Skip to main content
24. maí 2024

ERC-styrkhafar við HÍ fá verðlaun fyrir frumkvæði og forystu

ERC-styrkhafar við HÍ fá verðlaun fyrir frumkvæði og forystu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Aðstandendur þeirra rannsóknarverkefna innan Háskóla Íslands sem hlotið hafa veglega styrki frá Evrópska rannsóknaráðinu (European Research Council, ERC) á undanförnum árum hljóta að þessu sinni verðlaun skólans fyrir frumkvæði og forystu. Verðlaunin voru afhent af Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ, á ársfundi skólans núna í morgun. Árangur vísindafólksins sem varð verðlaunað hefur verið afar glæsilegur og í samræmi við þau markmið HÍ að afla stórra rannsóknarstyrkja eins og ERC-styrkja. Með slíkum styrkjum er skotið enn frekari stoðum undir öflugt vísindastarf á Íslandi og í alþjóðlegu samstarfi.

„ERC-styrkirnir eru afar eftirsóttir og aðeins veittir framúrskarandi vísindafólki,“ sagði Jón Atli við verðlaunaafhendinguna í morgun. „Öllum er frjálst að sækja um slíka styrki en krefjandi forval fer fram áður en umsækjendur komast í þrengri hóp. Háskóli Íslands hefur á síðustu árum lagt aukna áherslu á að veita umsækjendum um rannsóknastyrki markvissan stuðning og er árangurshlutfall skólans til marks um að sú vinna sé að skila sér.“

Verðlaunin voru nú afhent í sjötta sinn. Þau eru veitt hópum eða teymum sem þykja hafa sýnt  sérstakt frumkvæði og forystu við uppbyggingu framúrskarandi starfs innan skólans. Handhafar verðlaunanna eru valdir í sameiningu af rektor og forsetum allra fimm fræðasviða Háskóla Íslands.

Hörð samkeppni um ERC-styrkina

Meginmarkmið ERC er að hvetja til hágæðagrunnrannsókna í Evrópu og samkeppni um styrki frá ráðinu er gríðarhörð. Árlega berast þúsundir umsókna en aðeins lítill hluti þeirra fær styrk. Átta vísindamenn sem starfa við eða tengjast Háskóla Íslands, þar af þrír af Heilbrigðisvísindasviði, hafa á undanförnum árum fengið slíka styrki ásamt rannsóknarhópum sínum. Þeir starfa á öllum fimm fræðasviðum Háskóla Íslands.
Verðlaunahafarnir eru:

Anton Karl Ingason
Dósent í íslenskri málfræði og máltækni
ERC-styrkur til að skýra hvernig málnotkun fólks breytist á lífsleiðinni 
Fjáhæð styrks í evrum: 1,5 milljónir

Bernharð Örn Pálsson
Gestaprófessor við HÍ í kerfislíffræði
ERC-styrkur til að stofna rannsóknasetur í kerfislíffræði við HÍ
Fjáhæð styrks í evrum: 2,4 milljónir

David Loc Daniel Reimer
Prófessor í félagsfræði menntunar 
ERC-styrkur til að auka jöfnuð í menntakerfum í ýmsum löndum
Fjáhæð styrks í evrum: 2 milljónir

Jón Emil Guðmundsson
Lektor í stjarneðlisfræði
ERC-styrkur til koma upp háþróaðri tilraunaaðstöðu í HÍ til að hanna örbylgjusjónauka framtíðarinnar
Fjáhæð styrks í evrum: 2 milljónir

Pétur Orri Heiðarsson
Dósent í lífefnafæði
ERC-styrkur: Frá stökum 
lífsameindum til frumuforritunar
Fjárhæð styrks í evrum: 1,5 milljónir

Sigurður Yngvi Kristinsson
Prófessor í blóðsjúkdómafræði
Tveir ERC-styrkir vegna verkefnisins Blóðskimun til bjargar – Þjóðarátak gegn mergæxlum
Fjáhæð styrkja í evrum: 2 milljónir og 1,5 milljónir

Unnur Anna Valdimarsdóttir
Prófessor í faraldsfræði
ERC-styrkur til að rannsaka áhrif áfalla á heilsufar 
Fjáhæð styrks í evrum: 2 milljónir 

Þórhallur Magnússon
Rannsóknaprófessor í í tilraunakenndum hugvísindum
ERC-styrkur fyrir snjallhljóðfæri: Að skilja gervigreind 21. aldar gegnum skapandi tónlistartækni 
Fjárhæð styrks í evrum: 2 milljónir

ERC-styrkhafar við Háskóla Íslands hlutu verðlaun skólans fyrir frumkvæði og forystu. Verðlaunin voru afhent í sjötta sinn í dag. MYND/Kristinn Ingvarsson