Skip to main content
13. október 2022

Göngum saman styrkir krabbameinsrannsóknir við HÍ

Göngum saman styrkir krabbameinsrannsóknir við HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Styrktarfélagið Göngum saman veitti í vikunni vísindafólki og nemendum við Háskóla Íslands 15 milljónir króna í rannsóknastyrki til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini. Þetta var í fimmtánda skipti sem Göngum saman styrkir rannsóknir sem þessar og hefur þar með veitt alls nær 135 milljónir króna til brjóstakrabbameinsrannsókna.

Fimm aðilar fengu styrk að þessu sinni: 

  • Aldís María Antonsdóttir, meistaranemi i lífeindafræði við Háskóla Íslands, hlaut 2,5 milljónir króna til verkefnisins „Hlutverk peroxidasin (PXDN) í meinvarpandi brjóstakrabbameini“   
  • Alexander Örn Kárason, meistaranemi i lífeindafræði við Háskóla Íslands, hlaut 2,5 milljónir króna til verkefnisins „Óstöðugir telomerar í BRCA2 vanvirkum brjóstafrumulínum í tengslum við nýja marksækna meðferð gegn POLQ og RAD522“
  • Berglind Eva Benediktsdóttir, dósent við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, hlaut 2,5 milljónir króna til verkefnisins „Sérhannaðar utanfumubólur með sækni gegn þríneikvæðum brjóstakrabbameinum“
  • Kristrún Ýr Holm, doktorsnemi í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands, hlaut 4 milljónir króna til verkefnisins  „Leit að lífmerkjum fyrir snemmgreiningu brjóstakrabbameina“
  • María Rose Bustos, rannsóknamaður við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, hlaut 3,5 milljónir króna til verkefnisins „Tap á arfblendni og tjáning estrógen viðtaka í brjóstakrabbameinum BRCA2999Δ5 arfbera“

Kristrún Ýr, sem hlaut hæsta styrkinn í ár, vinnur að því í doktorsverkefni sínu að finna lífmerki (e. biomarkers) í blóðvökva brjóstakrabbameinssjúklinga og með því þróa nýja og bætta snemmgreiningaraðferð sem gæti borið kennsl á brjóstakrabbamein á byrjunarstigi. 

Um Göngum saman

Vísindasjóður Göngum saman styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini enda eru þær forsenda framfara í vísindum. Rannsóknarverkefni eru metin skv. faglegu gæðamati en auk vísindanefndar Göngum saman leggur ytri ráðgjafanefnd mat á umsóknirnar. Styrkveitingin byggist að mestu leyti á frjálsum framlögum einstaklinga sem hafa lagt hafa sitt af mörkum með þátttöku í fjáröflunum félagsins, sem voru margvíslegar í ár, s.s. Þórsmerkurferð með Volcano Trails, sala á Brjóstasnúðum Brauð&co í tilefni Mæðradagsins, áheit á hlaupara í Reykjavíkurmaraþoninu og sala á ýmsum söluvarningi félagsins. Einnig hafa ýmis félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar lagt Göngum saman lið en megináhersla er á að öll framlög renni óskipt í vísindasjóð félagsins. Göngum saman hefur veitt nær 135 milljónir króna til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini frá stofnun félagsins árið 2007.

Vefur Göngum saman

Göngum saman á Facebook

 Frá afhendingu styrkjanna í Hannesarholti. Frá vinstri: Gunnhildur Óskarsdóttir, formaður og stofnandi Göngum saman, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, María Rose Bustos, Kristrún Ýr Holm, , Alexander Örn Kárason, Aldís María Antonsdóttir og Berglind Eva Benediktsdóttir. MYND/ Þórdís Erla Ágústsdóttir