Skip to main content

Brugðist við breytingum á starfsferli

Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, prófessor við Félags- og mannvísindadeild

„Rannsóknin snýst um að hanna séríslenskt mælitæki sem metur hve vel fólk ræður við að bregðast við breytingum á starfsferli sínum. Þær breytingar geta verið vegna innri eða ytri áfalla, þegar skipt er um starf eða vegna breytinga í þroska,“ segir Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, prófessor í náms- og starfsráðgjöf, um mælitækið Könnun á aðlögunarhæfni á starfsferli (KANS).

Þróun mælitækisins er hluti af alþjóðlegri rannsókn undir stjórn kennismiðsins Marks Savickas sem er mjög virtur í fræðum um starfsferilinn og náms- og starfsráðgjöf. Alls tóku 18 lönd þátt í rannsókninni og var markmiðið að hvert land myndi þróa mælitæki sem inniheldur alþjóðleg atriði og einnig atriði sem eru sérstök fyrir menningu viðkomandi lands. „Í sumum rannsóknum mínum hef ég byggt á kenningu dr. Savickas og finn samhljóm í mínum fræðilega áhuga og hans kenningu. Þá vantaði líka tilfinnanlega verkfæri í náms- og starfsráðgjöf hér á landi sem snýr að þessum þáttum,“ segir Guðbjörg um upphaf verkefnisins.

Guðbjörg Vilhjálmsdóttir

„Rannsóknin snýst um að hanna séríslenskt mælitæki sem metur hve vel fólk ræður við að bregðast við breytingum á starfsferli sínum. Þær breytingar geta verið vegna innri eða ytri áfalla, þegar skipt er um starf eða vegna breytinga í þroska,“

Guðbjörg Vilhjálmsdóttir

Guðbjörg bendir á að aðlögunarhæfni á starfsferli sé eiginleiki sem nýtist einstaklingum til þess að takast á við bæði fyrirsjáanlegar og ófyrirsjáanlegar breytingar á starfsferlinum. „Það er undir fólki sjálfu komið að finna leiðir til að bregðast við nýjum aðstæðum og finna viðunandi niðurstöðu og mælitækið nýtist til að meta styrkleika eða veikleika í þessari aðlögunarhæfni,“ segir Guðbjörg.

Rannsóknir í landsúrtaki tengdar mælitækinu sýna að konur hafa marktækt meiri hæfni í þáttum eins og að hugsa um það sem er fram undan á starfsferlinum eða að vinna með öðrum að lausn vandamála. Samanburður milli aldurshópa sýnir enn fremur að yngra fólk er marktækt forvitnara um ný tækifæri en eldra fólk treystir meira á sig sjálft. „Þá sýndi rannsókn Lindu Bjarkar Einarsdóttur, MA í náms- og starfsráðgjöf, að atvinnulausir skora mjög lágt á öllum kvörðum mælitækisins. Þá skortir greinilega hæfni til að aðlagast þessum breytingum á starfsferli en mælitækið opnar fyrir möguleika á að efla þá hæfni,“ segir Guðbjörg.

Mælitækið hefur mikla þýðingu. „Nú hafa náms- og starfsráðgjafar og sálfræðingar aðgang að nýju mælitæki sem veitir innsýn í hvernig fólk bregst við breytingum á starfsferli. Öll göngum við í gegnum slíkar breytingar oft á lífsleiðinni og það er mjög mikilvægt hvernig við höldum þá á okkar málum,“ segir Guðbjörg að lokum.