Skip to main content
18. desember 2017

Hopun jökla ógnar lífríki í jökulám um heim allan

jökull

Ný rannsókn alþjóðlegs hóps vísindamanna leiðir í ljós að alls staðar á jörðinni bregðast hryggleysingjar í jökulám á sama hátt við bráðnun jökla. Greint er frá rannsókninni í nýjasta hefti tímaritsins Nature Ecology & Evolution sem kom út í dag. Meðal þeirra sem komu að rannsókninni eru þeir Gísli Már Gíslason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, og Jón S. Ólafsson, vatnalíffræðingur við Hafrannsóknastofnun. 

Nær 95% dýra á jörðinni teljast til hryggleysingja og er hópurinn mjög fjölbreyttur. Hryggleysingjar gegna veigamiklu hlutverki í vistkerfum um allan heim, t.d. við að viðhalda frjósemi jarðvegar, hreinsun vatns og í hringrás kolefnis. Því skiptir miklu máli að fylgjast með því hvernig þessar lífverur bregðast við umhverfisbreytingum, m.a. til þess að koma í veg fyrir útdauða tegunda og þar með hnignun líffræðilegs fjölbreytileika.

Í rannsókninni sem fjallað er um í Nature Ecology and Evoloution var sjónum sérstaklega beint að hryggleysingjum í jökulám víða um heim og því hvaða áhrif hopun jökla samfara hlýnandi loftslagi hefði á lífshætti þeirra. Ástæðan fyrir því að jökulár urðu fyrir valinu er sú að slíkar ár eru oftar ósnortnar og hafa sjaldnar orðið fyrir mengun af mannavöldum en aðrar ár.

Alls fóru rannsóknir fram á 170 stöðum á níu mismunandi fjallasvæðum í þremur heimsálfum, en að rannsókninni komu vísindamenn frá 13 stofnunum í sjö löndum. Hér á landi fóru rannsóknirnar fram í Vestari-Jökulsá og þverám hennar í Skagafirði og beindust m.a. að hryggleysingjum eins og rykmýi, sem er oftast ríkjandi hópur hryggleysingja í ánum.

Gögnum um yfir eina milljón hryggleysingja var safnað saman í rannsókninni og um leið kortlagt hvaða lífsháttaeiginleika (e. functional traits) ólíkar tegundir hryggleysingja á þessum fjölbreyttu stöðum ættu sameiginlega. Með lífsháttaeiginleikum er átt við eiginleika sem breytast með tilliti til umhverfis, eins og líkamsstærð, hreyfingu, lengd lífsferils og fæðuvenjur. Þessir eiginleikar ráða miklu um aðlögunarhæfni tegunda. 

Sem fyrr segir leiddi rannsókn vísindahópsins í ljós að hryggleysingjar í jökulám á þessum fjölbreyttu stöðum á jörðinni bregðast á sama hátt við hopun jökla.  Viðbrögðin ráðast að miklu leyti af því hvort lífverurnar séu mjög hreyfanlegar, geti flutt sig til og aðlagast vel í nýju umhverfi. Þetta þýðir að þar sem umhverfisbreytingar eru hraðar, eins og við hopun jökla, muni þær lífverur sem eru lítt hreyfanlegar síður geta haldið í við breytingar á búsvæðum og því átt undir högg að sækja. Það getur aftur haft mikil áhrif á vistkerfi jökuláa.

Vísindamennirnir sem standa að rannsókninni undirstrika að mikilvægt sé að öðlast betri skilning á breytingum á lífháttaeiginleikum hryggleysingja samfara hopun jökla í ljósi þess hve mikilvægar þessar lífverur eru fyrir vistkerfi heimsins. Þeir benda jafnframt á að niðurstöður rannsóknanna undirstriki að hægt sé að nýta rannsóknaraðferðirnar  til að spá fyrir um áhrif umhverfisbreytinga á hryggleysingja í öðrum vistkerfum en jökulám, þar á meðal í hafinu, jarðvegi og jafnvel borgum. 

„Um þriðjungur vatns sem fellur til sjávar á Íslandi er jökulár eða jökulblandað vatn,“ segir Gísli Már Gíslason. „Það skiptir því öllu máli að öðlast skilning á þeim áhrifum sem hörfun jökla hefur á breytingar á lífsháttum og lífsferlum hryggleysingja til að draga úr þeirri ógn sem útdauði tegunda og breytingar á starfsemi vistkerfa hefur. Jökulár gegna veigameira hlutverki í vistkerfum straumvatna á Íslandi en í flestum öðrum löndum.“

Útdráttur úr greininni á vef Nature.

Gísli Már Gíslason
Frá rannsóknum í Vestar-Jökulsá í Skagafirði.