Brautskráð frá Háskóla Íslands í tveimur athöfnum í Laugardalshöll | Háskóli Íslands Skip to main content
15. júní 2020

Brautskráð frá Háskóla Íslands í tveimur athöfnum í Laugardalshöll

""

Brautskráning Háskóla Íslands fer fram í Laugardalshöll laugardaginn 27. júní og verður henni skipt í tvær athafnir líkt og undanfarin ár en þó með öðru sniði en verið hefur. Einungis kandídatar, sem taka á móti brautskráningarskírteinum sínum, verða við athöfnina.

Á fyrri brautskráningarathöfninni, sem hefst kl. 10, fá kandídatar í grunn- og framhaldsnámi frá Heilbrigðisvísindasviði og Verkfræði- og náttúruvísindasviði útskriftarskírteini sín.

Seinni athöfnina, sem hefst kl. 13.30, sækja kandídatar í grunn- og framhaldsnámi frá Félagsvísindasviði, Hugvísindasviði og Menntavísindasviði.

Áhersla verður lögð á að athöfnin sé örugg m.t.t. sóttvarna og var hún skipulögð í samráði við sóttvarnayfirvöld. Þannig verður höllinni skipt í tvö svæði, merkt A og B, og verður kandídötum deilt á þau svæði á athöfnunum. Enn fremur verður boðið upp á sérstakt svæði með tveimur metrum á milli sæta fyrir þau sem vilja en kandídatar þurfa að tilkynna það ef þeir hyggjast nýta það svæði.

Starfsfólk Háskólans verður á staðnum á brautskráningunni og  leiðbeinir kandídötum um sætaskipan.

Engir gestir verða viðstaddir athafnirnar en beint streymi verður fyrir aðstandendur kandídata og önnur áhugasöm.

Kandídatar hafa fengið send rafræn bréf um með upplýsingum um athöfnina og eru þeir vinsamlega beðnir um að tilkynna það skrifstofu deildar sinnar fyrir kl. 15.00 mánudaginn 22. júní ef þeir hafa ekki tök á að vera viðstaddir brautskráninguna.

Frá brautskráningu í Laugardalshöll