Skip to main content
21. ágúst 2019

Á sjöunda hundrað erlendra nemenda hefja nám í haust

Rúmlega sexhundruð nemendur með erlent ríkisfang hefja nám við Háskóla Íslands í haust, þar af 235 skiptinemar og tæplega fjögurhundruð á eigin vegum. Kynningardagar hófust 21. ágúst og standa til 23. ágúst.

Fyrsta daginn tók starfsfólk Skrifstofu alþjóðasamskipta og nýr alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs ásamt alþjóðanefnd á móti stórum hópi nemenda. Á dagskrá eru spennandi námskeið, skipulagðar gönguferðir um háskólasvæðið, móttaka með lifandi tónlist og grilluðum pylsum, kynningar fræðasviða og viðburðir á vegum Stúdentaráðs.

Náms- og starfsráðgjöf býður  upp á námskeiðið The Keys to Success at the University of Iceland þar sem nemendur fá leiðbeiningar um hvernig vænlegast sé að ná árangri í námi við Háskólann og njóta dvalarinnar á Íslandi. Þá geta áhugasamir nemendur tekið þátt í örnámskeiði í íslensku, Icelandic in 90 minutes. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn verður auk þess með kynningar á safninu og þjónustu þess. 

Á fimmtudeginum 22. ágúst er boðið til móttöku á Háskólatorgi þar sem Jón Atli Benediktsson rektor og Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti Stúdentaráðs, flytja ávörp. Alþjóðanefnd Stúdentaráðs verður með skipulagðar gönguferðir um háskólasvæðið og síðan tekur grillpartý og lifandi tónlist við. Dagskráin heldur svo áfram í Stúdentakjallaranum um kvöldið.

Markmið daganna er að kynna þjónustu Háskólans og auðvelda nemendum að aðlagast nýrri menningu og kynnast öðrum nemendum.

Sjá nánari dagskrá

Erlendir nýnemar boðnir velkomnir