Fjórir nemendur verðlaunaðir fyrir frábæran árangur í stærðfræði
Fjórir nemendur í stærðfræði við Háskóla Íslands hafa hlotið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Sigurðar Helgasonar prófessors fyrir frábæran námsárangur. Heildarupphæð verðlauna er 8.000 bandaríkjadalir, jafnvirði nærri 900 þúsund króna.
Verðlaunahafar að þessu sinni eru þeir Dagur Tómas Ásgeirsson, Garðar Andri Sigurðsson, Hjalti Þór Ísleifsson og Sölvi Rögnvaldsson. Allir hafa þeir sýnt afburðaárangur í stærðfræði og lokið prófum í flestum námsgreinum með 10 í einkunn.
Garðar Andri lauk BS-prófi í stærðfræði síðastliðið vor og hyggst útskrifast næsta vor með BS-próf í tölvunarfræði.
Sölvi útskrifast nú í október með BS-próf í hagnýttri stærðfræði. Þess má geta að hann hlaut Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands í fyrra fyrir þátt sinn í verkefninu „Áhættureiknir við meðhöndlun sjúklinga með mergæxli“.
Dagur Tómas og Hjalti Þór hafa lokið tveimur námsárum í stærðfræði og m.a. lokið erfiðum námskeiðum, sem venjulega eru tekin á þriðja ári eða í meistaranámi, umfram þær 120 einingar sem eru fullt tveggja ára nám.
Með þessu hafa fjórmenningarnir sýnt afburðadugnað og mikla hæfileika.
Um Verðlaunasjóð Sigurðar Helgasonar prófessors
Tilgangur sjóðsins að verðlauna stærðfræðinema og nýútskrifaða stærðfræðinga fyrir góðan árangur og styrkja þá til frekari afreka í námi og rannsóknum.
Sjóðinn stofnaði Sigurður Helgason, prófessor í stærðfræði við MIT í Boston. Sigurður fæddist á Akureyri 30. september 1927 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1945. Eftir árs nám við verkfræðideild Háskóla Íslands fór Sigurður til Kaupmannahafnarháskóla og lauk þaðan Mag. Scient. prófi í stærðfræði 1952. Hann hélt þá til frekara náms við Princeton-háskóla og lauk þaðan doktorsprófi 1954 og kenndi síðan við Tækniháskóla Massachusetts (MIT), Princeton-háskóla, Chicago-háskóla og Columbia-háskóla. Sigurður varð prófessor við MIT árið 1965 og eftir hann liggja fjölmargar bækur og vísindagreinar um stærðfræði. Hann hefur verið heiðursdoktor við Háskóla Íslands frá árinu 1986 og heiðursfélagi Íslenska stærðfræðifélagsins.
Styrktarsjóðir á borð við Verðlaunasjóð Sigurðar Helgasonar eru mikil lyftistöng fyrir Háskóla Íslands. Skólinn hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga á undanförnum árum en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að hvetja nemendur skólans til dáða, efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.