Skip to main content
13. janúar 2023

330 milljónir kr. styrkur í hermisetur til að fjölga heilbrigðismenntuðu fólki

330 milljónir kr. styrkur í hermisetur til að fjölga heilbrigðismenntuðu fólki - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í gær tilkynnti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar hvaða verkefni hljóta styrki við fyrstu úthlutun úr Samstarfi háskóla. Markmiðið með sjóðnum er að auka gæði náms og samkeppnishæfni skólanna. Ellefu samstarfsverkefni sem Háskóli Íslands leiðir fengu samtals úthlutun upp á 729 milljónir króna. Til viðbótar hlutu 10 önnur verkefni sem Háskóli Íslands tekur þátt í stuðning upp á 329 milljónir kr. 

Stærsti einstaki styrkurinn upp á 165 milljónir króna er veittur Háskóla Íslands (HÍ), Háskólanum á Akureyri (HA) og Háskólanum í Reykjavík (HR) til að setja á laggir sérhönnuð færni- og hermisetur til að unnt verði að fjölga nemendum í klínísku námi. Hermikennsla felst í að herma með tæknibúnaði eða leiknum sjúklingum eftir raunverulegum aðstæðum, aðgerðum eða inngripum í öruggu umhverfi, með leiðbeinanda, án þess að heilsu sjúklings sé stefnt í hættu. Sambærilegt framlag kemur frá heilbrigðisráðuneyti til verkefnisins en háskólaráðherra og heilbrigðisráðherra hafa unnið saman að ýmsum hugmyndum um hvernig megi efla heilbrigðismenntun.

Unnur Þorsteinsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, fagnar þessum stuðningi enda brýnt og mikill samfélagslegur þrýstingur á að fjölga nemendum í heilbrigðisvísindagreinum. „Við höfum að undanförnu sett á oddinn mikilvægi þess að byggja upp hátækni færni- og hermisetur til stuðnings við menntun heilbrigðisstarfsfólks og erum mjög glöð með það að yfirvöld hafi svarað þessu kalli. Færni- og hermikennsla er vaxandi kennsluaðferð í heilbrigðisvísindum víða um heim en hermikennsla býður upp á fjölbreytta nálgun í námi þar sem markmiðið er að líkja eftir raunverulegum aðstæðum, aðgerðum eða inngripum í öruggu umhverfi. Styrkurinn mun bæði verða notaður til að þjálfa upp kennara sem búa yfir sérhæfðri þekkingu og þjálfun til að beita kennsluaðferðum í færni- og hermikennslu og til uppbyggingar á sérhönnuðum kennslurýmum og hátækni tækjabúnaði“, segir Unnur Þorsteinsdóttir.

Hermikennsla felst í að herma með tæknibúnaði eða leiknum sjúklingum eftir raunverulegum aðstæðum, aðgerðum eða inngripum í öruggu umhverfi, með leiðbeinanda, án þess að heilsu sjúklings sé stefnt í hættu.