Skip to main content
15. desember 2015

Andstæðingar sammála um sanngirni stjórnmálakerfisins

Íslenskir kjósendur sem hafa allháa öryggisþörf og staðsetja sig lengst til vinstri og hægri í pólitík eru líklegri heldur en aðrir til þess að telja stjórnmálakerfið sanngjarnt. Þetta sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar Huldu Þórisdóttur, lektors við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, og Evu Heiðu Önnudóttur, nýdoktors við sömu deild, en greint er frá henni í nýjasta hefti tímaritsins Stjórnmála og stjórnsýslu. Hulda og Eva kynna niðurstöður rannsóknarinnar í afmælis- og útgáfuboði tímaritsins fimmtudaginn 17. desember en það fagnar nú tíu ára afmæli.

Fyrsta tölublað tímaritsins Stjórnmála og stjórnsýslu leit dagsins ljós 15. desember 2005. Síðan þá hafa vel á fjórða hundrað greinar birst í ritinu, m.a. niðurstöður rannsókna innan stjórnmálafræði og fleiri greina félagsvísinda. Í nýjasta hefti Stjórnmála og stjórnsýslu kennir ýmissa grasa, þar á meðal er grein um rannsókn Huldu og Evu sem ber yfirskriftina „Viðhorf til stjórnkerfisins og þörf fyrir öryggi meðal fólks á pólitíska jaðrinum“ (e. Need for security and system fairness on the political extremes). 

„Ég hef lengi verið forvitin um þankagang fólks sem hefur mjög sterkar stjórnmálaskoðanir og hikar ekki við að skilgreina eigin skoðanir sem allra lengst til hægri eða vinstri. Þó að fólk á öndverðum meiði í stjórnmálum virðist við fyrstu sýn ekki eiga margt sameiginlegt þá sýna nýlegar rannsóknir í stjórnmálasálfræði að ýmislegt bendir til þess að afstaða þeirra til ákveðinna þekkingafræðilegra og tilvistarlegra þátta geti verið svipuð. Ég er hér einkum að tala um þörf fyrir vissu og öryggi,“ segir Hulda aðspurð um kveikjuna að rannsókninni. Hún er hluti af Valds- og lýðræðisrannsókninni, þverfræðilegu rannsóknarverkefni innan Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands þar sem athyglinni er beint að megingerendum í valds- og lýðræðiskerfum íslensks samfélags.

Í rannsókninni, sem byggist á íslenskum gögnum úr European Social Survey, er metið hvort fólk á öndverðum meiði í pólitík deili þessum tilteknu sálfræðilegu þáttum. „Niðurstöðurnar sýna að íslenskir kjósendur sem hafa allháa öryggisþörf og staðsetja sig lengst til vinstri og hægri í pólitík eru líklegri til þess að telja stjórnmálakerfið sanngjarnt heldur en aðrir. Raunar var einnig nauðsynlegt skilyrði að þessir kjósendur væru ekki afhuga kerfinu með öllu, t.d. anarkistar, heldur hefðu lágmarks pólitískt traust,“ útskýrir Hulda. Hún bætir við að ástæðan sé rakin til þess að fólk á pólitísku jöðrunum hafi að jafnaði meiri þörf fyrir öryggi en aðrir og af þeim sökum hafi það jafnvel enn sterkari sálfræðilegan hvata en ella til þess að sjá sanngirni í kerfinu. 

En hvað segja niðurstöðurnar okkur um stjórnmálin á Íslandi? „Tjah… að á viðsjárverðum tímum, þegar öryggiskennd fólks er almennt ógnað, væri fólk lengst til vinstri og hægri líklegra en annars til þess að ná saman í tilteknum málum, eins og margir myndu segja að hafi raunar gerst í nokkrum veigamiklum málum í kjölfar efnahagshrunsins,“ svarar Hulda að bragði.

Þeir sem vilja heyra meira um þessa spennandi rannsókn Huldu og Evu geta hlýtt á þær í útgáfuboði tímaritsins Stjórnmála og stjórnsýslu fimmtdaginn 17. desember kl. 16:30 í stofu 101 í Odda. Viðburðurinn er opinn öllum áhugasömum. Að erindinu og umræðum loknum býður Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála til 10 ára afmælisboðs á annari hæð Odda.

Hulda Þórisdóttir
Hulda Þórisdóttir