Rannsakar heilbrigði unglinga í framhaldsskólum
Doktorsrannsókn sem miðar að því að meta og bæta heilbrigði ungmenna í framhaldsskólum með nýju skimunartæki hefur fengið styrk úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur við Háskóla Íslands. Styrkhafi er Arna Garðarsdóttir, doktorsnemi í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands.
Rannsóknir sýna að lífstíll unglinga í framhaldsskólum er lakari og áhættuhegðun meiri en hjá nemendum í efsta bekk grunnskóla. Heildræn nálgun skólahjúkrunarfræðinga er nauðsynleg í framhaldsskólum og mikilvægt að þeir hafi yfir að ráða skimunartæki til að vinna á markvissan hátt að heilbrigðismati og bættri fræðslu og ráðgjöf til unglinga þeim til heilsueflingar. Í rannsókninni er stuðst við skimunartækið HEILUNG sem hefur þegar verið þróað og forprófað og byggist það á hugmyndafræði um seiglu.
Í fyrstu tveimur hlutum doktorsrannsóknarinnar er skimunartækið þróað frekar, annars vegar með sex rýnihópaviðtölum og hins vegar með rafrænni könnun meðal unglinga í framhaldsskólum. Er það gert til að stuðla enn betur að réttmæti og áreiðanleika skimunartækisins. Í þriðja hlutanum, sem byggist á þátttökurannsókn, verður unnið með skólahjúkrunarfræðingum að innleiðingu skimunartækisins í framhaldsskólum.
Leiðbeinandi Örnu er Sóley S. Bender, prófessor við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild HÍ, og meðleiðbeinandi er Brynja Örlygsdóttir, dósent við sömu deild. Í doktorsnefnd sitja einnig Kristín Þórarinsdóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild HA, og Renee Sieving, prófessor við Hjúkrunarfræðideild University of Minnesota.
Rannsóknasjóður Ingibjargar R. Magnúsdóttur eflir rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum og veitir styrki til rannsóknaverkefna sem samræmast markmiðum hans. Ingibjörg R. Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur og stofnandi sjóðsins, var fyrrum námsbrautarstjóri í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Hún var einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi og ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1973.
Hægt er að styrkja sjóðinn með ýmsu móti, t.d. með gjöfum í tilefni árgangaafmæla eða útskriftar. Einnig er hægt að senda minningarkort og tækifæriskort frá sjóðnum. Fjárhæðir má leggja inn á eftirfarandi bankareikning hjá Íslandsbanka: 0513-26-004057. Kennitala Styrktarsjóða HÍ er 571292-3199.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.