Skip to main content
22. apríl 2020

Háskóli Íslands áfram á lista háskóla sem hafa mest samfélagsleg áhrif

""

Háskóli Íslands er í sæti 201-300 yfir þá háskóla í heiminum sem hafa mest samfélagsleg og efnhagsleg áhrif út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna samkvæmt lista tímaritsins Times Higher Education sem er nú birtur í annað sinn.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru 17 að tölu og gilda fyrir árin 2015-2030 en þeim er ætlað að leiða þjóðir heims í átt að sjálfbærari lifnaðarháttum. Markmiðin snerta m.a. fátækt, fæðuöryggi og hungur, heilsu og vellíðan, jafnrétti kynjanna, aðgengi að vatni og orku, sjálfbæra neyslu og framleiðslu, aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, verndun úthafanna og sjálfbæra nýtingu vistkerfa.

Listi Times Higher Education sem birtur er nú nefnist University Impact Rankings. Þar eru tilteknir mælikvarðar, sem tímaritið hefur sett fram, nýttir til að meta samfélagsleg og efnahagsleg áhrif háskóla um allan heim og framlag þeirra til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Listinn var birtur í fyrsta sinn í fyrra og náði þá til 11 heimsmarkmiða en listinn í ár tekur mið af öllum 17 markmiðunum.

Úttekt Times Higher Education í ár nær til 857 háskólastofnana í 89 ríkjum en 766 þeirra eru teknir inn í heildarröðun tímaritsins. Þeirra á meðal er Háskóli Íslands sem er eins og áður sagði í sæti 201-300. Heildarröðun háskólanna byggist á frammistöðu þeirra á sviði þriggja sjálfbærnimarkmiða þar sem hver háskóli stendur sterkastur að vígi auk frammistöðu á markmiði 17, Samvinnu um markmiðin. Háskóli Íslands er talinn standa fremst í markmiðum sem snerta sjálfbæra orku (40. sæti á lista Times Higher Education), aðgerðir í loftslagsmálum (48. sæti) og líf í vatni (76. sæti).

Háskóli Íslands hefur á undanförnum árum átt góðu gengi á fagna á listum Times Higher Education og ShanghaiRanking yfir fremstu háskóla heims en mat þeirra nær fyrst og fremst til rannsókna, kennslu og áhrifa í alþjóðlegu vísindasamfélagi. University Impact Rankings listi Times Higher Education tekur hins vegar til annarra mikilvægra þátta í starfi háskóla, áhrifa þeirra á nærsamfélag sitt sem lögð er sívaxandi áhersla á. Háskóli Íslands leggur mikinn þunga á að þjóna íslensku samfélagi sem allra best, m.a. með nýtingu og miðlun þekkingar og nýsköpun, en það hefur m.a. birst glögglega í virkri samfélagsþátttöku starfsfólks og stúdenta nú í COVID-19-faraldrinum.

„Þetta er bæði mikilvæg og glæsileg niðurstaða fyrir Háskóla Íslands. Henni ber að fagna. Það er afar mikilvægt að starf háskóla byggist á því að bæta heiminn. Heimsmarkmiðin taka á öllum grundvallarþáttum sem þarf að breyta til að bæta lífsskilyrði á jörðinni og þar með líf okkar allra. Í Háskóla Íslands höfum við lagt áherslu á heimsmarkmiðin, þ.á m. rekið sérstaka fundaröð um þau þar sem sérfræðingar skólans fjalla um einstök markmið. Við erum nú að hefja undirbúning nýrrar stefnumótunar Háskóla Íslands fyrir næstu 5 ár. Þar munu heimsmarkmiðin leika veigamikið hlutverk. Þessi niðurstaða Times Higher Education sýnir að við erum á réttri leið,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Yfirlit yfir áhrifamestu háskóla heims samkvæmt University Impact Rankings er að finna á vefsíðu Times Higher Education.

Þar er einnig að finna gagnvirkt kort sem gefur yfirsýn yfir hvernig þátttökuskólar víða um heim standa.

Háskólatorg