Skip to main content
30. maí 2024

Handhafi alþjóðlegra verðlauna Sigurðar Þórarinssonar í heimsókn á Íslandi

Handhafi alþjóðlegra verðlauna Sigurðar Þórarinssonar í heimsókn á Íslandi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hér á landi er ekki almennt vitað að æðstu verðlaun sem veitt eru á sviði eldfjallafræði í heiminum (Thorarinson Medal) eru kennd við bóndason úr Vopnafirði sem fæddur var árið 1912, Sigurð Þórarinsson jarðfræðing. Þau eru veitt af Alþjóðaeldfjallafræðisambandinu. Nýjasti styrkþeginn, Katharine Cashman, einn fremsti vísindamaður heims á þessu sviði og prófessor við Háskólann í Oregon, er nú stödd á Íslandi í boði Jarðfræðafélags Íslands og flutti erindi fyrir fullu húsi í Háskóla Íslands síðastliðinn mánudag. Þar fjallaði hún um rannsóknir á hraunrennsli á Havaí. Þar er eldvirkni mikil líkt og hérlendis og hraungos verið í gangi nánast samfellt í nokkra áratugi.

Fátt brennur nú meira á Íslendingum þessi misserin en hraunrennsli og eldsumbrot enda hafa jarðeldar við Grindavík orðið til þess að fólk hefur þurft að yfirgefa bæinn. Þar virðist ekkert lát á umbrotum en gos hófst á ný í Sandhnúkaröðinni daginn sem þetta er ritað, 29. maí 2024. Síðast var heill bær yfirgefin vegna eldsumbrota í eldgosinu í Heimaey fyrir hálfri öld, árið 1973. Í ljósi þess að hraunrennsli og eldgos eru svo ofarlega á baugi hér á landi nú er mikill fengur að komu Cashman hingað.  Heiti fyrirlestrar Cashman var: „How lava flows: A Hawaiian Perpective.“ 

Verðlaunin sem kennd eru við Sigurð Þórarinsson

Katharine Cashman er í hópi tíu vísindamanna í fremstu röð á heimsvísu sem hlotið hafa verðlaun Sigurðar Þórarinssonar en þau eru veitt á fjögurra ára fresti, fyrst árið 1987. Cashman fékk verðlaunin við formlega athöfn á stórri vísindaráðstefnu í Berlín í Þýskalandi í fyrra. Rannsóknaferill Cahsman er langur og glæsilegur. Hún hefur verið í fremstu röð í eldfjallarannsóknum undanfarin 40 ár og m.a. unnið að auknum skilningi á hraunrennsli og sprengivirkni í eldgosum. Hún hefur auk þess lagt mikið til rannsókna á uppsöfnun kviku í jarðskorpunni og varpað ljósi á hve flókin þau kerfi eru sem myndast undir eldfjöllum og eldvirkum svæðum.  

Rannsóknir Cashman taka til eldfjalla um allan heim og margs konar eldvirkni. Hún nýtir jarðfræðikortlagningu, jarðefnafræði af ýmsu tagi, vökvaaflfræði, jarðskjálftafræði, fjarkönnun, aðferðir loftslagsrannsókna og tölfræði. Eitt af hennar fyrstu verkefnum sneri að eldgosinu mikla sem varð árið 1980 í Mount St. Helens í Bandaríkjunum.  Auk þess að gegna stöðu prófessors vestan hafs var Cashman um tíma í sömu stöðu við Háskólann í Bristol í Englandi.  

Sigurður Þórarinsson var prófessor í jarðfræði við Háskóla Íslands á árunum 1969 til 1982 og er af mörgum talinn fremsti jarðvísindamaður sem Ísland hefur alið og einn sá fremsti á heimsvísu. Hann var brautryðjandi á mörgum sviðum og kom m.a. á þeirri fræðigrein sem nefnd er gjóskulagafræði. Rannsóknir hans á Heklugosinu 1947 og Surtsey 1963 til 1967 gerðu þessi gos heimsfræg. 

Æðstu verðlaun í heimi á sviði eldfjallafræði

Eins og fram kom hér að framan eru verðlaun Sigurðar Þórarinssonar skilgreind sem æðstu verðlaun Alþjóða eldfjallafræðisambandsins (IAVCEI – International Association of Volcanology and Cemistry of the Earth’s Interior). Þau eru veitt afburða vísindafólki sem með rannsóknum sínum hafa átt stóran þátt í framþróun fræðigreinarinnar. Lesa má nánar um verðlaunin hér.

Sigurður Þórarinsson var prófessor í jarðfræði við Háskóla Íslands á árunum 1969 til 1982 og er af mörgum talinn fremsti jarðvísindamaður sem Ísland hefur alið og einn sá fremsti á heimsvísu. Hann var brautryðjandi á mörgum sviðum og kom m.a. á þeirri fræðigrein sem nefnd er gjóskulagafræði. Rannsóknir hans á Heklugosinu 1947 og Surtsey 1963 til 1967 gerðu þessi gos heimsfræg. Alþjóðaeldfjallafræðisambandið ákvað því, fjórum árum eftir andlát Sigurðar, að koma á nýjum verðlaunum kenndum við hann og skilgreina þau sem æðstu verðlaun sambandsins.  

Hefur stundað rannsóknir á eldsumbroum hérlendis

Katharine Cashman er í hópi svokallaðra Íslandsvina en hún kom m.a. að rannsóknum á sprengivirkni í Grímsvatnagosinu árið 2011 og í gosinu sem myndaði Hverfell í Mývatnssveit fyrir 2800 árum. Hún hefur auk þess oft sótt landið heim.  

Undanfarið hefur hún víkkað viðfangsefni sín í rannsóknum í gegnum samstarf við loftslagsfræðinga, fornleifafræðinga og listafólk til að rannsaka áhrif eldfjalla á fólk og samfélög á ýmsum tímum. 

Katharine Cashman