Skip to main content
20. desember 2023

Getur gervigreind bætt stjórnun vinnustaða?

Getur gervigreind bætt stjórnun vinnustaða? - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hvernig getum við komið í veg fyrir að gervigreind, sem er notuð við mannauðsstjórnun og nýráðningar, skapi mismunun og hlutdrægni í atvinnulífinu? Hvernig getum við þróað og notað gervigreind með það að markmiði að stuðla að jöfnuði og inngildingu starfsfólks með fjölbreyttan bakgrunn?  

Þetta er meðal þeirra spurninga sem svokallað BIAS-rannsóknarverkefni Guðbjargar Lindu Rafnsdóttur, prófessors í félagsfræði og fyrrverandi aðstoðarrektors vísinda við HÍ, og þverfræðilegs hóps samstarfsfólks í 9 Evrópulöndum leitast við að svara. Á síðasta ári fengu þau styrk úr Horizon Europe rannsóknaráætlun Evrópusambandsins til að greina hlutdrægni og ályktunarskekkjur þegar gervigreind er notuð við stjórnun. Jafnframt er markmiðið að þróa lausnir svo hægt sé að nota gervigreind til að auka fjölbreytileika í ákvörðunartöku. Með fjölbreytileika er átt við þætti eins og kyn, þjóðerni, trúarbrögð, aldur, fötlun og fleira.  

Auk Guðbjargar Lindu, sem leiðir BIAS-verkefnið fyrir hönd Háskóla Íslands, eru þær Ragna Kemp Haraldsdóttir dósent og Thamar M. Heijstra prófessor hluti af rannsóknarteymi Háskóla Íslands ásamt Dilys S. Quartey doktorsnema. 

Að BIAS-rannsóknarverkefninu koma fulltrúar háskóla og fyrirtækja í 9 Evrópulöndum. Á síðasta ári fengu þau styrk úr Horizon Europe rannsóknaráætlun Evrópusambandsins til að greina hlutdrægni og ályktunarskekkjur þegar gervigreind er notuð við stjórnun.

Þróa afbjögunarkerfi fyrir tungumálalíkön í mannauðsmálum

Á dögunum var haldinn fundur í Feneyjum, þar sem hagaðilum frá hverju samstarfslandi var boðið að taka þátt. Frá Íslandi var boðið til fundarins sérfræðingum í hönnun gervigreindar, þeim Hafsteini Einarssyni, lektor í tölvunarfræði við HÍ, Sigyn Jónsdóttur, tæknistjóra hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Öldu, og Katli Berg Magnússyni, mannauðsstjóra hjá Marel. Á fundinum var sérstök áhersla lögð á að þróa svokallað afbjögunarkerfi (e. debiaser) sem miðar að því að bera kennsl á og draga úr hlutdrægni í tungumálalíkönum sem eru notuð við stjórnun mannauðs.

„Ég hvet öll þau sem hafa áhuga á notkun gervigreindar við stjórnun og nýráðningar til fylgjast með verkefninu á heimasíðu þess og sækja um aðild að landsneti verkefnisins (e. National Lab). Þau sem eru skráð í landsnetið fá ítarlegri upplýsingar um verkefnið, gang þess og helstu niðurstöður auk þess sem þeim verður boðið að taka þátt í viðburðum og verkefnum á þess vegum,“ segir Guðbjörg Linda.  

Heimasíða verkefnisins er https://www.biasproject.eu/

Til að vera hluti af landsnetinu vinsamlegast skráið ykkur hér.

Þátttakendur frá Íslandi á ráðstefnunni í Feneyjum