Ávarp rektors við brautskráningu kandídata í Laugardalshöll  | Háskóli Íslands Skip to main content

Ávarp rektors við brautskráningu kandídata í Laugardalshöll 

23. júní 2018
""

Hér á eftir fylgir ávarp Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, við brautskráningu kandídata í Laugardalshöll 23. júní 2018.

Aðstoðarrektor, forsetar fræðasviða, deildarforsetar, starfsfólk Háskóla Íslands, góðir gestir. 

Kæru kandídatar, fyrir hönd Háskóla Íslands óska ég ykkur öllum og fjölskyldum ykkar innilega til hamingju með daginn. Það eru forréttindi og einstakt gleðiefni að fá að ávarpa ykkur á þessari uppskeruhátíð. Þið hafið náð árangri sem sannarlega er eftirtektarverður og gefur tilefni til að fagna. Sigurinn sem þið hafið unnið, og staðfestur er með prófskírteinum þeim sem þið takið við hér á eftir, markar tímamót í lífi ykkar. Hann opnar ykkur leið að nýjum störfum, gefur ykkur tækifæri til að dýpka skilning ykkar á heiminum og margbreytileika samfélagsins og er um leið grunnur að áframhaldandi námi og þroskagöngu sem lýkur ekki á meðan við drögum lífsandann.

Kæru kandídatar. Gleymum því aldrei að þekking er undirstaða blómlegs samfélags og Háskóli Íslands er skóli atvinnulífs framtíðarinnar. 

„Enginn maður er eyland, enginn stendur einn. Þegar ég hjálpa náunga mínum, sái ég fræjum vináttu sem aldrei deyr.“ Svona söng bandaríska söngkonan Joan Baez um mikilvægi vináttunnar og samstöðunnar. Þegar fyrrum nemendur Háskóla Íslands eru spurðir hvers þeir minnast einkum frá háskólaárum sínum, nefna þeir gjarnan vináttuböndin og tengslin sem mynduðust á námsárunum og þeir hafa notið góðs af allar götur síðan. Slík vináttubönd verða ekki aðeins til á meðal samnemenda heldur einnig á milli nemenda, kennara og annars starfsfólks. Þær tugþúsundir háskólanema sem brautskrást hafa frá Háskóla Íslands mynda öflugt og sívaxandi tengslanet sem alið hefur af sér óteljandi nýjar hugmyndir, nýsköpunarfyrirtæki og samstarfsverkefni á öllum sviðum þjóðlífs á Íslandi og víðar. Með virku neti Háskólavina viljum við rækta áfram sambandið við ykkur, kæru kandídatar, um ókomin ár og styrkja samstöðumátt okkar enn frekar.

Góðir kandídatar. Ég vona svo sannarlega að þið hafið notið áranna í Háskóla Íslands þótt námið hafi auðvitað ekki verið eintóm skemmtiför. Háskólanám er krefjandi, hindranirnar á menntaveginum ófáar og ytri aðstæður stundum óhagstæðar.

Við höfum reyndar haft frekar takmarkaða vitneskju um aðstæður háskólanema á Íslandi í alþjóðlegum samanburði. Á þessu varð breyting nú í vor þegar mennta- og menningarmálaráðuneytið kynnti niðurstöður viðamikillar evrópskrar samanburðarkönnunar, Eurostudent, á félagslegum og efnahagslegum högum háskólanema, sem Ísland tók nú í fyrsta sinn þátt í. 

Niðurstöður könnunarinnar gefa okkur tilefni til að fagna því sem vel er gert um leið og þær vekja okkur til umhugsunar. Til dæmis kemur fram að íslenskir háskólanemar eru almennt mjög ánægðir með námsaðstæður sínar, skipulag námsins og gæði kennslunnar. Flestir þeirra segjast myndu mæla með núverandi námi sínu. Aðspurðir segja íslenskir háskólanemar einnig að kennarar þeirra veiti þeim innblástur og sé umhugað um framgang þeirra.

Könnunin veitir einnig dýrmætar upplýsingar um efnahagslegar og félagslegar aðstæður íslenskra háskólanema. Til dæmis vinna íslenskir háskólanemar meira en samnemendur þeirra í Evrópu. Þeir virðast líka leggja harðar að sér í náminu. Þá eru þeir almennt eldri, eiga fleiri börn og eru líklegri til að vera í sambúð. Þannig einkennir það efnahagslegar og félagslegar aðstæður íslenskra háskólanema að þeir takast snemma á við áskoranir í fjölskyldu- og atvinnulífi sem aðrir evrópskir nemendur geyma frekar þar til að námi loknu. Íslenskir háskólanemar hafa líka meiri fjárhagsáhyggjur og njóta síður opinbers stuðnings í námi í formi lána eða styrkja. Ein helsta ályktunin sem við hljótum að draga af þessari viðamiklu könnun er sú að styðja þurfi betur við íslenska námsmenn því það er mikilvægt að þeir helgi sig náminu af fullum krafti.

Góðir gestir, á undanförnum árum höfum við leitast við að stækka samstarfsnet Háskóla Íslands með því að styrkja stöðu skólans á alþjóðlegum vettvangi og fjölga með því tækifærum nemenda og starfsfólks. Hér hefur allt starfsfólk Háskólans og fjölmargir nemendur lagt hönd á plóg. Nú er svo komið að Háskóli Íslands er í hópi þeirra tveggja prósenta háskóla sem hæst eru metnir á heimsvísu og fjölmargar einstakar fræðigreinar og deildir skólans raðast jafnvel enn ofar í alþjóðlegum samanburði. Þetta er fjarri því að vera sjálfsagt og raunar hreint ótrúlegur árangur. Til að skilja þýðingu þess að komast í þessa úrvalsdeild háskóla í heiminum er nærtækt að líta til íslenska landsliðsins í knattspyrnu sem þessa dagana stendur í ströngu á lokamóti HM í Rússlandi. Undraverður árangur strákanna og stelpnanna okkar á undanförnum árum hefur vakið verðskuldaða athygli á íslensku íþróttalífi um víða veröld og opnað ótal tækifæri á erlendri grundu. Íslensk íþróttahreyfing mun án efa njóta góðs af þessum fáheyrðu íþróttaafrekum um ókomin ár. 

Á sambærilegan hátt hefur sterk staða Háskóla Íslands vakið athygli á alþjóðlegum vettvangi og fjölmörg tækifæri til rannsóknasamstarfs og nemendaskipta við erlenda háskóla hafa opnast nánast daglega á síðustu árum. Gott orðspor Háskóla Íslands er mikilvægt, kæru kandídatar, og tryggir að prófgráðan ykkar nýtur virðingar. Erlendir nemendur sækja líka í auknum mæli eftir að nema við Háskóla Íslands. Þá hefur Háskólinn orðið eftirsóttur samstarfsaðili á sviði kennslu og má í því sambandi nefna þátttöku skólans í edX-samstarfinu um opin netnámskeið sem bandarísku háskólarnir MIT og Harvard efndu til og þátttöku í Aurora-samstarfsneti nokkurra valinna evrópskra háskóla í allra fremstu röð. Nemendur Háskóla Íslands hafa fengið sífellt fleiri tækifæri til að taka hluta af námi sínu við virtustu háskóla vestan hafs og austan og eru duglegir við að nýta sér það hnattræna tengslanet sem Háskólinn hefur byggt upp til að auðvelda nemendum sínum að fá nám erlendis metið til eininga við skólann. Það er sérlega ánægjulegt að segja frá því að fyrir fáeinum dögum hitti ég þrjá hópa nemenda Háskóla Íslands sem senn munu halda til tímabundins náms við úrvalsháskólana Stanford, Columbia og Caltech í Bandaríkjunum. Þetta væri ekki mögulegt nema vegna þess orðspors sem Háskóli Íslands hefur áunnið sér.

Góðir kandídatar, prófskírteinið sem þið veitið viðtöku hér í dag er dýrmæt viðurkenning sem þið hafið sannarlega til unnið. Rannsóknir sýna að háskólagráða er ein besta fjárfesting einstaklings á lífsleiðinni, en gildi hennar birtist ekki síður í því að þeir sem lokið hafa háskólanámi telja sig almennt búa við meiri starfsánægju, betri heilsu, meiri hamingju og eru líklegri til að vera virkir borgarar í lýðræðissamfélagi en almennt gengur og gerist. Sé horft til þeirra ævintýralegu tæknibreytinga og flóknu áskorana sem framundan eru og krefjast nýrra og þverfræðilegra lausna, sést að aldrei áður hefur verið jafn brýn þörf fyrir fólk með fjölbreytta háskólamenntun og einmitt nú. Við skulum hafa þetta í huga þegar rætt er um takmarkanir á aðgengi að háskólanámi og þeirri spurningu er velt upp hvort of margir einstaklingar úr hverjum árgangi ljúki háskólanámi. Sterk rök hníga að því að okkar fámenna þjóð megi engan missa þegar kemur að nýtingu hugvits og mannauðs. Mikilvægt er að ungt fólk hér á landi, karlar til jafns við konur, fái tækifæri til að stunda háskólanám og að börn innflytjenda séu ekki afskipt þegar kemur að háskólamenntun. Hafa verður í huga að í okkar litla samfélagi eru nú vel yfir tíu prósent þjóðarinnar af erlendu bergi brotnir en hlutfallsleg þátttaka þeirra í háskólanámi er mun minni.

Við lifum á tímum örra breytinga sem fela í sér ótal spennandi tækifæri fyrir ungt fólk. Háskólar eru aflvakar breytinga í atvinnu- og þjóðlífi. Flestar tækninýjungar og uppgötvanir sem kollvarpað hafa lífsháttum okkar eiga með einum eða öðrum hætti rætur að rekja til háskólanna. Til þeirra má einnig rekja nýja strauma og stefnur í heimspeki, bókmenntum, hagfræði og stjórnmálum sem gerbylt hafa hugmyndum okkar um einstaklinginn og samfélagið. En það er raunveruleg hætta á okkar tímum að í umróti breytinganna skoli öllu burt, jafnt góðu sem illu. Við slíkar aðstæður örvæntir fólk um hin varanlegu verðmæti sem gefa lífinu gildi, heilindi, sanngirni, frelsi og virðingu fyrir sannleikanum. Við erum minnt með óþægilegum hætti á þessi gildi þegar við stöndum frammi fyrir spillingunni sem sett getur mark sitt á vísindi og fræði ekki síður en önnur svið mannlífsins. Við þurfum að verja þessi gildi í öllum okkar störfum, þau eru ekki sjálfgefin og spretta ekki upp af sjálfum sér. Hér er ábyrgð Háskóla Íslands mikil, en einnig ykkar, kandídatar góðir. Við megum aldrei láta kappið bera fegurðina ofurliði, eins og séra Friðrik Friðriksson sagði. Við verðum að rækta með okkur hugarfar sem hefur óbeit á siðspillingu og eflir gagnrýna hugsun. Í nýlegri yfirlýsingu evrópskra menntamálaráðherra er vikið sérstaklega að þessu og lögð áhersla á að hlúa að akademísku frelsi og heilindum, verja sjálfstæði háskólanna, tryggja virka þátttöku nemenda og stuðla að samfélagslegri ábyrgð og jafnrétti.

Þetta er verkefni menntakerfisins alls og ástæða þess að við þurfum að leita allra leiða til að auka vegsemd og virðingu kennarastarfsins á Íslandi á öllum skólastigum, frá leikskóla til háskóla. Kennararnir okkar miðla ekki aðeins fróðleik og færni heldur einnig og ekki síður dygðum og göfugri, mannbætandi lífssýn. Þetta er og á að vera menntahugsjón kennara við Háskóla Íslands.

Kæru kandídatar. Í dag er tími til að fagna. Ég vona af heilum hug að þið njótið stundarinnar með öllum þeim sem hafa stutt ykkur á vegferðinni að þessu marki. Við starfsfólk Háskóla Íslands erum þakklát fyrir samfylgdina og samstarfið og kveðjum ykkur með stolti, í fullri vissu um að við fáum áfram tækifæri til að rækta tengslin við ykkur á komandi árum. Þið eruð framverðirnir í sístækkandi sveit Háskólavina. 

Innilega til hamingju með árangurinn. Framtíðin er ykkar. 

rektor í púlti

Netspjall