Stefáns fyrir sex árum að rita söguna og að áeggjan Eggert Þór Bernharðssonar sagnfræðiprófessors heitins hafi hann tekið verkið að sér og það unnið í hjáverkum með öðrum verkefnum. „Handritið var í öllum meginatriðum tilbúið fyrir löngu síðan en útgáfan hefur frestast af ýmsum ástæðum,“ útskýrir Stefán.

fyrstidrattur

Frá fyrsta drætti í Happdrætti Háskóla Íslands sem fór fram í Iðnó hinn 10. mars 1934.

Happdrætti yfirleitt tengd þjóðþrifamálum

Útlendingar hvá margir við þegar þeim er sagt að flestar byggingar Háskólans séu reistar fyrir happdrættisfé enda þekkist slíkt fyrirkomulag ekki víða. Stefán bendir á að sögulega séð hafi happdrættisrekstur á Vesturlöndum langoftast verið í höndum ríkisins eða einhverra aðila sem njóta einkaleyfis þar sem hagnaðurinn er eyrnamerktur einhverju þjóðþrifamáli sem ríkisvaldið vill styðja við. „Fyrst eftir að happdrætti komu fram voru þau mikilvæg tekjulind fyrir hið opinbera og þóttu prýðileg fjáröflunarleið, þar sem litið var á þau sem valkvæðan skatt, sem þeir einir þyrftu að greiða sem kærðu sig um það. Eftir því sem peningastofnanir þróuðust dró úr mikilvægi happdrætta, bæði fyrir opinbera sjóði til að afla tekna og fyrir almenning sem fjárfestingarleið,“ bendir Stefán á.

Hann bætir við að í Bandaríkjunum hafi happdrætti víða verið eyrnamerkt fyrir skólakerfið og í Evrópu hafi menning og íþróttir notið góðs af sérleyfishappdrættum. „Ein af niðurstöðum mínum í bókinni er sú að ef íslenskt peningahappdrætti hefði verið stofnað nokkrum árum fyrr þá megi slá því föstu að Landspítalasjóðurinn hefði setið fyrir um þá tekjulind, en þar sem Landspítalinn var reistur árið 1930 myndaðist svigrúm fyrir önnur þjóðþrifamál og bygging húss fyrir Háskólann var þar fremst í röðinni,“ segir hann en vegna vinsælda Happdrættisins var hægt að ráðast í byggingu Aðalbyggingar aðeins tveimur árum eftir stofnun þess.

Dregið í beinni útsendingu í útvarpinu

Menn hafa lengi velt því fyrir sér hvar hugmyndin að veita Háskóla Íslands einkaleyfi með lögum að reka happdrætti hafi kviknað. Nöfn Guðjóns Samúelssonar, ariktekts sem teiknaði Aðalbygginguna, Alexanders Jóhannessonar, þáverandi rektors, og jafnvel Jónasar frá Hriflu hafa verið nefnd í því samhengi. Stefán segir í bókinni í raun fánýtt að svara því með fullri vissu og bendir á að Íslendingar hafi ekki verið ókunnir happdrætti á þessum tíma. „Dönsk happdrætti voru dugleg við að auglýsa í blöðum og sendu jafnvel fjölpóst á mögulega viðskiptavini hér á landi. Mörgum þingmönnum rann til rifja að peningar streymdu með þessum hætti úr landinu og varð það eflaust til að greiða fyrir samþykkt málsins. Lögin um happdrættið voru svo að miklu leyti tilbúin löngu áður en farið var að ræða um aðkomu Háskólans, því ýmsir danskir og íslenskir athafnamenn höfðu freistað þess að fá samþykkt lög um stofnun íslensks peningahappdrættis. Þeim fyrirtækjum var ekki sérstaklega ætlað að selja Íslendingum happdrættismiða heldur gengu áformin út á að selja miða póstleiðis, einkum til landa þar sem happdrætti voru ólögleg. Þessar áætlanir sem gengu í raun út á skipulögð lögbrot voru á afar hálum ís siðferðislega en alþingismenn virtust ekki kippa sér mikið upp við það,“ bendir Stefán á.

Óhætt er að segja að Happdrætti Háskóla Íslands hafi strax slegið í gegn hjá þjóðinni. „Þegar dregið var í fyrsta sinn í Happdrætti Háskólans þann 10. mars 1934 fylgdust landsmenn spenntir með. Fyrstu misserin var jafnvel dregið í beinni útsendingu í Ríkisútvarpinu og alltaf var nokkur fjöldi fólks sem mætti og fylgdist með útdrættinum í Iðnó. Það var þó kannski öðru fremur til marks um skort á afþreyingu. Á undraskjótum tíma varð miðaeign í Háskólahappdrættinu að föstum punkti í tilverunni hjá gríðarlega stórum hluta þjóðarinnar. Menn göntuðust með að það fyrsta sem ung hjón gerðu þegar þau hæfu búskap væri að kaupa áskrift að Morgunblaðinu og tryggja sér miða í Háskólahappdrættinu,“ segir Stefán og bætir við að með tilkomu nýrra happdrætta, eins DAS og SÍBS á sjötta áratugnum hafi samkeppnin aukið með hækkandi vinningum sem aftur fjölgaði miðakaupendum.

Aðalbygging

Vinsældir Happdrættis Háskóla Íslands þýddu að hægt var að ráðast í byggingu Aðalbyggingar árið 1936 og lauk henni á aðeins fjórum árum. Frá 17. júní við Aðalbyggingu.

Frá happdrættismiðum til happdrættisvéla

Fyrirkomulag happdrættismarkaðarins hér á landi hafa breyst mikið á þeim tíma sem liðinn er frá stofnun Happdrættis Háskóla Íslands og þær hafa fylgt vestrænum straumum. „Eftir að Bandaríkjamenn tóku almennilega við sér á happdrættissviðinu fyrir um hálfri öld urðu ýmsar breytingar sem höfðu áhrif um allan heim. Bandaríkjamönnum hugnaðist til að mynda illa seinagangurinn í tengslum við hefðbundin flokkahappdrætti, sem felst í því að kaupa miða og bíða svo rólegur eftir útdráttardegi og lesa svo vinningsnúmerin í blöðunum. Hin markaðsvæddu happdrætti vestanhafs lögðu höfuðáherslu á að þátttakendur fengju samstundis að vita um vinning. Afleiðingin voru happdrætti á borð við Lottó, þar sem vinningar voru dregnir út í beinni sjónvarpsútsendingu, skafmiðar - en skafmiðar með risavinningum eru afar sterkt happdrættisform í Bandaríkjunum – og síðar komu happdrættisvélarnar. Þessi þróun skilaði sér yfir Atlantshafið og hefur alls staðar haft mikil áhrif. Raunar má segja að flokkahappdrætti eins og HHÍ heldur úti heyri sögunni til í velflestum löndum Evrópu,“ bendir Stefán á.

Aðspurður hvort eitthvað hafi komið honum á óvart við vinnslu bókarinnar segir Stefán að það hafi verið fróðlegt að sjá hversu fjölbreytileg áformin um hvers kyns happdrættisrekstur hafa verið hér á landi. Margt hafi verið reynt en enn fleira komst aldrei af hugmyndastiginu. „Þegar margir slást um lítinn markað getur auðvitað hitnað í kolunum og því er happdrættissaga Íslands mikil átakasaga,“ segir Stefán og bætir við að bókin fjalli um meira en happaþrennur og miðaútdrætti. „Tilgangurinn með happdrættinu er jú að fjármagna húsbyggingar Háskólans og í seinni tíð líka viðhald og tækjakaup. Það er því stilkað á stóru og smáu í byggingarsögunni. Ég trúi því að fólk sem hefur áhuga á þróunarsögu Reykjavíkur finni margt áhugavert í frásögninni.“

„Þegar margir slást um lítinn markað getur auðvitað hitnað í kolunum og því er happdrættissaga Íslands mikil átakasaga,“ segir Stefán og bætir við að bókin fjalli um meira en happaþrennur og miðaútdrætti. „Tilgangurinn með happdrættinu er jú að fjármagna húsbyggingar Háskólans og í seinni tíð líka viðhald og tækjakaup. Það er því stilkað á stóru og smáu í byggingarsögunni. Ég trúi því að fólk sem hefur áhuga á þróunarsögu Reykjavíkur finni margt áhugavert í frásögninni.“

Hörð samkeppni við Lottó

Auglýsingar á vegum Happdrættis Háskóla Íslands hafa oft vakið athygli og þeim eru gerð góð skil í bókinni. Þar má t.d. rifja upp að knattspyrnu- og sjónvarpsstjörnur á borð við Arnór Guðjohnsen og Hemmi Gunn voru meðal þeirra sem auglýstu happdrættið á sínum tíma.
 
Stefán segir auglýsingarnar alla tíð hafa verið mikilsverðan þátt í starfsemi HHÍ. Í árdaga happdrættisins hafi net umboðsmanna um land allt sé um sölu happdrættismiða en aðalskrifstofan í Reykjavík hafi séð um kynningarmál. „Umboðsmannaskrifstofurnar urðu þannig mikilvægar stofnanir í hverju samfélagi þar sem fólk hittist og spjallaði saman. Margir tóku ástfóstri við sinn umboðsmann og lögðu jafnvel mikið á sig til að geta haldið þeim viðskiptum þrátt fyrir flutninga landshorna á milli,“ bætir Stefán við.

Með harðandi samkeppni og breyttu fyrirkomulagi happdrættis hafi nýir miðlar verið nýttir í auknum mæli. „Með tilkomu sjónvarpsins urðu sjónvarpsauglýsingar mikilvægar. Þjóðin kunni utanað happdrættisauglýsingar með Bessa Bjarnasyni og Árna Tryggvasyni sem fóru með gamanmál og sungu lög sem urðu á hvers manns vörum. Aðrar auglýsingar hafa reynst umdeildari og kallað á blaðaskrif og jafnvel harðorðar ályktanir frá verkalýðsfélögum, þegar boðskapurinn þótti ekki nógu góður,“ segir Stefán.

Hann bætir við að Lottóið hafi reynst HHÍ harður keppinautur. „Útdrættir Lottósins voru æsilegir og í beinni sjónvarpsútsendingu á kjörtíma auk þess sem fréttastofur sögðu í sífellu fréttir af stærð lottópotta - þrátt fyrir að vinninghlutfall og upphæð vinninga væri enn hærri í flokkahappdrættunum. Niðurstaða HHÍ varð sú að reyna að bjóða upp á happdrættistegundir sem kölluðust á við sjónvarpsútsendingar, s.s. með útdrætti á skafmiðaafrifum, söfnunarhappdrætti með útdrátt í beinni o.s.frv. Í tengslum við þetta var reynt að halda úti sjónvarpsþáttum en útkoman var vonbrigði, enda hafði HHÍ á þeim tíma ekki yfir að búa beinlínusölukerfi eins og Lottóið.“

haskolasvaedi

Háskólasvæðið hefur nánast verið í stöðugri uppbyggingu frá fjórða áratug síðustu aldar. 

Gríðarhröð þróun í happdrættisgeiranum

Byggingarnar sem reistar hafa verið fyrir happdrættisfé á háskólasvæðinu eru á þriðja tug og þegar þetta er ritað er ein að bætast við, Hús íslenskunnar. Fleiri eru á teikniborðinu, svo sem ný bygging undir Heilbrigðsvísindasvið skólans og þá eru uppi hugmyndir um nýja byggingu í Vatnsmýri undir starfsemi Menntavísindasviðs sem nú er í Stakkahlíð. Því vakna eðlilega spurningar um framtíðarhlutverk Happdrættisins. 

Stefán bendir á að um tíma virtist sem að flokkahappdrættið væri í frjálsu falli og að tími þess væri senn liðinn. „Þeirri þróun tókst að hrinda og hefur HHÍ tekist býsna vel að höfða til gamalla nemenda sinna, sem annarra, að taka þátt í þessu gamalgróna happdrætti sem býður upp á hátt vinningshlutfall og vinningslíkur. Þróunin í happdrættisgeiranum er hins vegar gríðarlega ör og netspilun verður sífellt fyrirferðarmeiri. Spurningin er hvort íslenskum happdrættisfyrirtækjum takist að halda í við þá þróun eða hvort þeir peningar sem Íslendingar verja til happdrættisspilunar muni allir renna beint úr landi, líkt og raunin var áður en HHÍ kom til sögunnar,“ segir hann að endingu.

Kápa bókar og Stefán Pálsson