Skip to main content
10. nóvember 2023

Edda hlýtur Hönnunarverðlaun Íslands

Edda hlýtur Hönnunarverðlaun Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Edda, nýtt hús íslenskunnar eftir Hornsteina arkitekta, hlýtur Hönnunarverðlaun Íslands sem staður ársins, en verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Grósku í gær. Edda hlýtur verðlaunin fyrir að vera einkennandi og áhrifamikil bygging sem sameinar varðveislu og aðgengi almennings að íslenskum menningarverðmætum til framtíðar.

Hönnunarverðlaunum Íslands er ætlað að beina sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning. Verðlaunin voru veitt í tíunda sinn í ár og í tilefni af því var verðlaunaflokkum fjölgað í þrjá undir heitunum Verk // Staður // Vara.

Til greina í flokknum Staður koma framúrskarandi hönnuð verkefni sem eiga sér sinn stað í rúmi, hvort sem það eru byggingar, hverfi, torg, garðar eða áningarstaðir. Edda var tilefnd sem eitt þriggja verka í flokknum og hlaut sem fyrr segir verðlaunin sem eru hvort tveggja heiðurs- og peningaverðlaun.

Í rökstuðningi dómnefndar segir að Edda sé einkennandi og áhrifamikil bygging. „Vandað er til verka af fagmennsku, listfengi og hugað að hverju smáatriði að innan sem utan. Sporöskjulaga formið og einstök áferð hið ytra gefur til kynna dýrmætt innihald. Byggingin stendur í grunnri spegiltjörn og að utan er hún klædd koparhjúp með stílfærðum afritum texta úr handritum, sem í senn skreytir veggina og vekur forvitni um það sem býr innan þeirra. Edda er bjart og opið hús þar sem fallegir inngarðar gefa innri rýmum andrúm og birtu.

Edda skapar alveg nýja umgjörð um íslenskan þjóðararf, byggingin myndar sterkt kennileiti sem fellur vel að umhverfi. Vinnuumhverfi innanhúss er vel útfært, bjart, vistvænt og þjónar fjölþættri starfsemi. Hornsteinum arkitektum hefur tekist að skapa einkennandi og áhrifamikla byggingu sem hæfir viðfangsefninu í formi og haganleik.“

Þá er bent á að Edda sé lykilbygging sem geymi handrit Íslendinga, merkustu menningarverðmæti þjóðarinnar. „Í húsinu er starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands sameinuð ásamt því að varðveisla og aðgengi almennings að íslenskum menningarverðmætum er tryggð til langrar framtíðar.“

Hornsteinar arkitektar hönnuðu húsið en fyrirtækið varð hlutskarpast í samkeppni sem haldin var árið 2008 um byggingu fyrir þá nýstofnaða Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Húsið var vígt síðasta vetrardag fyrr á þessu ári um leið og nafn þess, Edda, var afhjúpað.

Hönnunarverðlaun Íslands eru unnin af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Samtök iðnaðarins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Grósku.

Nánar á vef Miðstöðvart hönnunar og arkitektúrs

Edda