Skip to main content
29. maí 2018

Háskólinn á Bifröst tekur upp Ugluna

Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, hafa undirritað viljayfirlýsingu um sameiginlegan vilja til að vinna að því að tölvukerfið Ugla, sem er í eigu Háskóla Íslands, verði innleitt hjá Háskólanum á Bifröst á árinu 2019. Uglan hefur hingað til eingöngu verið notuð sem megintölvukerfi opinberu háskólanna þannig að hér er um nokkur tímamót að ræða hvað notkun hennar varðar.

Ugla er upplýsingakerfi sem nýtist háskólum í að halda utan um nemendaskráningu, námsumsjón og ýmislegt annað er varðar sjálft háskólastarfið. Uglan er því hjartað í starfi háskólanna og er notuð í öllum opinberu háskólunum og verður það nú einnig á Bifröst. Uglan er alfarið innlend framleiðsla og er þróuð og hýst hjá Upplýsingatæknisviði Háskóla Íslands. Um er að ræða heildstæða lausn sem miðast við íslenskar aðstæður og er þróun Uglunnar stýrt sameiginlega af öllum háskólunum. Ugla hefur leitt af sér mikla hagræðingu fyrir íslenska háskóla, m.a. með sameiginlegum rekstri kerfisins hjá Háskóla Íslands. Fjöldi skráðra notenda er á fjórða tug þúsunda og er dagleg notkun kerfisins með því mesta sem gerist hér á landi.

Kostir við að hafa sama kerfi í háskólum landsins eru ótvíræðir þar sem það getur og mun auðvelda samskipti milli skólanna, t.d. vegna námsferla nemenda, en einnig munu nemendur vinna í sambærilegu námsumhverfi án tilits til þess í hvaða skóla þeir stunda nám sitt. Sama á við um kennara sem kenna í fleiri en einum skóla.

Undirbúningur innleiðingarinnar í Háskólanum á Bifröst mun hefjast í upphafi næsta skólaárs og mun krefjast náins samstarfs á milli skólanna tveggja.

Mynd af Uglu