Skip to main content
27. september 2022

Hreyfing, félagsleg tengsl og ástríða halda heilanum við

Hreyfing, félagsleg tengsl og ástríða halda heilanum við - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hermundur Sigmundsson, prófessor í sálfræði við Menntavísindasvið HÍ og Háskólann í Þrándheimi, var að birta ásamt samstarfsfélögum sínum nýja vísindagrein í tímaritinu Brain Sciences þar sem rýnt er í mikilvæga þætti sem geta aukið og viðhaldið gráa og hvíta efni heilans sem skipta miklu máli fyrir virkni hans.
„Heilinn í þér er stórkostlegur. Um 100 milljarðar taugafrumna vinna saman að því að halda hugsuninni kvikri. Það hægist hins vegar á hlutunum fyrir mörg okkar þegar við eldumst en heilinn getur verið heilbrigður lengur með smá áreynslu, þjálfun og áskorunum,“ segir Hermundur.

Greinina skrifar Hermundur í samstarfi við Simone Grassini, dósent við Háskólann í Stavanger, og Benjamin H. Dypbendal, meistaranema við sama skóla. Rannsóknir þeirra gefa til kynna að það sama gildi um heilann og aðra hluta líkamans, þ.e. að það er mikilvægt að þjálfa heilann til að viðhalda starfsemi hans. „Heilaþroski er nátengdur lífstíl þínum. Líkamleg hreyfing, félagstengsl og ástríða gera það að verkum að heilastarfsemin getur haldið áfram að þróast og verið sú sama þegar þú eldist,“ segir Hermundur.

Að sögn Hermundar hefur fjöldi rannsókna sýnt að grundvallarþættir í heilastarfsemi einstaklinga tengjast hvíta og gráa efni heilans. Gráa efnið mætti kalla tölvu heilans og hvíta efnið leiðslurnar í tölvunni.

„Gráa efnið samanstendur af fjölda taugafrumna og tengingum þeirra. Það minnkar hins vegar stöðugt frá 10 ára aldri. Með hækkandi aldri verður tölva heilans (taugafrumur og nánustu tengingar) minni með þeim afleiðingum að það getur orðið samdráttur í vitsmunalegri getu. Hvíta efnið samanstendur af knippi af taugaþráðum (e. axons) sem eru einangraðar með fitulagi (e. myelin). Hvíta efnið flytur upplýsingar milli gráu svæða heilans og einangrun þráðanna gerir það að verkum að taugaboð geta borist hraðar. Hvíta efnið vex til ca. 40/45 ára aldurs og minnkar eftir það, sem gerir það að verkum að taugakerfið starfar hægar eftir þann aldur,“ bendir Hermundur á.

Þrír þættir stuðla að heilbrigði heilans

Í áðurnefndri grein Hermundar Sigmundssonar og samstarfsfélaga taka þeir saman fyrri rannsóknir á sviði heilbrigði heilans. Þar eru nefndir þrír þættir sem skipta mestu máli fyrir okkur til að halda heilanum sem heilbrigðustum, að sögn Hermundar:

  • Hreyfing, þ.e. líkamleg þjálfun.
  • Tengsl/sambönd, sterk tengsl við fjölskyldu og vini.
  • Ástríða, að læra nýja hluti og takast á við nýjar áskoranir.

Þessir þrír þættir eru því í senn nokkrir af lyklunum að því að viðhalda góðum lífsgæðum þegar maður eldist og mikilvægir allt lífið. „Ekki hætta að takast á við áskoranir í lífinu, þær eru lykillinn að þróun heilans,“ segir Hermundur að endingu.

Grein Hermundar Sigmundssonar, Benjamins H Dybendal and Simone Grassini í Brain Sciences: Motion, relation, and passion in brain physiological and cognitive aging.

Umfjöllun um niðurstöðurnar í Noregi

Mynd: Kristinn Ingvarsson

Hermundur Sigmundsson