Skip to main content
1. september 2021

Flótti tveggja afganskra nemenda Alþjóðlega jafnréttisskólans 

Flótti tveggja afganskra nemenda Alþjóðlega jafnréttisskólans  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tveimur fyrrverandi nemendum Alþjóðlega jafnréttisskólans (GRÓ-GEST) við Hugvísindasvið Háskóla Íslands tókst með ótrúlegri seiglu og hugrekki að flýja Afganistan á dögunum ásamt fjölskyldum sínum og komast hingað til lands með stuðningi starfsmanna skólans. Nemendurnir, sem báðir störfuðu að jafnréttismálum í heimalandi sínu, voru taldir í lífshættu eftir að Talibanar brutust þar aftur til valda.

Flest sem fylgst hafa með fréttum undanfarnar vikur hafa ekki farið varhluta af því upplausnarástandi sem ríkir í Afganistan í kjölfar þess að Bandaríkin drógu herlið sitt út úr landinu og Talibanar komust til valda. Fjölmargar þjóðir kölluðu borgara sína heim frá Afganistan ásamt því að vinna að því að koma stórum hópi Afgana, sem talinn var í bráðri hættu vegna starfa sinna, í skjól.  

Íslensk stjórnvöld ákváðu á þriðjudag í síðustu viku að taka á móti allt að 120 Afgönum, þar á meðal öllum fyrrverandi nemendum Alþjóðlega jafnréttisskólans frá Afganistan, mökum þeirra og börnum. Skólinn, sem hefur verið starfandi undanfarin 12 ár, býður upp á nám sem er bæði fræðilegt og hagnýtt fyrir sérfræðinga frá þróunarlöndum, átakasvæðum og fyrrverandi átakasvæðum. Markmiðið er að veita nemendum þjálfun á sínu sérsviði og gera þeim betur kleift að vinna að jafnri stöðu karla og kvenna í heimalöndum sínum.

Reynt að bjarga þremur fjölskyldum

„Strax í framhaldi af ákvörðun ríkisstjórnarinnar óskaði utanríkisráðuneytið eftir aðstoð okkar og við hófumst þá handa við að staðsetja og hafa samband við fyrrverandi nemendur okkar. Það var ekki auðvelt verk því að mörg þeirra voru þegar á flótta eða í felum,“ segir Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Alþjóðlega jafnréttisskólans og prófessor við Mála- og menningardeild.

Í ljós kom að þrír nemendanna voru þegar komnir eða á leið í skjól í öðrum löndum. „Flestir nemendanna, sem voru enn í landinu, hafa ekki starfað allra síðustu ár fyrir alþjóðastofnanir eins og til dæmis NATO eða Sameinuðu þjóðirnar heldur innlend félagasamtök og ólík ráðuneyti. Þeim hafði því ekki enn verið boðin vernd. Sum þeirra höfðu skrifað okkur nokkrum dögum fyrr og lýst áhyggjum sínum,“ segir Irma. 

„Við lögðum nótt við dag við að hafa uppi á og halda sambandi við þá nemendur sem enn voru í Afganistan og hjálpa þeim úr landi. Rafmagnið fer af reglulega í Afganistan og netsambandið var lélegt og þess vegna þurfti oft að bíða lengi eftir að svör bærust. Að auki höfðu mörg þeirra lokað samfélagsmiðlum sínum af ótta við að mögulegt yrði að leita upplýsinga um þau. Á þriðjudagskvöld var ákveðið að nýta þann agnarþrönga glugga sem við höfðum og gera tilraun til að bjarga þremur fjölskyldum sem bjuggu ekki langt frá flugvellinum í Kabúl: þremur fyrrverandi nemendum, eiginmönnum þeirra og börnum. Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hafði yfirumsjón með aðerð stjórnvalda um að koma flóttafólkinu til Íslands en þátttaka okkar fór einnig fram í nánu samstarfi við Nínu Björk Jónsdóttur, forstöðumann GRÓ- Þekkingarmiðstöðvar um þróunarsamvinnu,“ segir Irma.   

Markmið Alþjóðlega jafnréttisskólans er að efla þekkingu og hæfni sérfræðinga frá þróunarlöndum, átakasvæðum og fyrrverandi átakasvæðum til að þróa og hrindra í framkvæmd, í heimalöndum sínm, verkefnum og/eða rannsóknum sem miða að kynjajafnrétti og félagslegum jöfnuði. Síðastliðin ár hefur hann útskrifað um 20-23 nemendur á ári úr 30 eininga diplómanámi. Alls eru útskrifaðir nemendur 152 frá upphafi og hafa komið frá 25 löndum, þ.m.t. Afganistan, Palestínu, Úganda, Mósambík og Malaví. Í byrjun ágúst 2021 tók skólinn á móti 20 nemendum og von er á 25 nemendum í janúar 2022.

Ótrúleg festa og hugrekki fjölskyldnanna við hrikalegar aðstæður

Við flugvöllinn í Kabúl hafði skapast upplausnarástand, en þúsundir söfnuðust þar saman í þeirri von að yfirgefa landið. „Aðstæður við Abbey-hliðið svokallaða þar sem fjölskyldurnar komu saman voru skelfilegar um miðja síðustu viku. Það var mannþröng og hleypt af byssum reglulega og fólk í verulegri hættu enda réðust Talíbanar með bareflum jafnt á fullorðna og börn sem reyndu að nálgast hliðið,“ segir Irma og vísar þar til eins af hliðunum þar sem afganskir flóttamenn fóru inn á flugvöllinn. 

Fregnir höfðu borist af því að sjálfsmorðsárás væri möguleg og það varð m.a. til þess að ein af fjölskyldunum þremur hörfaði frá flugvellinum, en í henni voru kona, sem var nemandi í Alþjóðlega jafnréttisskólanum á fyrsta starfsári hans, eiginmaður hennar og tvö börn. Konan hefur unnið að réttindamálum kvenna alla starfsævi sína, meðal annars á vegum afganskra stjórnvalda og stofnana Sameinuðu þjóðanna .

„Nokkru síðar tókst loks að koma hinum fjölskyldunum tveimur í skjól inn fyrir hliðið og inn á flugvöllinn. Fjölskyldurnar voru komnar að hliðinu rétt fyrir sólarupprás aðfaranótt miðvikudags, um kl. 5 að morgni í Kabúl, en þá var klukkan 1 eftir miðnætti hér heima. Þær voru með íslenska fánann útprentaðan til að hermenn gætu komið auga á þau í mannmergðinni. Við upplifðum úr fjarlægð ótta, geðshræringu, en líka ótrúlega festu og hugrekki þessara fjölskyldna. Á síðustu stundu var tekin ákvörðun um að koma yngsta barninu í skjól hjá ættmennum, en því stóð lífshætta af troðningnum við hliðið. Það var í raun engin leið gegnum mannþröngina. Við vorum í beinu sambandi við fyrrverandi nemendur okkar allan þennan tíma og sem betur fer hélst símasambandið en við höfðum verið varaðar við því að ekki væri hægt að ganga að því vísu. Loks tókst að staðsetja hópinn með aðstoð íslensks starfsmanns NATO á flugvellinum sem hafði síðan forgöngu um að koma fjölskyldunum inn á sjálft flugvallarsvæðið, en það voru sérsveitarmenn norræns bandalagsríkis Íslands sem náðu í fjölskyldurnar þar sem þær stóðu í u.þ.b. sex til tíu metra fjarlægð frá hliðinu. Þetta hefði aldrei tekist án liðsinnis þessa starfsmanns,“  segir Irma og bætir við að það hafi verið gríðarlegur léttir að vita af fólkinu inni á flugvellinum. „Þögnin áður en þær fréttir bárust var í mínútum talið mun styttri en upplifunin af henni, en það var vitaskuld erfitt að vita af þeim í þessum hrikalegu aðstæðum.“

Daginn eftir var síðan reynt að aðstoða aftur fjölskylduna sem hafði valið að fara aftur heim, „en þá hafði þessi gluggi sem hafði nýst okkur daginn áður lokast. Það var enginn leið að koma þeim að hliðinu og inn á flugvöllinn“ vegna hættu á árásum. Eins og flestum er kunnugt var gerð þar mannskæð sjálfsmorðsárás en það var einum og hálfum sólarhring eftir að nemendur Jafnréttisskólans komust frá landinu. 

Fólki sem vinnur að jafnréttismálum í Afganistan talin mikil hætta búin

Nemendurnir tveir sem komust undan og fjölskyldur þeirra komu svo til landsins frá Kaupmannahöfn á föstudaginn. „Annar nemandinn sem er félagsfræðingur og blaðamaður að mennt vann í ráðuneyti landsbyggðar- og húsnæðismála. Starf hennar fólst í að tala fyrir og skrifa um réttindi kvenna til að eiga land og aðkomu þeirra að skipulagsmálum. Hún starfaði jafnframt sem blaðakona og hafði birt fjölda greina um stöðu kvenna og mikilvægi þess að hlúa að réttindum þeirra. Hin konan er hagfræðingur og starfaði í kvennamálaráðuneytinu áður en hún tók að sér að stýra kynjaðri fjárlagagerð fyrir forsætisráðuneytið. Eiginmaður annarrar konunnar var einnig í hættu vegna starfa sinna fyrir fyrrverandi stjórnvöld.  Báðar unnu lokaverkefni við Jafnréttisskólann  sem þær nýttu sér með beinum hætti í störfum þeirra,“ segir Irma.

Talibanar eru þekktir fyrir stranga túlkun sína á Kóraninum og síðasta valdatíð þeirra í landinu einkenndist af kúgun kvenna þar sem þeim var meinað að mennta sig og starfa á vinnumarkaði. Líf kvenna sem hafa beitt sér fyrir kvenfrelsi, kvenréttindum og jafnrétti er því í mikilli hættu ef Talibanar taka upp fyrri stjórnarhætti. „Þeir hafa gefið í skyn að þeir ætli að viðhafa aðra stjórnhætti núna en síðan berast fréttir af því að kvenkyns nemendum sé vísað frá háskólum. Athafnirnar eru því ekki í samræmi við loforðin. Í landinu er mikill fjöldi kvenna sem hefur starfað að jafnréttismálum hjá hinu opinbera, í ólíkum ráðuneytinum, í frjálsum félagasamtökum, og ýmsum stofnunum. Sumar hafa verið áberandi í fjölmiðlum og sem leiðtogar og aðrar hafa unnið náið með vestrænum ríkjum eða alþjóðastofnunum,“ bendir Irma á.

Hún bætir við að það sama eigi við um karla sem unnið við málaflokkinn. „Tveir karlar sem hafa lokið námi frá Jafnréttisskólanum hafa leitt umfangsmikil verkefni í Afganistan  –  annar er læknir og hinn hjúkrunarfræðingur – en þeir hafa í störfum sínum lagt áherslu á að auðvelda aðgang kvenna að heilbrigðisþjónustu samhliða því að beita sér gegn kynbundnu ofbeldi. Annar er komin í skjól í Bretlandi en hinn er starfandi á landsbyggðinni, langt frá Kabúl.“ 

nemendurgro

Tuttugu nemendur hófu nám í Alþjóðlega jafnréttisskólanum nú í haust og hér eru þau á Austurvelli.

Aljóðlegi jafnréttisskólinn var stofnaður árið 2009 og er rekinn sem þverfagleg námsbraut við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann var hluti af starfsemi Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi en heyrir nú undir nýja stofnun um þróunarsamvinnu sem ber heitið GRÓ Þekkingarmiðstöð um þróunarsamvinnu (International Center for Capacity Development. Stofnunin starfar undir merkjum Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) og er liður í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. 

Kennarar við Alþjóðleg jafnréttisskólann eru háskólakennarar af öllum fræðasviðum HÍ og sérfræðingar frá ólíkum stofnunum og grasrótarsamtökum hér á Íslandi auk erlendra sérfræðinga og fræðimanna. Verndari skólans er frú Vigdís Finnbogadóttir.

Starfsemi Jafnréttisskólans skiptist í þrjá megin áhersluþætti. Í fyrsta lagi nám og þjálfun þar sem markmiðið er að efla færni sérfræðinga á sviði jafnréttismála. Í öðru lagi stendur skólinn fyrir þverfaglegum rannsóknum og verkefnaþróun. Og í þriðja lagi er lögð áhersla á þverþjóðlega miðlun þekkingar, m.a. með skipulagingu ráðstefna, styttri námskeiða, netnmámskeiða og útgáfu.   

Irma Erlingsdóttiur