Bjuggu til alíslenska pítsu | Háskóli Íslands Skip to main content

Bjuggu til alíslenska pítsu

31. júlí 2018

Pítsa úr alíslensku hráefni er meðal afraksturs KONNECT-verkefnisins svokallaða sem Stofnun Sæmundar fróða við Háskóla Íslands og Listaháskóli Íslands höfðu forystu um og byggðist á samstarfi norrænna nema og fræðimanna í vísindum og listum.

KONNECT-verkefninu var ýtt úr vör árið 2014 með styrk frá Norrænu ráðherranefndinni. Markmið þess var að auka skilning almennings á hinum miklu umhverfisvandamálum sem blasa við um allan heim og munu hafa mjög alvarlegar afleiðingar ef ekkert verður að gert. Í því skyni efnt til samvinnu um sjálfbærni milli listaháskóla og ungra listmanna og nemenda og framúrskarandi vísindamanna á sviði umhverfis og sjálfbærni og komu þátttakanedur víða af Norðurlöndum.

Verkefnið fólst m.a. í vinnusmiðjum hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum þar sem farið var yfir mikilvæg vandamál á sviði umhverfismála. Nemendur sem tóku þátt í verkefninu gátu svo sett fram hugmyndir að listaverkum til þess að vekja athygli á einhverjum þáttum umhverfisvandans. Af hálfu Háskóla Íslands tóku fulltrúar Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands og nemendur í umhverfis- og auðlindafræði þátt í verkefninu sem leiddi af sér ýmsa forvitnilega sprota.

Einn þeirra er Flatbökusamsteypan en að því komu nemendur í listnámi, hönnun og umhverfisfræðum. Markmið þeirra var að búa til pítsu úr alíslensku hráfefni og vekja þannig fólk til umhugsunar um mikilvægi þess að velja staðbundna framleiðslu umfram aðflutta til að vinna gegn mengun og auknu vistspori hér á landi. Í öflugu samstarfi við matvælaframleiðendur og bændur hér á landi bjó hópurinn til pítsu sem m.a. er búin til úr íslensku hveiti. Hópurinn hefur kynnt hugmyndina á síðustu mánuðum og misserum og m.a. boðið gestum að smakka á pítsunni á Hönnunarmars og Umhverfishátíð Norræna hússins á þessu ári.

Hópurinn vann jafnframt heimildarmynd um verkefnið og er hægt að horfa á hana og fræðast frekar um verkefnið á vef Flatbökusamsteypunnar og Facebook-síðu hennar.

Bændablaðið fjallaði enn fremur ítarlega um verkefnið fyrr í sumar.

Flatbökusamsteypan

Netspjall