Skip to main content
23. nóvember 2021

Egils saga í franskri þýðingu Torfa H. Tulinius

Egils saga í franskri þýðingu Torfa H. Tulinius - á vefsíðu Háskóla Íslands

Egils saga var nýverið verið gefin út í Frakklandi í franskri þýðingu Torfa H. Tulinius, prófessors við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Sagan var síðast gefin út í franskri þýðingu í safnriti árið 1987 en kemur nú í fyrsta skipti út ein og sér.

Torfi hefur lengi fengist við Egils sögu í rannsóknum og ritaði m.a. bókina Skáldið í skriftinni. Snorri Sturluson og Egils saga, sem Hið íslenska bókmenntafélag gaf út. Aðspurður segir hann að bókin sé ekki aðeins merkileg í bókmennta- og menningarsögulegu samhengi, heldur því sammannlega og Torfi vonast til að útgáfan veiti Frökkum tækifæri til að hrífast af sögunni og skynja snilld höfundar hennar. Eldri þýðingar hafi ekki orðið til þess að sagan fengi þá athygli í hinum frönskumælandi heimi sem hún ætti skilið og þess vegna hafi hann ekki staðist freistinguna þegar honum hafi boðist að þýða hana og gefa út í aðgengilegri vasabrotsútgáfu sem tryggi dreifingu í öllum betri bókabúðum Frakklands.

Torfi H. Tulinius dvelur um þessar mundir í París í Frakklandi þar sem hann flytur opinbera gestafyrirlestra um rannsóknir á fornsögum við Collège de France í París, einn virtasta rannsóknaskóla Frakklands. Hann segir góða frönskukunnáttu og þekkingu sína á sögunni hafa auðveldað sér þýðinguna á Egils sögu en hann vildi tryggja að stíllinn væri lipur og skýr og rynni inn í hug og hjörtu franskra lesenda. Því hafi hann fengið til liðs við sig franskan fyrrverandi nemenda sinn í alþjóðlega meistaranáminu í íslenskum miðaldafræðum, Palomu Desoille. Hún hafi verið sér innan handar við að tryggja læsileika textans. En glímurnar voru fleiri, það  var t.d. ekki áreynslulaust að koma dróttkvæðum vísum og löngum kvæðum Egils yfir á frönsku: „Vegna þessa erfiða forms eru þau torskilin fyrir íslenska nútímalesendur. Að skilja heiti og kenningar er ekki allra. Auk þess þarf að taka vísurnar saman. Eldri þýðingin hafði reynt að þýða kenningarnar í vísunum og er því ennþá erfiðara að skilja þær á frönsku en forníslensku. Ég valdi að einfalda formið, einangra hið skáldlega í hverri vísu og koma því til skila í þýðingunni. Kveðskapur Egils er því aðgengilegri í þýðingu minni en á frummálinu. Lesendur verða svo að dæma um það hvort þetta hafi verið viturleg ákvörðun.“

Beðinn um að lýsa Egils sögu í fáum orðum segir Torfi að þetta sé Íslendingasaga frá 13. öld sem segi frá skáldinu Agli Skalla-Grímssyni sem uppi var á þeirri tíundu og nokkrum ættmennum hans. „Hún segir á skilmerkilegan og áhrifaríkan hátt frá tildrögum þess að Skalla-Grímur nemur land í Borgarfirði, en ættmönnum hans hafði farnast illa í samskiptum við Harald hárfagra Noregskonung. Aðalpersóna sögunnar er Egill, sonur Skalla-Gríms, margslungin persóna: skáld en líka bardagamaður, ágjarn og ófyrirleitinn um leið og hann túlkar djúpstæðar tilfinningar í kveðskap sínum. Egils saga er án efa eitt af meistaraverkum íslenskra miðaldabókmennta.“

Torfi H. Tulinius las Egils sögu nýverið á Rás 1 og geta áhugasamir hlýtt á upplesturinn á ruv.is.

Egils saga var nýverið verið gefin út í Frakklandi í franskri þýðingu Torfa H. Tulinius, prófessors við Íslensku- og menningardeild HÍ.