Skip to main content
22. desember 2021

Djúpt snortnar af heimsókn á Suðurskautslandið

Djúpt snortnar af heimsókn á Suðurskautslandið - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hvað eiga þær Hafdís Hanna Ægisdóttir, doktor í plöntuvistfræði og forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands, og Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor og doktor í alþjóðastjórnmálafræði við skólann sameiginlegt? Jú, þær eru í þeim fámenna hópi Íslendinga sem hafa heimsótt Suðurskautslandið, einu heimsálfuna sem segja má að sé óbyggð. Hafdís Hanna og Silja Bára segja frá ferðunum í máli og myndum í nýjasta hefti Skírnis, tímariti Hins íslenska bókmenntafélags, en þær heimsóttu álfuna hvor í sínu lagi í upphafi og lok árs 2019. Í greininni flétta þær saman ferðasögur og sína ólíku fræðilegu sýn á þetta risastóra landssvæði sem flestum ókunnugt en fer hvorki varhluta af loftslagsbreytingum né átökum á alþjóðavettvangi.

Tilgangur ferða þeirra Silju Báru og Hafdísar Hönnu var ólíkur. Hafdís Hanna var hluti af 80 kvenna hópi sem tók þátt í alþjóðlegu leiðtoganámskeiði sem nefnist Homeward Bound en það miðar að því að þjálfa vísindakonur í leiðtogahæfni, stefnumótun og vísindamiðlum. Silja Bára heimsótti heimsálfuna í hópi 160 ferðmanna en hún hefur lengi haft það markmið að heimsækja allar heimsálfurnar sjö og hefur nú náð því takmarki.

skip

Hafdís Hanna var hluti af 80 kvenna hópi sem tók þátt í alþjóðlegu leiðtoganámskeiði sem nefnist Homeward Bound.

„Ég er á leið í ævintýri lífs míns, yfir hið úfna Drake-sund til Suðurskautslandsins — heimsálfunnar sem hefur verið draumur minn að heimsækja síðan ég var lítil stúlka,“ segir Hafdís Hanna m.a. í greininni um ferð sína í upphafi árs 2019, en áhugi hennar á umhverfis- og loftslagsmálum varð kveikjan að þátttöku hennar í Homeward Bound. Silja Bára sigldi yfir hið hættulega sund ellefu mánuðum síðar og dvaldist á Suðurskautslandinu yfir jólahátíðina 2019 en þá er einmitt sumar á suðurhveli jarðar. „Ég hafði þó ekki eingöngu áhuga á að komast til Suðurskautslandsins heldur finnst mér það einstaklega áhugavert í fræðilegu samhengi, þetta landsvæði sem ríki heims hafa nálgast á annan hátt en öll önnur í heiminum,“ segir Silja Bára m.a. í ferðasögu sinni.

Konum haldið utan sögu Suðurskautslandsins

Heimildir benda til þess að menn hafi fyrst stigið fæti á Suðurskautslandið fyrir réttum 200 árum en útskurðir gefa þó einnig vísbendingar um um að pólynesískir sæfarar hafi litið landið augum á 7. öld. Karlar eru áberandi í landnámssögu Suðurskautskandsins og þær Hafdís Hanna og Silja Bára benda á að konum hafi í raun verið haldið utan sögu þess þrátt fyrir að elstu mannabein sem fundist hafi á svæðinu séu af konu. „Við segjum þessa sögu til að draga fram að konur höfðu snemma áhuga á að taka þátt í leiðöngrum til Suðurskautslandsins þótt það hafi fyrst og fremst verið karlar sem tókst að komast þangað,“ segja þær meðal annars í greininni í Skírni.

ís

Silja Bára og Hafdís Hanna heimsóttu Suðurskautslandið að sumarlagi en þar ríkir snjórinn allt árið um kring.

Heimsálfan heillar vísindamenn úr ýmsum greinum og þar eru Hafdís Hanna og Silja Bára engar undantekningar. Þær benda á að 16 ríki séu með rannsóknastöðvar í álfunni þar sem áherslan er ekki síst á lífríkið. „Meðal þeirra landa sem eru með rannsóknarstöð á eyju Georgs konungs eru Kína og Argentína og þær fengum við að heimsækja. Vísindafólkið veitti okkur dýrmæta innsýn í líf sitt og störf við erfiðar aðstæður á hjara veraldar,“ segir Hafdís Hanna.

Óvíst hvernig pólitískt umhverfi álfunnar þróast á næstu árum

Suðurskautslandið er viðfangsefni alþjóðastjórnmálafræðinga, ekki síst hinn einstaki Suðurskautssamningur, sem var gerður árið 1961 og kveður m.a. á um að ríki geti ekki eignað sér landssvæði í álfunni. „Markmið höfunda samningsins var að tryggja að Suðurskautslandið yrði aldrei vettvangur eða viðfangsefni átaka í heiminum og að álfan yrði eingöngu nýtt í friðsamlegum tilgangi,“ benda þær á í greininni.

selir

Dýralíf er afar fjölskrúðugt við Suðurskautslandið, ekki síst á sumrin.

Samningurinn kveður einnig á um að aðeins megi stunda rannsóknir á jarðefnum á svæðinu, ekki nýta þau. Benda þær á að ef slíka klausu væri ekki að finna í samningnum væri ástæða til að óttast að ríki heims myndu ásælast mögulegar auðlindir á svæðinu. „Þótt þetta sé ekki endilega líkleg útkoma (Press og Jackson 2021) er ljóst að möguleikinn er til staðar og að hrikt gæti í stoðum samningsins fyrr en varir, enda alls óvíst hvernig náttúrulegt og pólitískt umhverfi Suðurskautslandsins þróast á næstu árum og áratugum.“

Í heiminum finnast  18 tegundir af mörgæsum og er um helmingur þeirra í hættu og það má ekki síst rekja til gjörða mannsins. „Þeim stafar hætta af loftslagsbreytingum, mengun, sjúkdómum og minna fæðuframboði. Nýleg rannsókn bendir til dæmis til þess að áta í sjónum við Suðurskautslandið sé í hættu vegna samspils loftslagsbreytinga og fiskveiða,“ benda þær Hafdís Hanna og Silja Bára á í greininni.

Hryggleysingjar algengastir á Suðurskautslandinu

Lífríkið er heimavöllur Hafdísar Hönnu en það er afar fjölbreytt á þessu afskekkta svæði, ekki síst dýraríkið yfir sumartímann. Þar verpa yfir 100 milljónir fugla á hverju vori og sjávarspendýr nærast þar á átu og fiski í sjónum á sama tíma. „Tegundaríkasti hópur dýra á og við Suðurskautslandið er þó hvorki fuglar né sjávarspendýr heldur hryggleysingjar á landi, ýmiss konar skordýr og ormar sem una hag sínum vel í kuldanum,“ benda þær á í greininni og kann það að koma mörgum á óvart. Þá finnast þar tvær plöntutegundir sem eins og gefur að skilja eru afar harðgerar „og meðal fárra lífvera Suðurskautslandsins sem geta lifað af heimskautaveturinn. Til að mynda eru flest sjávarspendýr og mörgæsir (fyrir utan keisaramörgæsina) aðeins sumargestir þar.“

Mörgæsir

Flestar mörgæsategundir eru aðeins sumargestir á Suðurskautslandinu.

Síðastnefndu lífverurnar, mörgæsir, eru líklega þau dýr sem flestir tengja Suðurskautslandinu. Þessi tignarlegu dýr og ýmis fleiri urðu á vegi bæði Hafdísar Hönnu og Silju Báru á ferðalagi þeirra.  Í heiminum finnast  18 tegundir af mörgæsum og er um helmingur þeirra í hættu og það má ekki síst rekja til gjörða mannsins. „Þeim stafar hætta af loftslagsbreytingum, mengun, sjúkdómum og minna fæðuframboði. Nýleg rannsókn bendir til dæmis til þess að áta í sjónum við Suðurskautslandið sé í hættu vegna samspils loftslagsbreytinga og fiskveiða,“ segja þær Silja Bára og Hafdís Hanna í greininni í Skírni. 

Áþreifanlega varar við áhrif loftslagsbreytinga

Loftslagsbreytingar láta engan heimshluta ósnortinn og þess urðu þær Silja Bára og Hafdís Hanna áþreifanlega varar. „Meira var af nýföllnum snjó en í venjulegu árferði en aukin snjókoma við ströndina getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir mörgæsir á miðju varptímabili. Hafís hafði einnig áhrif á leiðangur okkar og hamlaði för til nokkurra áfangastaða en ólíkt því sem ætla mætti veldur hækkað hitastig á Suðurskautsskaganum einnig meiri hafís. Þegar Suðurskautsjökullinn bráðnar rennur meira ferskvatn til sjávar og dregur úr seltu hans, sér í lagi nærri landi. Það veldur því að sjórinn frýs við hærra hitastig og líkur á hafís aukast. Þannig fengum við að kynnast áhrifum loftslagsbreytinga á Suðurskautslandið í beinni útsendingu,“ segja þær stöllur og benda á að því hafi verið spáð að íslaus svæði í heimsálfunni muni stækka um allt að fjórðung fram til næstu aldamóta. „Jakarnir sem brotna af Suðurskautslandinu verða æ stærri og geta ógnað lífríki víða á svæðinu.“

hafís

Báðar segja þær ferðirnar hafa verið stórkostlegar og þær djúpt snortnar af heimsókinni. „Landslagið og lífríkið, svo og ferð til Suðurskautslandsins, er áminning um áhrif mannkyns á þetta viðkvæma svæði sem hefur aðeins verið þekkt á Vesturlöndum í 200 ár — loftslagsbreytingar ógna tilvist margra dýrategunda og bráðnun íssins setur jafnvægi sjávar úr skorðum og hækkar yfirborð hans. Um leið er alþjóðasamvinna, sem hefur varið Suðurskautslandið fyrir samkeppni og átökum, í hættu,“ benda þær á í greininni. 

hafis

„Ferðalagið til Suðurskautslandsins var ekki bara ferð til fjarlægrar heimsálfu heldur fékk það okkur einnig til að hugsa um nútíðina og framtíðina í breyttum heimi mannaldar. Stærsti lærdómur ferðanna var sá hversu mikilvæg samvinna er til að ná árangri, hvort heldur til að vernda Suðurskautslandið, halda frið eða til að takast á við loftslagsvána og aðrar knýjandi umhverfisbreytingar.“

Hægt er að nálgast greinina í heild sinni í nýjasta hefti Skírnis (195., haust) í helstu bókaverslunum og hér er hægt að gerast áskrifandi að tímaritinu.

Silja Bára Ómarsdóttir og Hafdís Hanna Ægisdóttir á Suðurskautslandinu