Skip to main content
23. maí 2022

Tengsl mataræðis og þunglyndis

Tengsl mataræðis og þunglyndis - á vefsíðu Háskóla Íslands

Óþarfi er að fjölyrða um mikilvægi heilbrigðs mataræðis á heilsu og líkamlegt atgervi fólks. Fyrir því liggur fjöldi rannsókna. Rannsóknir MooDFOOD-verkefnisins, sem Heilbrigðisvísindastofnun Háskóla Íslands er hluti af, benda jafnframt til að heilsusamlegt matarræði hafi einnig mikið að segja um andlega líðan okkar. 

Þunglyndi er ein helsta orsök örorku í Evrópu. Þar til nú hafa næringarfræðingar haft takmarkaða getu til að veita ráðgjöf byggða á traustum gögnum til að hjálpa fólki við að hlúa að geðheilsu sinni. Niðurstöður frá MooDFOOD breyta því. Rannsóknir benda nú til þess að heilbrigt mataræði geti hjálpað til við að draga úr þunglyndiseinkennum og þannig stuðlað að bættri geðheilsu. Grænmeti, ávextir, baunir, gróft brauð og fiskur eru dæmi um matvæli sem hafa jákvæð áhrif á andlega líðan. 

Markviss breyting á mataræði minnkar einkenni þunglyndis

MooDFOOD-rannsóknin sýnir að markviss breyting á matarræði með eftirfylgni geti hjálpað til við að minnka einkenni þunglyndis. Þannig sýnir safngreining á framvirkum athugunarrannsóknum að einstaklingar, sem helguðu sig heilbrigðu mataræði og fylgst var með yfir lengri tíma, voru ólíklegri til að þróa með sér þunglyndi miðað við einstaklinga með óheilbrigðara mataræði. Sú niðurstaða bendir til að gagnlegt sé að stíga forvirk skref til að efla sjúklinga og skjólstæðinga með þunglyndiseinkenni í að setja sér markmið um heilbrigðan lífsstíl. 

Rannsóknir sýna sterkar vísbendingar um að reglubundin neysla á fiski, grænmeti og ávöxtum tengist minni líkum á þunglyndi, en slíkt mataræði samræmist vel ráðleggingum um fæðuval sem Embætti landlæknis gefur út. 

Þó ekki hafi fundist örugg tengsl á milli neyslu á fæðu sem alla jafna er talin óholl í óhóflegu magni og aukinna þunglyndiseinkenna er ekki mælt með mikilli neyslu á rauðu kjöti, unnum matvælum, hvítu hveiti, sykri og áfengi.

Þó svo að mikil neysla á viðbættum sykri virðist tengjast auknum þunglyndiseinkennum er enn ekki hægt að fullyrða að svo sé. Það hefur einfaldlega ekki verið rannsakað nægjanlega. Þar af leiðandi er hvatning til heilbrigðs mataræðis, það er athyglinni er beint að fæðuflokkum sem æskilegt er að neyta frekar en þeim sem ætti að forðast, besta leiðin til að hjálpa einstaklingum að bæta geðheilsu sína.

Rannsóknir benda nú til þess að heilbrigt mataræði geti hjálpað til við að draga úr þunglyndiseinkennum og þannig stuðlað að bættri geðheilsu.