Skip to main content

Doktorsvörn Gunnars Óskarssonar

Doktorsvörn Gunnars Óskarssonar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Doktorsvörn í viðskiptafræði frá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

Nýting ytri upplýsinga í stöðugri nýsköpun: áhrif hæfni stjórnenda í upplýsingatækni og tengdri færni á nýhugsun fjölþjóðafyrirtækja

Föstudaginn 4. mars fór fram doktorsvörn við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Gunnar Óskarsson viðskiptafræðingur varði doktorsritgerð sína ‘Utilizing External Information in Continuous Innovation Processes: The impact of managerial IT skills and supportive capabilities on the innovativeness of multinational companies’ (Nýting ytri upplýsinga í stöðugri nýsköpun: áhrif hæfni stjórnenda í upplýsingatækni og tengdri færni á nýhugsun fjölþjóðafyrirtækja). Andmælendur voru dr. Petter Gottschalk prófessor, BI Handelshöjskolen, Oslo og dr. Rögnvaldur J. Sæmundsson, dósent við Háskólann í Reykjavík. Leiðbeinendur í verkefninu voru dr. Ingjaldur Hannibalsson prófessor, deildarforseti Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands og dr. Patrick Joynt, prófessor við Harstad University og Henley Business School, Reading University. dr. Snjólfur Ólafsson prófessor stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu og hefst kl. 14:00

Markmiðið með doktorsritgerðinni var að kanna hvaða þættir hafa áhrif á nýtingu ytri upplýsinga í nýsköpun, en þær skipta stöðugt meira máli um árangur í vöruþróun og viðvarandi samkeppnishæfni. Einkum var leitast eftir því að kanna hvaða áhrif notkun upplýsingatækni hefði á miðlun upplýsinga úr starfsstöðvum fjölþjóðafyrirtækja. Kjarni rannsóknarinnar byggir á megindlegri rannsókn sem framkvæmd var meðal stjórnenda af ólíku þjóðerni í starfsstöðvum íslenskra fjölþjóðafyrirtækja, og var hún studd af djúpviðtölum og rýnihóp. Megin niðurstaða rannsóknarinnar er að þrír þættir, markaðsfærni, meðtökuhæfni og hæfni stjórnenda í upplýsingatækni hafa umtalsverð áhrif og skýra um 57% af breytileika í nýhugsun fjölþjóðafyrirtækja, en hún er talin gefa góða vísbendingu um það hversu móttækileg fyrirtæki eru fyrir nýjum upplýsingum. Það er fyrst og fremst samspil ofangreindra þátta sem hafa áhrif og er því mikilvægt fyrir fyrirtæki að leggja áherslu á þá alla samtímis. Þessu til stuðnings má nefna að rannsóknir sýna að upplýsingatæknin, eða hæfni stjórnenda í henni hefur einungis áhrif á árangur í nýsköpun ef fyrirtækið hefur einnig mikla hæfni í öðrum mikilvægum þáttum, svo sem markaðsfærni og meðtökuhæfni.

Til viðbótar var kannað hverjar eru helstu uppsprettur ytri upplýsinga, hvaða þættir hafa áhrif á aðgengi að þeim og nýhugsun. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar hafa starfsaldur og menntun jákvæð áhrif á nýhugsun, en ekki greindust marktæk áhrif af öðrum þáttum. Lærdómshneigð hafði jákvæð áhrif að aðgengi að upplýsingum frá samkeppnisaðilum, samstarfsaðilum og dreifingaraðilum, en meðtökuhæfni á aðgengi að upplýsingum frá viðskiptavinum og samkeppnisaðilum.

Niðurstöður rannsóknarinnar nýtast stjórnendum við að meta hversu mikla hæfni fyrirtækin hafa í ofangreindum þáttum og þróa nýjar stjórnunaraðferðir til að efla nýhugsun. Doktorsritgerðin er framlag til fræða sem fjalla um nýsköpun, stefnumótun og nýtingu upplýsingatækni.

Í doktorsnefnd sátu dr. Ingjaldur Hannibalsson prófessor, deildarforseti Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands, dr. Patrick Joynt, prófessor við Harstad University og Henley Business School, Reading University og dr. Friðrik H. Jónsson, prófessor við Sálfræðideild Háskóla Íslands.

Gunnar Óskarsson er fæddur í Reykjavík árið 1954. Hann lauk Cand. oecon. prófi frá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands árið 1983 og MBA prófi frá IMD í Sviss 1985. Samfara námi hefur Gunnar sinnt kennslu við Háskóla Íslands og ýmsum stjórnunarstörfum á sviði upplýsingatækni. Eiginkona Gunnars er Dagný Brynjólfsdóttir, viðskiptafræðingur hjá velferðarráðuneytinu.